[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Óskar Guðmundsson. Storytel 2021. Innb., 237 bls.

Stjórnlaust brjálæði kemur fyrst upp í hugann eftir lestur spennusögunnar Dansarans eftir Óskar Guðmundsson. Erfiðar heimilisaðstæður í æsku geta haft þessi áhrif, gætu viðkvæmir bætt við.

Í stuttu máli fjallar sagan um vonir og þrár, drauma sem verða skyndilega að engu. Í stað glæstrar framtíðar blasir ekkert við nema dauði og djöfull. Ekkert ljós, engin von. Ekki beint uppörvandi.

Tony er leiksoppur örlaganna. Hann elst upp hjá einstæðri móður og eftir að hún verður fyrir áfalli verður hann að standa og sitja eins og hún skipar fyrir, halda áfram í hennar sporum. Honum er strítt í skóla, hann nær engu sambandi við aðra og ekki einu sinni afa sinn, sem reynir allt hvað hann getur til þess að beina drengnum í góðan farveg.

Þessi grunnhugmynd er góð svo langt sem hún nær, en byggingin ofan á hana er svona sitt lítið af hverju frekar en vandlega íhuguð atburðarás. Innkoma Dodda er til dæmis vel hugsuð með minningu um stuðning í huga en missir algerlega marks, því eftirfylgnina vantar. Tenging Gunnhildar og Beggu er áhugaverð, en lesandinn þarf sjálfur að fylla í eyðurnar. Lykt af dúkum vekur athygli rannsakenda, en síðan er ekkert gert með vísbendinguna þótt lesandinn geti auðveldlega lagt saman tvo og tvo.

Glæpasagan Dansarinn er villt og viðbjóðsleg frásögn. Níðst er á börnum og dýrum og það góða í fólki er virt að vettugi. Sagan hverfist um Tony, sem er ekki venjulegur ungur maður enda bregður hann sér í nokkur hlutverk, lætur finna fyrir sér og eirir nánast engu. Svolítið ósamræmi miðað við frammistöðu hans í Broadway. Leiftrin eru mörg en þau eru eins og norðurljósin; vekja athygli, en vara of stutt.

Steinþór Guðbjartsson