„Um íslensku jólafólin: Grýlu, Leppalúða og jólasveinana“ er yfirskrift erindis sem Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur heldur í Landnámssýningunni við Austurstræti í dag, laugardag, kl. 15.
Þar segir hún frá óhugnanlegum sögum og þjóðtrú sem umlykur hina hræðilegu jólafjölskyldu Grýlu, en eins og minnt er á í tilkynningu þá eru þau svo sannarlega ekki öll þar sem þau eru séð.
Í erindinu mun Dagrún segja frá þessari furðulegu fjölskyldu. Sögur af ævintýrum þeirra eru oft skemmtilegar, en stundum svolítið hræðilegar og henta því ekki mjög ungum börnum og viðkvæmum sálum. Þá mun hún einnig fjalla um þær breytingar sem hafa orðið hjá þessum jólavættum frá þjóðsögum og fram til dagsins í dag.