Skip Fólkið bíður eftir að komast um borð í ferjuna í Flatey.
Skip Fólkið bíður eftir að komast um borð í ferjuna í Flatey. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Innviðaráðherra verður falið að kaupa nýja Breiðafjarðarferju sem uppfyllir kröfur nútímans um öryggi og þægindi farþega og getur sinnt vöruflutningum fyrir atvinnulíf og íbúa á Vestfjörðum og við Breiðafjörð.

Innviðaráðherra verður falið að kaupa nýja Breiðafjarðarferju sem uppfyllir kröfur nútímans um öryggi og þægindi farþega og getur sinnt vöruflutningum fyrir atvinnulíf og íbúa á Vestfjörðum og við Breiðafjörð. Kannaðir verði möguleikar á að ferjan verði knúin með endurnýjanlegum orkugjöfum. Þetta er efni þingsályktunartillögu sem lögð hefur verið fram á Alþingi og Eyjólfur Ármannsson, þingmaður úr Flokki fólksins, stendur að. Sjö aðrir þingmenn, meðal annars úr Sjálfstæðisflokki og VG, standa að tillögu þessari.

Enn fremur er í tillögunni gert ráð fyrir að fram að því að ný Breiðafjarðarferja verði tilbúin skuli Herjólfur III, gamla Vestmannaeyjaferjan, nýttur í hennar stað. Því fylgi að strax í júní á næsta ári skuli hefja framkvæmdir á hafnarmannvirkjum svo Herjólfur hæfi í nýju hlutverki.

Mikilvægt hlutverk

Í greinargerð segir að þótt búið sé að bæta vegi á Vestfjörðum mikið – og áfram sé haldið í þeirri leið – sé hlutverk Breiðafjarðarferjunnar Baldurs aldrei mikilvægara. Vestfirðirnir skori sömuleiðis hátt meðal ferðalanga. Nú þegar Dýrafjarðargöng eru komin í notkun og þegar nýr vegur um Dynjandisheiði verði tilbúinn sé fyrirsjáanlegt að fólk á Ísafjarðarsvæðinu muni fremur fara þá leið suður en aka um Djúpið. Í því samhengi sé nýr Baldur mikilvægur – og einnig því að fiskeldi sé nú orðið undirstaða í atvinnulífi á Vestfjörðum. Flutningar afurða og aðfanga aukist stöðugt. Miklu skiptir að ferskar afurðir skili sér á áfangastað sem fyrst. Því sé afar mikilvægt að ferjusiglingar séu öruggar og ferjan anni eftirspurn. Sú sé ekki raunin með Baldur nú og því sé nýtt skip nauðsyn. sbs@mbl.is