Ísleifur Birgisson fæddist 23. febrúar 1981. Hann lést 13. nóvember 2021. Ísleifur var jarðsunginn 3. desember 2021.

Elsku Ísleifur. Hvernig byrjar maður að skrifa minningargrein um þig, það er svo erfitt af því maður er að tala við þig í hinsta sinn. Minningarnar eru margar og svo góðar og skemmtilegar. Ég man svo vel daginn sem þú fæddist. Ég var á leið heim úr skólanum þegar vinkona mín kom hlaupandi og sagði að ég væri búin að eignast frænda. Ég hljóp svo spennt heim og spurði mömmu hvort þetta væri satt og hún játti því. Stuttu seinna var ég komin heim til ykkar til að sjá þig. Þú varst svo lítill og sætur, mig langaði hreinlega að stinga þér i vasann og hafa þig með mér hvert sem ég færi.

Ég man eftir því þegar fyrstu jólin þín nálguðust, þá saumaði mamma þín á þig voða fínar sparibuxur úr grárri ull og bindi í stíl og svo varstu í voða fínni hvítri skyrtu. Það er til mynd af þér í þessum fötum þar sem þú situr á Fischer Price-bílnum sem þú varst vanur að burra út um allt á. Ég passaði þig fyrsta sumarið þitt þegar mamma þín fór að vinna. Þá var fæðingarorlofið ekki eins langt og það er í dag. En mér fannst gaman að setja þig í barnavagninn og þeysa niður Laugaveginn með þig. Í eitt skiptið þegar ég var að fara niður Laugaveginn voru framkvæmdir fyrir framan Gull og silfur, það var búið að taka allar hellurnar upp með tilheyrandi hnjaski. Ég geystist þarna í gegn, en á miðri leið stoppaði mig kona og sagði: „Þú verður að fara hægar yfir, barnið getur bara skoppað upp úr vagninum!“ Ég fór varlegar eftir það, því ekki vildi ég að þú skoppaðir upp úr vagninum.

Þú varst eyrnabarn eins og sagt er, og fannst stundum til, og til að róa þig svo þú gætir sofnað hélt mamma þín á þér í fanginu og raulaði sama lagið aftur og aftur. Á endanum varstu sjálfur farinn að raula þetta í fanginu á mömmu þinni til að geta sofnað. Svo þegar þú eltist fórstu að gera svolítið sem fylgdi þér þegar þú varst lítill, og það var að setja munninn í stút og anda ótt og títt í gegnum nefið, og þú varst svo mikið krútt þegar þú gerðir þetta. Þér fannst mjög gott að borða, og það sem þú gast borðað. Þér fannst skyr ótrúlega gott. Þú gast borðað reiðinnar ósköp af því. Já, ég tengi skyr við þig eins og snjóinn við veturinn.

Það er svo sárt að sjá á eftir þér, en svona er nú lífið, fólk lifir og deyr og þú fórst allt of snemma. En þú skilur eftir þig þrjá litla engla, kannski á maður eftir að sjá blik í þeim sem minna á þig. Svo varðstu fullorðinn og varst alltaf kátur og glaður. Eða eins og börnin mín minnast þín; hann var alltaf svo kátur og spilaði mikið á gítarinn sinn.

Ég bið algóðan kærleiksríkan Guð að sefa sorg foreldra þinna, systur og barna, því harmur þeirra er mikill. Elsku Ísleifur, þetta verða hinstu orð mín til þín, ég vildi að svo væri ekki. En minningin um góðan dreng lifir.

Farðu í Guðs friði,

og friður Guðs þig blessi.

Kærleikskveðja,

Ágústa.

Elsku Ísi, elsku gamli vinur. Eða Ísó, eins og Einsi bróðir var vanur að kalla þig í stríðni en það þótti okkur afar glatað. Við vorum góðir vinir i Hvassó og MH þótt leiðir hafi svo skilið. Ég gleymi samt aldrei glaða brosinu þínu og átti alltaf von á að við myndum hittast aftur, bara spurning um tíma. Maður heldur alltaf að maður hafi meiri tíma. Elsku Ísi, það er þyngra en tárum taki að þú hafir séð þessa einu leið færa. Vinmargur, glaður og skemmtilegur, en hvað veit maður svo sem hvað dylst bak við fallegt bros? Þótt ég hafi ekki hitt þig í fleiri ár þá mun ég samt sakna þín gamli vinur, því heimurinn var sannarlega betri með þig í honum.

Mínar innilegustu samúðarkveðjur til þinna nánustu í þessari sáru sorg, missir ykkar er mikill.

Þín vinkona,

Guðrún Eiríksdóttir.