Þýskur hermaður gætir stríðsfanga í Namibíu. Myndin er tekin á milli 1904 og 1908 þegar þjóðarmorðið á Herero- og Nama-þjóðflokkunum fór fram.
Þýskur hermaður gætir stríðsfanga í Namibíu. Myndin er tekin á milli 1904 og 1908 þegar þjóðarmorðið á Herero- og Nama-þjóðflokkunum fór fram. — AFP
Þýskaland og Namibía gerðu í sumar samkomulag um sættir vegna fjöldamorða, sem sveitir Þjóðverja frömdu á nýlendutímanum og kallað hefur verið fyrsta þjóðarmorð 20. aldarinnar. Samkomulagið olli mikilli reiði í Namibíu og nú er óvíst hvort það verði nokkurn tímann undirritað. Karl Blöndal kbl@mbl.is

Sættir við Namibíu eru fyrir okkur ófrávíkjanlegt verkefni, sem sprettur af sögulegri og siðferðislegri ábyrgð okkar,“ segir í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar í Þýskalandi. Sáttmálinn er 178 síður að lengd og Namibíu er aðeins getið í tveimur setningum, en á bak við þær er löng saga, sem á sér óhugnanlegt upphaf í nýlendubrölti Þjóðverja í lok 19. og upphafi 20. aldar.

Þjóðverjar voru ekki atkvæðamiklir í nýlendukapphlaupinu og seinir til, en saga þeirra þar sem nú er Namibía er blóði drifin. Hún hófst um miðja 19. öldina þegar þýskir trúboðar komu til vesturstrandar Afríku. 1884 varð svæðið að þýskri nýlendu eða verndarsvæði eins og það var þá kallað og hlaut nafnið Þýska Suðvestur-Afríka. Landið var ekki þéttbýlt, en fyrir voru fjölmennastir þjóðflokkarnir Herero, Nama og Witbooi. Nokkuð var um að Þjóðverjar settust þar að og sendar voru þýskar sveitir til að verja þá. Áttu þær í skærum við heimamenn. 1893 réðust þýskir hermenn á þorpið Hornkranz og stráfelldu konur, börn og aldraða. Tveimur árum síðar voru stofnaðar sérstakar bardagasveitir, Deutsche Schutztruppe, til að verja þýska hagsmuni og kæfa niður andóf gegn nýlendustjórninni. Þessar sveitir gerðu lítinn greinarmun á vopnuðum andstæðingum og almennum borgurum og iðulega skildu þeir eftir sig sviðna jörð. Í þessum sveitum voru þegar mest lét 15 þúsund þýskir hermenn, en einnig var fjöldi heimamanna kvaddur í þær.

Fyrirskipun um þjóðarmorð

Í ágúst 1904 kom til úrslitaorrustu milli þýsku sveitanna undir forustu Lothars von Trotha og Samuels Mahareros og uppreisnarmanna úr röðum Herero-þjóðflokksins. Von Trotha vann afgerandi sigur og gaf í kjölfarið út fyrirskipun um að Herero-þjóðflokkurinn skyldi þurrkaður út: „Innan þýsku landamæranna verður hver einasti Herero, með eða án skotvopna, með eða án búfénaðar, skotinn. Ég mun ekki lengur taka við neinum konum eða börnum, rekið þau aftur til sinnar þjóðar eða látið skjóta á þau.“

Eftir þetta voru óvopnaðir Herero-menn skotnir og hengdir þar sem til þeirra náðist. Búfénaði þeirra var ýmist stolið eða slátrað og Þjóðverjar tóku land þeirra. Fjöldamorð voru framin á fólki úr Herero- og Nama-þjóðflokknum. Fólk úr Herero-þjóðflokknum var rekið út í Kalahari-eyðimörkina þar sem þúsundir manna létust úr hungri og þorsta.

Á næstu árum kom til skæra milli Þjóðverja og uppreisnarmanna, en mótspyrna þeirra hafði að mestu verið brotin á bak aftur. Tóku Þjóðverjar þá sem eftir voru, þar á meðal konur og börn, og sendu í fanga- og vinnubúðir. Fangarnir voru látnir þræla fyrir þýsk fyrirtæki og byggja upp innviði nýlendunnar.

Þýskir vísindamenn tóku höfuðkúpur fórnarlamba og fóru með til Þýskalands til rannsókna, sem nota átti til að færa vísindaleg rök fyrir yfirburðum hvíta kynstofnsins yfir öðrum kynstofnum.

Erfitt er að henda reiður á umfangi ódæðisverkanna, en talið er að 65 þúsund manns af 80 þúsund Herero-mönnum hafi verið felldir eða allt að 75% heildarfjöldans í landinu og að minnsta kosti helmingur Nama-manna eða 10 þúsund manns af 20 þúsund. Alls beri sveitir Þjóðverja ábyrgð á dauða 100 þúsund manns. Nú er viðurkennt meðal sagnfræðinga að þetta hafi verið fyrsta þjóðarmorð 20. aldarinnar.

Þegar fyrri heimsstyrjöld braust út breiddust átökin til nýlendu Þjóðverja í Afríku og misstu þeir hana árið 1915 í hendur sveita sameinaðrar Suður-Afríku og bandamanna þeirra, Breta.

Þeim átökum lýsir rithöfundurinn Abdulrazak Gurnah, sem hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum í haust, með áhrifaríkum hætti í bókinni Afterlives, sem kom út í fyrra.

Aðfarir Þjóðverja í Afríku koma einnig við sögu í skáldsögunni Olgu, sem er eftir Bernhard Schlink og kom út á íslensku árið 2019. Þar fer ein sögupersónan til Þýsku Suðvestur-Afríku og tekur þátt í ódæðisverkunum þar. Í huga aðalsöguhetju Schlinks, hennar Olgu, sem ítrekað horfir á eftir sínum heittelskaða leggja í leiðangra til að sigra heiminn, er sóknin eftir nýlendum ein birtingarmynd þess stórmennskubrjálæðis Þjóðverja, sem náði hámarki í vítiseldum seinni heimsstyrjaldar.

Framganga Þjóðverja á nýlendutímanum hefur áratugum saman eitrað samskipti þeirra við Namibíu.

Viðurkenning einni öld síðar

Árið 2004 gaf Heidemarie Wieczorek-Zeul, þáverandi þróunarráðherra Þýskalands, út viðurkenningu á sögulegri og siðferðislegri ábyrgð Þjóðverja á þjóðarmorði Herero- og Nama-þjóðflokksins. Það var einni öld eftir að herforinginn von Trotha gaf út fyrirskipunina um að þurrka út Herero-þjóðflokkinn. Sagði hún að Þjóðverjar myndu bregðast við ábyrgð sinni með því að veita þróunaraðstoð til Namibíu.

Sex árum áður hafði Herero-þjóðflokkurinn krafist skaðabóta þegar Roman Herzog forseti Þýskalands kom í heimsókn til Namibíu. Fulltrúar Herero- og Nama-þjóðflokkanna ítrekuðu kröfuna um skaðabætur aftur árið 2014. Árið eftir hófust viðræður milli namibískra og þýskra stjórnvalda um opinbera afsökunarbeiðni og þróunaraðstoð og 2016 viðurkenndu þýsk stjórnvöld í fyrsta skipti í opinberu skjali að fjöldamorðin, sem þýsku sveitirnar frömdu, hefðu verið þjóðarmorð.

Sú skilgreining skiptir máli. Þjóðarmorð er þýðing á „genocide“, sem er samsett úr gríska orðinu „genos“, sem merkir þjóð eða kynþáttur, og latnesku endingunni „-caedo“, sem merkir að drepa. Bandamenn notuðu orðið fyrst sem lagalegt hugtak árið 1945 þegar réttað var yfir forustumönnum nasista í Nürnberg árið 1945 fyrir morðin á sex milljónum gyðinga í síðari heimsstyrjöld. Þeir voru að lokum dæmdir fyrir glæpi gegn mannkyni. Árið 1948 var þjóðarmorðssáttmáli Sameinuðu þjóðanna samþykktur þar sem það var lagalega skilgreint sem glæpur.

Í maí á þessu ári tilkynnti Heiko Maas, þáverandi utanríkisráðherra Þýskalands, að tekist hefði samkomulag þar sem Þýskaland gengist við því að grimmdarverkin, sem framin voru í upphafi 20. aldar, hefðu verið þjóðarmorð. Skuldbundu stjórnvöld í Berlín sig jafnframt til þess að borga 1,1 milljarð evra (161 milljarður króna) á 30 árum til uppbyggingar innviða og þróunarstarfs í Namibíu.

„Löðrungur í andlitið“

Samkomulagið féll í grýttan jarðveg og afkomendur fórnarlambanna í fjöldamorðunum voru allt annað en sáttir. „Þetta er löðrungur í andlitið,“ sagði namibíski sagnfræðingurinn Salomo Hei, sem á ættir að rekja til fórnarlamba. Að hans mati var klaufalega að sáttagjörðinni staðið. „Það var ekkert tillit tekið til glataðra mannslífa.“

Í samtali við AFP rakti Hei að enn væri viðvarandi tekjumunur milli fólks úr Nama- og Herero-þjóðflokknum og annarra í Namibíu og lýsti því að þegar hann æki til þorpsins, sem hann væri frá, bæri fyrir augu hektara eftir hektara af landbúnaðarjörðum sem forfeður sínir hefðu verið reknir frá, en ættu með réttu að vera í þeirra eigu.

Sima Goeieman, baráttukona úr röðum Nama-manna, sagði að samkomulagið væri „vanvirðing“ og ræki „hnífinn dýpra“ í sár sögunnar.

Fulltrúar Herero og Nama kvörtuðu undan því að hafa ekki fengið að vera með við samningaborðið og gagnrýndu skortinn á gagnsæi í viðræðunum. Um leið voru Þjóðverjar sakaðir um að hafa snúið upp á handlegginn á fjárþurfi stjórnvöldum í Namibíu og þvingað þau til að þiggja lágar bætur. Þá hefur verið harðlega gagnrýnt að í sáttmálanum sé hvergi talað um bætur og Þjóðverjar komið sér undan skyldum, sem því myndi fylgja, samkvæmt alþjóðlegri mannréttindalöggjöf.

Þjóðverjar brugðust við þessari gagnrýni með því að hafna kröfum um bætur og sagði Maas utanríkisráðherra að fjárhagsaðstoðin væri af fúsum og frjálsum vilja. Í fyrirspurnatíma á þýska þinginu viðurkenndi Maas að í áranna rás hefðu komið kröfur um bætur frá ýmsum löndum, þar á meðal Grikklandi og Póllandi, vegna glæpa nasista. „En það verður að halda því til skila að það kemur málinu, sem hér er til umfjöllunar, ekkert við. Ástæðan er sú að þetta samkomulag er algerlega af fúsum og frjálsum vilja, það eru engar lagalegar forsendur sem þessi greiðsla hvílir á,“ sagði Maas og hafnaði því að tala ætti um samninginn við Namibíu á sama tíma og bætur.

Mótmæli og þingfundi slitið

Til stóð að staðfesta samkomulagið á namibíska þinginu í Windhoek. Þegar það var loks tekið fyrir í lok september stóðu 400 manns fyrir utan þingið með spjöld á lofti og mótmæltu harðlega.

Í þingsalnum las Frans Kapofi, varnarmálaráðherra Namibíu, upp yfirlýsingu um að hann hygðist leggja samkomulagið fyrir löggjafarsamkunduna og bætti við að það bæri því vitni að tekist hefði upp að ákveðnu marki að fá þýska sambandslýðveldið til að axla ábyrgð á þjóðarmorðinu. Um leið sagði Kapofi að upphæðin væri ríkisstjórninni áhyggjuefni.

Forseti þingsins gerði sig síðan líklegan til að leggja samkomulagið fram, en sleit skyndilega fundi áður en af því varð.

Þar standa málin enn rúmum tveimur mánuðum síðar og óvíst að samningurinn verði yfirleitt undirritaður. Samningamaður Þjóðverja gaf til kynna í viðtali við Der Spiegel í september að ekki stæði til að setjast niður og semja að nýju. Nú hefur ný stjórn tekið við völdum í Berlín. Eins og kom fram í upphafi er á stefnuskrá hennar að vinna að sáttum við Namibíu, en þar kemur ekki fram hvort hún er tilbúin að ganga lengra en fráfarandi stjórn í að gera upp sakir frá nýlendutímanum fyrir rúmri öld.