Óperukórinn í Reykjavík flytur Requiem eftir Mozart með einsöngvurum og hljómsveit á árlegum tónleikum kórsins undir stjórn Garðars Cortes, í Langholtskirkju í kvöld, laugardag, og fram yfir miðnætti. Yfirskrift tónleikanna er „Mozart á miðnætti“ og verður verkið flutt á dánarstund tónskáldsins. Húsið er opnað klukkan 23.30 í kvöld en tónleikarnir hefjast klukkutíma síðar.
Óperukórinn í Reykjavík hefur árlega frá 2004 flutt sálumessu Mozarts á dánarstund hans. Tónleikarnir eru helgaðir minningu meistarans og þeirra íslensku tónlistarmanna sem látist hafa frá síðasta flutningi verksins.
„Þessir tónleikar eru okkur mjög þýðingarmiklir, en í hljómsveitinni og kórnum er fólk sem kemur ár eftir ár til að búa þessa músík til og skapa þessa stund,“ segir í tilkynningu. Kórinn skipa yfir 60 manns, hljóðfæraleikarar eru 25 talsins en einsöngvarar eru Þóra Einarsdóttir, Sigríður Ósk Kristjánsdóttir, Benedikt Kristjánsson og Kristinn Sigmundsson.