Ólafur Hallgrímsson
Ólafur Hallgrímsson
Eftir Ólaf Hallgrímsson: "Þolgæði og samheldni, ásamt því að hlíta ráðum færustu sérfræðinga á hverjum tíma og í trausti til Guðs föðurforsjónar, mun skila okkur út úr heimsfaraldrinum."

Vart þarf að fara mörgum orðum um heimsfaraldurinn Covid-19, sem nú hefur valdið dauða milljóna um heim allan og geisað hefur hér á landi í bráðum tvö ár.

Okkur hefur þó tiltölulega vel farnast í baráttunni við vágestinn, sem líklega helgast mest af því að heilbrigðisyfirvöld hafa blessunarlega borið gæfu til að fylgja fyrirmælum sóttvarnalæknis og annarra sérfræðinga í öllum ákvörðunum sínum.

Allt hefur miðað að því að vernda líf og heilsu landsmanna, svo sem kostur er, fjöldatakmarkanir á mannamótum, aðgerðir á landamærum, og almenn grímuskylda. Á liðnu hausti virtist sem faraldurinn væri í rénun og smitum fækkaði, og var þá brugðið á það ráð að slaka verulega á aðgerðum og afnema grímuskyldu.

Afleiðingin varð sú, sem margir óttuðust, að faraldurinn gaus upp að nýju, svo nú er talað um fjórðu bylgjuna.

Fjöldatakmarkanir hafa verið hertar á nýjan leik og grímuskylda innleidd á ný. Landsmenn munu því enn um sinn þurfa að búa við nokkuð skert frelsi til athafna, sem enginn veit raunar á þessari stundu hversu lengi mun vara. Vel hefur miðað við bólusetningar, en reynslan hefur sýnt að bólusetning skiptir sköpum í baráttunni við veiruna, því þótt bólusett fólk geti smitast verður það ekki eins illa veikt. Von okkar eins og annarra þjóða er því bundin áframhaldandi bólusetningum ásamt tilheyrandi sóttvarnaaðgerðum.

En nú þegar herða þarf sóttvarnaaðgerðir á nýjan leik, þá bregður svo við að raddir heyrast frá ólíklegustu afkimum þjóðfélagsins, þar sem aðgerðir heilbrigðisyfirvalda eru gagnrýndar á þeim forsendum að ekki megi skerða athafnafrelsi einstaklinganna um of eða þrengja að frelsi þeirra yfirleitt.

Maður nokkur var í viðtali í fréttaskýringarþætti Rásar 1 24. nóv. og var mikið niðri fyrir, talaði fjálglega um að ekki mætti ganga of nærri persónufrelsi þegnanna til að ráða sínum málum sjálfir án íhlutunar embættismanna og stjórnvalda. Honum varð tíðrætt um frelsið, taldi að treysta ætti dómgreind fólks og virða frelsi þess, m.a. til að þiggja bólusetningu, enda væri Covid-19 ekki eins hættulegt og af væri látið, 99% þeirra sem smituðust næðu bata, kvaðst að vísu hafa samúð með öldruðum og fólki með undirliggjandi sjúkdóma, sem ættu á hættu að veikjast, en helst var að skilja að sá hópur skipti ekki meginmáli í stóra samhenginu.

En frelsi hverra, þeirra sem eru að græða peninga, eða hinna, sem eiga jafnvel líf sitt og heilsu undir öðrum komið og hafa takmarkað athafnafrelsi?

Þegar öllu er á botninn hvolft, snýst þá ekki spurningin um það, hvort við teljum mikilvægara að vernda, lífið eða peningana?

Gróðinn eða lífið, það er spurningin. Skal þó engan veginn gert lítið úr þeim afleiðingum, sem faraldurinn hefur haft fyrir fjárhag einstaklinga og fyrirtækja í landinu.

En að vernda lífið hlýtur alltaf að njóta vafans þegar ráðist er í aðgerðir sem koma illa við fólk. Þetta hefur ríkisstjórnin, sem nú er að láta af störfum, gert sér ljóst og miðað aðgerðir við það.

Vonandi heldur ný ríkisstjórn áfram á sömu braut.

Nú reynir á samstöðu okkar sem þjóðar og úthald.

Þolgæði og samheldni, ásamt því að hlíta ráðum færustu sérfræðinga á hverjum tíma og í trausti til Guðs föðurforsjónar, mun skila okkur út úr heimsfaraldrinum að lokum.

Höfundur er pastor emiritus á Mælifelli.