Kristín Carol Chadwick fæddist 5. janúar 1943. Hún lést 15. nóvember 2021. Útförin fór fram 2. desember 2021.

Hún Kristín á Hömrum fylgdi okkur hjónunum í rúma hálfa öld. Hjörtur var fjósamaður hjá þeim Gunnari sumarið 1969 og bræddi þá hjarta mitt varanlega. Við fluttum í sveitina 1972 og þá kynntist ég Stínu og fleiri ungum konum. Það voru þroskandi og skemmtilegir tímar.

Við Stína vinkona vorum ólíkar að mörgu leyti en aldrei slettist upp á vinskapinn þessi 50 ár. Hún nákvæm og skipulögð en líka til í stuð. Ég með brussuganginn, athyglisbrestinn og létta kæruleysið. Ýmsar góðar ráðleggingar fékk ég frá minni kæru vinkonu, t.d. að hafa mál á veggjum í veskinu ef ég rækist á eitthvað sem vantaði til heimilisins. Það dugði vel þegar ég keypti forláta bókahillu og spegil í nýja húsið í Hamravík.

Stína var félagslynd og fróðleiksfús og dugleg að bæta við sig þekkingu á ýmsum sviðum. Hún dreif sig í þýsku, vélritun, tölvufræði og svæðisleiðsögn og fór á tískusýningarnámskeið hjá Hönnu Frímanns í Karon. Hún bar af sýnendum á útskriftarkvöldinu þar, enda var hún glæsileg kona, með góðan takt og þokka. Rauði krossinn naut starfskrafta hennar í fjölda ára, hún var fangavinur, heimsóknarvinur, og öflug í verkefninu Föt sem framlag. Þá var hún virk í kvenfélagi og kirkjukór og tók þátt í endurreisn Gömlu Borgar með fleiri dugnaðarforkum.

Hún var okkur Hirti afar hjálpleg í hótelrekstrinum á Hamri, lagði á ráðin við skipulagningu þvottahússins og tók að sér næturvörslu þegar við brugðum okkur til útlanda. Hún hafði gaman af þessu stússi okkar enda átti hún sér gamlan draum um að vinna á hóteli. Góðar minningar tengjast ferðalögum til Köben, London, Edinborgar og Berlínar og ljúfar stundir áttum við á Spáni haustið 2018.

Við Hjörtur fluttum á Selfoss 2019 og hlökkuðum til þess að njóta samvistanna við Stínu og aðra vini hér. Veikindi hennar breyttu þó miklu og ekki síður Covid-fárið. Ég reyndi eftir bestu getu að létta undir með henni og dáðist oft að seiglunni og æðruleysinu sem hún sýndi við þessar aðstæður. Hún naut frábærrar heimaþjónustu og var afar þakklát þeim góðu konum sem gerðu henni kleift að vera heima í Fosstúni. Stína átti gott sumar eftir geislameðferðina í vor og var farin að huga að bílakaupum þegar örlögin tóku í taumana. Hún vissi hvert stefndi og kvaddi sátt við guð og menn.

Stína kom sannarlega mörgu í verk á lífsleiðinni. Dæmi um það er bókin hennar „Tveggja landa kona“ sem hún gaf út í 25 eintökum svo að afkomendur hennar fengju að kynnast ævi hennar og starfi. Í tvö ár greip hún í verkið, handskrifaði í stílabækur og svo var allt fært í tölvu, 130 síður með völdum myndum. Í lokakaflanum stendur þetta: „Ég hef litið á lífið eins og verkefni sem þarf að leysa og gengið í það með þeim aðferðum sem mér fannst að myndu duga í hvert sinn. Trúin hefur hjálpað mér og gefið mér æðruleysi. Lífið er ekki alltaf eftir óskalista, málið er að læra að lifa með lífinu í gleði og sorg.“ Það tókst Stínu minni vel.

Systkinin frá Hömrum og fjölskyldur þeirra fá innilegar samúðarkveðjur okkar Hjartar. Guð blessi minningu Stínu vinkonu minnar.

Unnur

Halldórsdóttir.