Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Vegagerðin hefur auglýst eftir tilboðum í endurbyggingu og breikkun auk lagnavinnu á hringveginum í Mosfellsbæ. Um er að ræða 520 metra kafla milli Langatanga og Reykjavegar.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Vegagerðin hefur auglýst eftir tilboðum í endurbyggingu og breikkun auk lagnavinnu á hringveginum í Mosfellsbæ. Um er að ræða 520 metra kafla milli Langatanga og Reykjavegar. Þetta er eini kaflinn á Vesturlandsvegi í Mosfellsbæ, þar sem akstursstefnur eru ekki aðskildar núna.

Fram kemur í umsókn um framkvæmdaleyfi að Vegagerðin, í samráði við Mosfellsbæ, Landsnet og Veitur, hafi undirbúið framkvæmdir við vegarkaflann. Þessi kafli hringvegar sé nú fjórar akreinar en undirbygging vegarins sé ekki nægilega góð auk þess sem akstursstefnur séu ekki aðskildar. Auk endurbóta á hringveginum verði gerð ný tenging að Sunnukrika. Landsnet og Veitur muni svo endurnýja háspennustrengi sem liggja í veginum.

Helsta markmið framkvæmdarinnar er að auka umferðaröryggi og afköst vegarins, eins og segir í lýsingunni. Tvær akreinar verða í hvora átt, 3,5 metra breiðar, og miðdeili verður þrír metrar að breidd með tvöföldu vegriði.

Það sem er e.t.v. sérstakt við þetta útboð er að vinna á staðnum hefst ekki fyrr en í apríl/maí á næsta ári (2022), samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar.

Um leið og framkvæmdir hefjast þarf að þrengja að umferð (er núna 2+2 akreinar og fer í 1+1). Umferð um veginn verður færð til norðurs á meðan unnið er við bergskeringar sunnan vegarins. Þegar lokið er við breikkun hringvegar til suðurs og gerð nýrrar tengingar að Sunnukrika verður umferðin færð yfir á nýja veghlutann á meðan unnið verður norðanmegin.

Verkið ekki unnið að vetri

„Vegagerðin setur þetta skilyrði um að ekki megi breyta umferðarskipulagi á hringvegi (1) á meðan vetraraðstæður eru,“ segir G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi.

Tilboðum í verkið skal skilað til Vegagerðarinnar fyrir kl. 14:00 þriðjudaginn 21. desember 2021.

Sumarið 2020 var Vesturlandsvegur, milli Skarhólabrautar og Langatanga, breikkaður. Á þessum 1.100 metra kafla í Mosfellsbæ var 2+1-vegur og mynduðust oft bílaraðir á álagstímum. Eftir breikkun eru tvær akreinar í hvora átt og akstursstefnur aðskildar með vegriði.