Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Í boð hann veislubúinn fer, band á snældu flækt er hér. Köttur spáir komu hans. Kvæði orti sá með glans. „Enn er það lausn,“ segir Harpa á Hjarðarfelli: Boðsgestur á þorrablótið.

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Í boð hann veislubúinn fer,

band á snældu flækt er hér.

Köttur spáir komu hans.

Kvæði orti sá með glans.

„Enn er það lausn,“ segir Harpa á Hjarðarfelli:

Boðsgestur á þorrablótið.

Bandflækja á gesti veit.

Köttur gerir gestaspjótið.

Gestur orti ljóðin heit.

Eysteinn Pétursson svarar:

Gestur í veislu velbúinn fer.

Víst oft gestur á bandi er.

Komu gesta köttur spáði.

Kvæði Gests ég lesa náði.

Svar Bergs Torfasonar frá Felli við gátunni:

Í veislu hver gestur gullbúinn fer,

gestur er flækja á snældu hjá mér.

Kattarlöpp spáir oft komu gests,

kvæðin hans Gests hef eg lesið flest.

Guðrún B svarar:

Gestur er í góðum kjól

og gestur flækjuband á snældu.

Gestaspjót lóru leit um jól.

Lómur hét Gestur, veðrin tældu.

Helgi R. Einarsson svarar:

Ég viskubrunnur enginn er

og ýmis hjá mér brestur,

en lausnarorðið held ég hér

hljóti að vera gestur.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna svona:

Gestur veislubúning ber.

Band í flækju gestur er.

Gestakomu kettir spá.

Kvæði orti Gestur sá.

Þá er limra:

Það stendur hér einn fyrir utan

óvæntur gestur með kutann,

kallar á mig

og kallar á þig:

„Nú sígur á seinni hlutann.“

Síðan er ný gáta eftir Guðmund:

Í morgun seint á fætur fór,

fráleitt dugir svoddan slór,

er hér gáta enn á ferð

í afar miklum flýti gerð:

Tengja karl og konu má,

kannski líka fiska tvo.

Tónar streyma tíðum frá.

Á töðuvelli eru svo.

Ólafur Davíðsson orti:

Finnst mér lífið fúlt og kalt,

fullt er það af lygi og róg,

en brennivínið bætir allt

bara ef það er drukkið nóg.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is