Rósa var nýlega dómari í nýsköpunarhraðli framhaldsskólanema. Hún segir gaman að sjá þá hugmyndaauðgi og grósku sem unga fólkið býr yfir.
Rósa var nýlega dómari í nýsköpunarhraðli framhaldsskólanema. Hún segir gaman að sjá þá hugmyndaauðgi og grósku sem unga fólkið býr yfir. — Morgunblaðið/Eggert
Starfsemi tækni- og nýsköpunarfyrirtækisins Reon er í stöðugri þróun og verkefnin jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Rósa Dögg settist á dögunum í framkvæmdastjórastólinn og tekur við góðu búi af Elvari Erni Þormar.

Starfsemi tækni- og nýsköpunarfyrirtækisins Reon er í stöðugri þróun og verkefnin jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Rósa Dögg settist á dögunum í framkvæmdastjórastólinn og tekur við góðu búi af Elvari Erni Þormar.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Undanfarin ár hefur verið ótrúlegur gangur hjá Reon. Félagið hefur vaxið jafnt og þétt í gegnum árin og er núna á meðal öflugustu hugbúnaðarhúsa landsins. Síðustu misseri höfum við verið að stækka hratt en starfsmannafjöldi Reon hefur tvöfaldast undanfarin tvö ár. Það felast áskoranir í því að viðhalda þeirri vinnustaðamenningu sem við höfum lagt mikið púður í að koma upp samhliða þessum vexti.

Við höfum einnig alltaf lagt mikla áherslu á nýsköpun og höfum verið í þróun á eigin vörum í auknum mæli og er að mínu mati góð áskorun að viðhalda framúrskarandi þjónustu í samstarfsverkefnum á sama tíma og við aukum fjárfestingu í þróunarverkefnum. Við erum þó vel undir það búin að takast á við þessar áskoranir og eru nýlegar breytingar á starfi mínu og Elvars, þar sem ég tek við af honum sem framkvæmdastjóri og hann tekur forystu í fjárfestingar- og þróunarverkefnum, stór liður í þeirri vegferð.

Hver var síðasti fyrirlesturinn sem þú sóttir?

Það sem kemur efst í hugann er reyndar ekki fyrirlestur né ráðstefna en ég var í vikunni dómari fyrir MEMA, nýsköpunarhraðal fyrir framhaldsskólanema. Þar horfði ég á kynningar hjá u.þ.b. tuttugu ungum og ótrúlega efnilegum teymum sem höfðu þróað áfram hugmyndir og búið til frumgerðir af lausnum við ýmsum vandamálum sem snúa öll að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Það er ótrúlega gaman að sjá gróskuna hjá unga fólkinu.

Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?

Ég sæki mikinn innblástur úr samtölum við metnaðarfullt og skapandi fólk. Ég les mikið af bókum, bloggum og fræðigreinum. Það er t.d. algjör klassík hjá mér að ætla út að skokka með hljóðbók í eyrunum en enda svo sitjandi á einhverjum bekk af því mig langar að glósa svo mikið og fæ svo mikið af hugmyndum.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Ég myndi ekki segja að það sé nein sérstök bók eða einhver einn sérstakur sem hefur haft mest áhrif á mig. Ég er dugleg að grípa í alls konar bækur eftir alls konar fólk og taka úr því það sem mér finnst viðeigandi fyrir mig og læra hvaða stjórnunarstraumum ég er hrifin af og ekki. Langar samt að nefna No Rules Rules eftir Reed Hastings og Erin Meyer, og Team of Teams eftir Stanley McChrystal því ég las þær báðar nýlega og fannst margt í þeim bókum ríma vel við mínar hugmyndir í þeim rekstri sem ég sinni í dag. Þær veita praktíska og áhugaverða innsýn inn í „hands-off“ nálgun á stjórnun. Cal Newport hefur líka ýtt mikið við mér með sínum hugmyndum um „deep work“.

Hvernig heldurðu

þekkingu þinni við?

Með því að lesa, fylgjast með, mæta á ráðstefnur og fyrirlestra, opna hugann og síðast en ekki síst, læra af öllum þeim mögnuðu sérfræðingum á sínum sviðum sem eru í kringum mig. Ég er dugleg að dýfa mér á bólakaf í djúpu laugina og legg mikið upp úr því að breyta öllu í lærdóm, bæði velgengni og mistökum.

Hugsarðu vel um líkamann?

Já ég reyni að setja það í forgang. Ég stunda mikla hreyfingu og finnst það gera ótrúlega mikið fyrir mig bæði persónulega og í starfi. Ég æfi og keppi í blaki og hef mjög gaman af ólympískum lyftingum og fjallgöngum. Mér finnst ekkert betra eftir viðburðaríkan vinnudag en að kúpla mig út og njóta þess að spila með liðinu mínu og ná púlsinum vel upp. Blakið kennir mér auk þess ótrúlega margt sem viðkemur því að vinna saman, vera í liði, vera leiðtogi, hafa skýr markmið og vinna að þeim.

Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýjan starfa?

Ef ég þyrfti að breyta til þá myndi ég vilja vera UX (user experience) hönnuður. Ég brenn fyrir notendaupplifun og hef mjög gaman af því að greina og hámarka upplifun notenda af hvers kyns þjónustu.

Hin hliðin

Nám: Stúdentspróf frá Verzlunarskóla Íslands 2012; lýk námi í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands 2015.

Störf: Verkefnastjóri hjá Mobilitus 2015 til 2017; þróunar- og verkefnastjóri hjá Reon 2018 til 2021 og framkvæmdastjóri frá 2021.

Áhugamál: Blak og útivist eru efst á listanum. Hef líka mjög gaman af því að spila og baka.

Fjölskylduhagir: Í sambúð með Ásþóri Tryggva Steinþórssyni verkfræðingi. Við eigum von á okkar fyrsta barni næsta sumar.