Jólasýningin árlega, „Svona eru jólin“, verður opnuð í Ásmundarsal við Freyjugötu í dag, laugardag, kl. 12. Um er að ræða sölusýningu verka hátt í 200 listamanna og að sögn eins aðstandenda sýningarinnar má kalla framkvæmdina einskonar „myndlistarannál“ því langflest verkin eru frá síðasta ári en listamennirnir sem boðin var þátttaka voru beðnir um að sýna ný verk.
„Svona eru jólin“ verður opin alla daga til 17. desember. Í Gryfjunni verður eins og áður sett upp grafíkverkstæði þar sem listamenn vinna alla daga að nýjum grafíkverkum í upplagi. Meðal þeirra sem þar starfa má nefna Önnu Rún Tryggvadóttur, Margréti H. Blöndal, Jón B.K. Ransu, Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur, Kristin Má Pálmason og Melanie Ubaldo.