Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
Eftir Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur: "Stjórnarsáttmáli sem tiltekur að styðja þurfi börn af erlendum uppruna vísar vonandi til barna af erlendum uppruna í öllum sveitarfélögum landsins."

Það er alltaf betra þegar lagt er af stað með góðum hug. Þann góða hug má víða sjá í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Stefnt er að því að gera samfélagið okkar enn betra, þó óljósara sé hvernig ríkisstjórnin ætli að framkvæma það sem stefnt er að. Á stjórnarsáttmálanum má sjá að stjórnin gerir sér grein fyrir að mörg þeirra verkefna eru í raun á könnu sveitarfélaga og verða ekki að veruleika nema í nánu samstarfi við þau.

Fjölbreytni samfélags eflir það og styrkir

Við í Viðreisn erum sammála ríkisstjórninni þegar hún segir að þátttaka fólks af erlendum uppruna auki fjölbreytileika, efli íslenskt samfélag og menningu og sé ein forsenda fyrir vexti efnahagslífsins. Það þarf að tryggja réttindi þeirra sem hingað vilja flytja, til þjónustu, náms og vinnu og leyfa þeim að búa sér til betra líf og taka virkan þátt í samfélaginu. Þannig verður allt samfélagið betra.

Það á að móta stefnu í málefnum útlendinga sem miðar að því að fólk sem hér sest að hafi tækifæri til aðlögunar og virkrar þátttöku í samfélaginu og á vinnumarkaði. Sveitarfélögin hagnast öll á því að huga að inngildingu allra íbúa sinna, sama hver uppruni þeirra er. Það að hámarka þátttöku allra íbúa í samfélaginu skiptir alls staðar máli. En til þess að sveitarfélögin geti stuðlað að virkri þátttöku og inngildingu í samfélagið verða þau að hafa burði til þess. Það þarf bæði fjármuni og faglega starfskrafta með mikinn stuðning til að sinna nauðsynlegum verkefnum sem eiga að leysa úr læðingi það afl sem felst í íbúum af erlendum uppruna í þágu samfélagsins alls.

Það á sérstaklega að styðja börn af erlendum uppruna

Stjórnarsáttmálinn tiltekur sérstaklega að rík áhersla verði lögð á stuðning til aðlögunar við börn af erlendum uppruna og fjölskyldur þeirra. Þar verði sérstaklega horft til skóla- og frístundastarfs og aðgengi aukið að íslensku- og samfélagsfræðslu. Við vitum hversu mikilvægt það er fyrir börnin, ef þau eiga að fá sömu tækifæri og aðrir til menntunar, að fá stuðning í skólum. Þetta er mikilvæg stoð inngildingar í íslenskt samfélag. Þarna erum við alveg sammála í orði. En eftir á að koma í ljós hvort það eigi líka við á borði.

Á bara að styðja helming barnanna?

Reykjavíkurborg hefur þurft að höfða dómsmál gegn íslenska ríkinu, því ríkisvaldið ákvað án lagastoðar að Reykjavík, eitt sveitarfélaga, gæti ekki fengið greiðslur úr Jöfnunarsjóði vegna skólastarfs og kennslu barna af erlendum uppruna. Ríkið hefur ennþá tækifæri til að semja við Reykjavíkurborg til að jafna stöðu barna af erlendum uppruna um allt land. Þá samþykktu þessir ríkisstjórnarflokkar árið 2019 að breyta lögum um Jöfnunarsjóð til þess eins að Reykjavíkurborg geti ekki verið metin á sömu forsendum og önnur sveitarfélög. Á fyrra kjörtímabili þessarar ríkisstjórnar virtist það því vera sérstakt markmið hennar að tryggja börnum í þessu eina sveitarfélagi ekki sama stuðning og hún vildi tryggja börnum í öllum öðrum sveitarfélögum.

Helmingur allra innflytjenda á Íslandi býr í Reykjavík og tæplega helmingur allra barna á grunnskólaaldri, frá 6-16 ára. Þegar stjórnarsáttmálinn tiltekur sérstaklega að styðja þurfi börn af erlendum uppruna í skólakerfinu, þá á þessi ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks vonandi við að styðja þurfi öll börn af erlendum uppruna en ekki bara þann helming barna sem býr utan Reykjavíkur.

Höfundur er formaður borgarráðs og oddviti Viðreisnar.

Höf.: Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur