Eiríkur Sigurðsson fæddist 4. desember 1961 á Húsavík og bjó þar þangað til hann flutti til Reykjavíkur árið 1995. „Lífið hefur alltaf snúist um sjóinn og ég hef aldrei unnið ærlegt handtak í landi. Var byrjaður að beita línu sem smástrákur og farinn að róa á trillu með pabba og fleirum fyrir fermingu. Þegar ég var 14 ára var ég ráðinn háseti á hið fræga aflaskip Gísla Árna RE 375 með skipstjórunum Eggerti Gíslasyni og Sigurði Sigurðssyni, föður mínum. Það var mikil reynsla fyrir ungan dreng en hrikalega erfitt og ég hef aldrei síðar á ævinni verið eins þreyttur og þá. Sofnaði stundum standandi.“
Eiríkur var í grunnskóla á Húsavík og þegar hann hafði aldur til fór hann í Stýrimannaskólann og lauk honum í Vestmannaeyjum árið 1982 með hæstu einkunn sem tekin hefur verið úr þeim skóla frá upphafi.
Fljótlega eftir námið var Eiríkur orðinn skipstjóri og hefur verið það síðan á ýmsum skipum en mest frystitogurum. Hann var t.d. skipstjóri á Hágangi II á tímum Svalbarðadeilna þegar norska freigátan Senja skaut á skipið árið 1994. Skrifaði Eiríkur grein um málið í Vikublaðið árið 2015.
Þegar Eiríkur var skipstjóri á Pétri Jónssyni RE 69 bjargaði hann og áhöfn hans 15 manna áhöfn af sökkvandi skipinu Gideon á Flæmska hattinum árið 2005, en ekki var þó allt með felldu hvernig það skip sökk. „Rannsóknarnefnd sjóslysa í Lettlandi, en skipið var skráð þar, þótt eigendurnir væru íslenskir, fullyrti að skipinu hefði verið sökkt. En skipið er á mörg hundruð metra dýpi og það er ekki hægt að kafa eftir sönnunargögnunum. Það náðist því að svindla á tryggingafélögunum, en það vita allir að Gideon var sökkt.“ Eiríkur hefur einnig skrifað grein um þetta mál, en hann hefur skrifað margar greinar í sjómannablöðin og fleiri blöð.
Síðustu tíu ár hefur Eiríkur verið skipstjóri á eistneska togaranum Reval Viking sem Reval Seafood gerir út, en hann hefur unnið hjá þeirri útgerð í meira en fimmtán ár. Eiríkur nær að halda jólin heima hjá fjölskyldu sinni í fyrsta skipti í mörg ár, en erlendis eru nánast hvergi reglur um að ekki skuli sigla á jólunum. „Maður má vera úti hvenær sem er og hve lengi sem er. Það hefur komið fyrir að ég hafi verið alveg upp í fjóra mánuði á sjó án þess að koma heim. En þetta er spennandi umhverfi, fyrir fiskimann þá er gaman að geta verið meira en bara á Íslandsmiðum. Við erum alls staðar, við Kanada, Vestur- og Austur-Grænland, norðan við Svalbarða, það er nánast allt Atlantshaf undir.“
Eiríkur fer út á sjó í byrjun janúar, en hann er oftast eini Íslendingurinn í áhöfninni. „Við erum stundum tveir en restin af áhöfninni er frá Eistlandi og Úkraínu. Þetta eru öflugir og traustir menn. Þeir bera óttablandna virðingu fyrir skipstjóranum og gera það sem þeim er sagt og röfla ekkert yfir því.“
Áhugamál Eiríks eru íþróttir, útivist og veiðiskapur af öllu tagi. „Ég hef alla ævi reynt að vera í góðu formi og stundað allskonar hreyfingu. Var í fótbolta í Völsungi á Húsavík þangað til ég fór á sjóinn en hef síðan stundað skíðagöngu af kappi, hljóp mikið á tímabili og hef stundað fjallgöngur. Ég hef tekið þátt í ýmsum löngum skíðagöngukeppnum eins og t.d. hinni 90 km löngu Vasagöng í Svíþjóð. Hef líka verið mikið að kenna á skíðagöngunámskeiðum hjá Ulli, skíðagöngufélagi höfuðborgarsvæðisins. Annars er helsta áhugamálið að fylgja dætrunum eftir í því sem þær taka sér fyrir hendur.
Ég hef aldrei verið mikið fyrir veisluhöld og á því verður engin breyting núna og mun því láta mig hverfa „hægt og hljótt“ eitthvað út í buskann í tilefni afmælisins og blóm og kransar því afþakkaðir.“
Fjölskylda
Eiginkona Eiríks er Guðrún Sæmundsdóttir, f. 12.6. 1967, lyfjafræðingur og fv. landsliðskona í knattspyrnu. Þau búa í Bústaðahverfinu í Reykjavík. Foreldrar Guðrúnar voru Sæmundur Kjartansson, f. 27.9. 1929, d. 21.9. 2014, læknir frá Vestmannaeyjum og Málfríður Anna Guðmundsdóttir, f. 30.11. 1929, d. 1.4. 2015, kennari frá Raufarhöfn.Dætur Eiríks og Guðrúnar eru 1), Málfríður Anna Eiríksdóttir, f. 27.9. 1997,verkfræðingur og knattspyrnukona í Val; 2) Hlín Eiríksdóttir, f. 12.6. 2000, háskólanemi og knattspyrnukona í Pitea í Svíþjóð; 3) Arna Eiríksdóttir, f. 14.9. 2002, háskólanemi og knattspyrnukona í Val; 4) Bryndís Eiríksdóttir, f. 7.10. 2005, nemi í Verslunarskólanum og knattspyrnukona í Val.
Systkini Eiríks eru Arnar Sigurðsson, f. 2.8. 1963, búsettur á Húsavík; Hafdís Sigurðardóttir f. 6.10. 1968, búsett í Reykjavík; Anna Íris Sigurðardóttir, f. 29.9. 1972, búsett í Reykjavík.
Foreldrar Eiríks: Hjónin Sigurður Sigurðsson, f. 20.12 1928, d. 8.2. 2016, og Hlín Einarsdóttir, f. 26.3. 1935, húsmóðir. Þau bjuggu á Húsavík og þar býr móðir Eiríks enn þá.