Sigursveinn Hilmar Þorsteinsson fæddist í Ólafsfirði 2. mars 1948. Hann lést á gjörgæsludeild SAk 22. nóvember 2021.

Foreldrar hans voru Þorsteinn Mikael Einarsson, f. 23. ágúst 1924, d. 31. desember 2006, og Anna Gunnlaugsdóttir, f. 15. mars 1926, d. 29. nóvember 2011.

Sigursveinn Hilmar var næstelstur í sex systkina hópi: Gunnlaugur Einar, f. 6. apríl 1946, d. 28. júní 2021, Guðbjörg, f. 17. desember 1951, Ingibjörg, f. 7. maí 1954, Þórhildur, f. 13. mars 1958, og Elín Rún, f. 12. desember 1969.

Hinn 31. desember 1967 kvæntist Sigursveinn Hilmar Valgerði Sigurðardóttur frá Ólafsfirði, f. 10. júlí 1947. Faðir hennar var Sigurður Pétur Jónsson, f. 6. apríl 1907, d. 3. október 1980, og móðir hennar Freygerður Anna Þorsteinsdóttir, f. 15. febrúar 1912, d. 7. maí 1987.

Börn Sigursveins og Valgerðar eru: 1) Gunnlaugur, f. 19. september 1968, maki Gerður Ellertsdóttir, f. 22. september 1970. Börn þeirra Örn Elí og Sunneva Lind. 2) Þorsteinn, f. 16. nóvember 1969, dætur hans Valgerður og Álfheiður Birta. 3) Freygerður, f. 1. desember 1973, maki Hermann Herbertsson, f. 4. maí 1975. Dætur þeirra Hanna Karin, Hildur Heba og Eva Hrund. Barnabarnabörn Sigursveins og Valgerðar eru fimm talsins.

Sigursveinn byrjaði á sjó níu ára gamall með afa sínum og stundaði síðan sjómennsku allt sitt líf á ýmsum bátum, togurum og að lokum í eigin útgerð.

Útför hans fer fram í dag, 4. desember 2021, frá Ólafsfjarðarkirkju og hefst hún klukkan 14.

Streymt verður frá útförinni á slóðinni:

https://youtu.be/dBhh6NnAjr4

Hlekk á streymi má finna á:

httsp://www.mbl.is/andlat

Elsku pabbi minn. Mikið er nú sárt að hugsa til þess að fá ekki að hitta þig aftur, ég sem var alltaf svo mikil pabbastelpa og er enn. Það er nú svo að gott er að ylja sér við allar góðu og skemmtilegu minningarnar um þig og okkur. Ein af þeim er þegar þú komst heim af sjónum, þá hékk ég alltaf í fótunum á þér og elti þig um allt hús, og þú náðir meira að segja að pissa á höfuðið á mér, enda var ég þá lítil skotta sem var að forvitnast um af hverju þú stæðir þarna við klósettið. Ég veit ég afneitaði þér einu sinni, en það var líka bara einu sinni og í mjög stutta stund, þegar þú komst heim af sjónum og þá búinn að raka af þér allt skeggið og ég sagði að þú værir sko ekki pabbi minn, enda hafði ég aldrei séð þig án skeggs. En þú pabbi minn ert sko mín fyrirmynd og hetja, þvílíkur baráttujaxl og dugnaðarforkur sem þú varst. Þú varst alltaf tilbúinn í að hjálpa til ef einhver verkefni voru framundan, og alltaf var gott að leita til þín um allskonar ráð. Afahlutverkið þitt var samt það besta við þig, en það byrjaði vel því þú sagðist hætta að reykja þegar ég yrði ólétt, og jú, þú stóðst við það og slökktir í síðustu sígarettunni þau áramót þegar ég tilkynnti mánuði fyrr að von væri á því fyrsta. Og þegar hún Hanna mín fæddist þá var það ekki bara ómetanlegt fyrir þig að vera viðstaddur fæðingu í fyrsta skipti, heldur var það ómetanleg stund að hafa þig með okkur. En þú varst líka afi með stóru a-i, því þú gerðir allt fyrir dætur mínar þær Hönnu, Hildi og Evu, sem og öll hin barnabörnin þín. Þú varst með eindæmum stríðinn við þær og þú náðir þeim á þitt band mjög auðveldlega. En alltaf varstu til í að leika, hvort sem var að skella þér upp á trampólín og taka nokkur hopp með þeim, þó þú hafir sleppt heljarstökkunum sem þær voru nú samt að reyna að kenna þér, eða bara skella þér í kaffiboð með dúkkunum og böngsunum, nú eða taka smá fótboltaleik. Já pabbi minn, það er gott að hugsa til baka og brosa yfir öllum góðu stundunum okkar saman, og ég trúi því að við hittumst einhvern tímann aftur. En þangað til hugsum við til þín og höldum áfram að heiðra minningu þína, hlustum á Kim Larsen, fáum okkur „en stor øl“, styðjum Liverpool og fáum okkur lærissneiðar í raspi. Takk fyrir allt, elsku pabbi minn. Þín dóttir,

Freygerður (Freyja).

Það var nettur kvíðahnútur hjá unga manninum fyrir nær þrjátíu árum, rétt áður en hann hitti Himma fyrst, en einhverjum vikum áður hafði ungi Akureyringurinn og einkadóttirin hist á balli á Dalvík og tekið tal saman eins og gengur og gerist. En þessi fyrstu kynni mín af Himma voru mjög svo þægileg enda Himmi afskaplega góður maður í alla staði. Seinna leiddi hann dóttur sína upp að altarinu í Grundarkirkju þar sem Pálmi frændi hans gaf okkur Freyju saman en er Pálmi talaði til okkar, horfði hann til mín og sagði: „Margur væri knár... að giftast konu frá Ólafsfirði.“ Einu ári áður grétum við saman á fæðingarstofunni hvor sínum megin við rúmið og héldum í hendur unnustu og dóttur, þegar Hanna Karin fæddist, en Himmi var viðstaddur fæðinguna alveg til enda, en Freyja bauð pabba sínum að vera viðstöddum þar sem hann missti af fæðingu sinna barna vegna sjómennsku. Hann var ekki lengi að þiggja boðið og var afskaplega þakklátur fyrir. Himmi var ekki bara tengdafaðir minn, heldur mjög góður vinur. Hann var alltaf boðinn og búinn til að aðstoða okkur fjölskylduna í allskyns breytingum og bætingum heima fyrir. Við brösuðum mikið saman, en um árið sendi ég einn tölvupóst til Póllands fyrir hann sem varð til þess að Doddi Skó ehf. hóf innflutning á Kruger-plastbátum. Himmi sá um sölusviðið í fyrirtækinu eins og hann sagði. Hann tók við símtölum og kjaftaði við áhugasama því ekki veit tengdasonurinn hvað snýr fram eða aftur á bátum. Hann lét mig sjá um innkaupasviðið og erlendu samskiptin, en þetta var skemmtilegur tími hjá okkur tengdafeðgum en við auðvitað létum eins og um væri að ræða risabatterí og farnir að plana innkaupatúra til Póllands. Himmi var harður Liverpool-maður en ég ekki, en við og Doddi mágur fórum afar skemmtilega ferð á leik með liðinu frá bítlaborginni árið 2018. Það hafði lengi verið draumur hjá Himma að fara á leik og hversu fallegt var það þegar hann felldi tár við að opna gjafabréfið á leik með liðinu hans en slegið var saman í stórfjölskyldunni í tilefni sjötugsafmælis hans. Þeir feðgar skemmtu sér feikivel og ég líka þó ekki hafi þetta verið mitt lið og gaman var að sjá stóra drauminn hans rætast. Það var svo tíu árum fyrr sem við Himmi fórum á tónleika með félaga okkar, Kim Larsen í Horsens en Himmi og Gerða voru dugleg að heimsækja okkur fjölskylduna á Danmerkurárunum okkar. Við félagarnir höfðum mikið dálæti á Kim og hlustuðum oft á hann saman. Síðasta ferðalagið okkar saman var til Danmerkur sumarið 2019 en lengi höfðum við ætlað saman upp á Skagen en Himmi og Gerða komu með okkur fjölskyldunni. Leigðum við sumarhús, keyrðum um Norður-Jótland og skoðuðum vitann við Rubjerg Knude og margt fleira. Á kvöldin spilaði amma Gerða við Freyju og dæturnar okkar en oftar en ekki sátum við Himmi með „en øl“ á terrassinu og spjölluðum. Ég á eftir að sakna spjallsins okkar, Himmi, og nærveru þinnar, en „vi ses om lidt“.

Hermann.

Elsku afi Himmi.

Nú er þinni hetjulegu baráttu lokið og þú kominn á betri stað þar sem þér líður vel.

Takk fyrir allar okkar góðu stundir, dýrmæta tímann sem þú áttir með okkur og langafastrákunum þínum. Takk fyrir alla hjálpina í fiskbúðinni okkar, sú hjálp er okkur ómetanleg.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sig.)

Saknaðarkveðjur,

Gerða, Hákon og langafastrákarnir þínir.

Hann var sjómaður dáðadrengur og svo miklu, miklu meira, Nú hefur Himmi minn kæri mágur kvatt þennan heim eftir erfitt og langt stríð við krabbamein. Gerða og hann tóku þetta sem verkefni og aldrei heyrðust þau kvarta. Kærleikurinn og umhyggjan voru í fyrirrúmi. Það væri hægt að finna svo mörg lýsingarorð til að lýsa honum. Hann var heiðarlegur, hjálpsamur, stríðinn, duglegur, elskaði fjölskylduna sína og hafði góða nærveru. Hann var ákaflega barngóður og börn löðuðust að honum. Einu sinni voru þau í heimsókn og það vildi svo til að tvö barnabörn mín voru í pössun hjá okkur. Drengurinn var þriggja mánaða gamall og þjáðist af bakflæði. Himmi gekk með hann um gólf og raulaði og talaði við hann svo drengur var rólegur. Systir hans fimm ára var að horfa á sjónvarpið mjög einbeitt sagði allt í einu: „Þú átt ekkert þennan gaur.“ Himmi var fljótur að sannfæra hana um að hann væri ekkert að fara með hann.

Nokkur sumur fórum við fjögur af sjö systkinum okkar ásamt mökum austur að Mosum á Síðu. Þar var mikið fjör og mikið hlegið. Spilin voru að sjálfsögðu með í farteskinu. Eitt af því sem Himmi gerði var að útbúa krikketbraut. Hann fann upp á alls konar brellum til að ögra okkur. Vinsælastur var þvottabalinn, hann reisti spýtu á ská og ef kúlan fór ofan í þá þurfti að byrja á nýjan leik. Einnig var vinsælt að gera holur við hliðina á hliðunum.

Einn daginn var úrhellisrigning en samt skyldum við út. Allir voru múnderaðir í svarta ruslapoka og einhverjar druslur á höfuðið. Við gátum varla spilað fyrir hlátri.

Himmi var úrvalskokkur og enginn gerði jafn góðan harðfisk og hann.

Eftir að hann hætti á togurunum fékkst hann við fiskverkun og sjóróðra á eigin báti. Hann átti alltaf fallega báta og hugsaði vel um þá. Allt sem Himmi kom nálægt var gert af útsjónarsemi og vandvirkni. Hann og Gerða voru mjög samheldin enda oftast nefnd bæði í sama orðinu. Ég er nokkrum sinnum búin að segja við manninn minn: Ég ætla að hringja í Gerðu og Hi... þá man ég eftir því og sorgin bítur fast. Þvílíkur missir. Himmi var hagleikssmiður og lék allt í höndunum á honum. Þau Gerða áttu fallegt og listrænt heimili. Það var auðséð að hann vissi að hverju dró. Ég er vinkonum mínum afar þakklát að draga mig með í ferð norður. Það þýddi að ég gat stoppað í Ólafsfirði og átt með þeim nokkra klukkutíma. Það var ánægjuleg stund. Það fór ekki á milli mála að hann vildi vera búinn að ganga frá lóðinni fyrir framan húsið.

Hann var dauðþreyttur en málaði samt eina og eina spýtu í grindverkið. Hobbíið hans var að mála málverk og listrænt innsæi leyndi sér ekki. Nú kveðjum við Óli okkar kæra vin og söknum hans mikið. Það er gott að við eigum grátinn. Hvíldu í friði, elsku vinur.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

(Vald. Briem)

Elsku kæra Gerða, Gunnlaugur, Þorsteinn Freygerður og fjölskyldur ykkar allra, Guð gefi ykkur styrk í sorginni. Við Óli sendum samúðarkveðjur.

Margrét F. Sigurðardóttir.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Tíminn er skrítin skrúfa sem brosir kannski bara að okkur mannfólkinu. Þegar við erum ung finnst okkur við hafa nægan tíma til alls, endalausan tíma. Svo þegar við eldumst kemur þessi efi og kannski vissa um að tíminn sé að hlaupa frá okkur. Lífinu er afmarkaður tími, Sumarlandið kallar og tekur frá okkur þá sem okkur eru kærir. Og nú hafa báðir bræðurnir sem ólust upp í Gunnólfsgötu 2 verið kallaðir frá okkur með nokkurra mánaða millibili.

Líklega hefur vantað í Sumarlandið tvo hagleiksmenn sem allt gátu gert og verkin léku í höndunum á. Og ég er viss um að Gulli bróðir, sem var eldri og fór á undan, hefur tekið Himma með útbreiddum faðmi og lagt hann við vanga sinn. Hann Himmi bróðir, sem við kveðjum í dag, var góðmenni sem vildi öllum vel. Ekkert var honum kærara en fjölskyldan, Gerða hans, börnin, tengdabörn, barnabörn og langafabörn. Með hæglæti kom hann skoðunum sínum á framfæri og kenndi með hegðun sinni og ljúfmennsku hvernig best væri að taka á hlutunum. Svo var hann mikill húmoristi, stríðinn og orðið grallaraspói hæfði honum vel, því svo sannarlega naut hann þess að hafa gaman. Himmi bróðir var tíu árum eldri en ég og á ég svo margar góðar minningar um stóra bróður minn. T.d þegar hann gaf mér litla dúkku í gulu burðarrúmi, aldrei hafði ég séð neitt fallegra, á ennþá kjólinn sem dúkkan klæddist. Eða þegar hann gaf mér stóra Spur Cola í kaupfélaginu, þann töfradrykk hafði ég aldrei smakkað áður. Best man ég þó brosið og blikið í augunum hans.

Af systkinahópnum erum við nú fjórar systurnar eftir. Hver missir minnir okkur á að elska lífið sem okkur var gefið, dýrmætustu gjöfina sem við fáum. Og þakka fyrir að hafa fengið að njóta þess að alast upp í húsinu á horninu með elsku mömmu og pabba. Ég kveð Himma bróður minn, ljúfmenni og grallaraspóa, með hjartað fullt af söknuði en líka þakklæti fyrir allt. Hvíl í friði elsku bróðir.

Fyrir löngu. Hann er mér í fersku minni nóvembermorgunninn forðum. Þegar ég, lítil stelpa, vaknaði í morgunskímunni, og allir í húsinu á horninu sváfu. Ég læddist fram og tyllti mér í neðstu tröppuna í stiganum. Allt var hljótt nema einstaka hrota frá herbergi mömmu og pabba. Bræðurnir sváfu í litla herberginu, sáttir saman, eins og alltaf. Systurnar sváfu í borðstofunni, blítt og vært. Og þar sem ég sat fannst mér hjartað mitt hitna og slá hraðar. Veit núna að þetta var bara ástin til þeirra sem ég fann.

Þórhildur Þorsteinsdóttir (Tóta).