Skáldið „Ég er líka að fjalla um leiðina úr álögum og sjálfum sér og inn í nýfundna fegurð, af því ég held að eina leiðin til að lifa sé að finna fegurðina í hinu smáa og hinu stóra,“ segir Soffía um ljóðabók sína Verði ljós, elskan.
Skáldið „Ég er líka að fjalla um leiðina úr álögum og sjálfum sér og inn í nýfundna fegurð, af því ég held að eina leiðin til að lifa sé að finna fegurðina í hinu smáa og hinu stóra,“ segir Soffía um ljóðabók sína Verði ljós, elskan. — Morgunblaðið/Unnur Karen
Ragnheiður Birgisdóttir ragnheidurb@mbl.is „Titillinn vísar í sköpunarsögu, persónulega sköpunarsögu,“ segir Soffía Bjarnadóttir um fimmta skáldverk sitt, ljóðabókina Verði ljós, elskan.

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

„Titillinn vísar í sköpunarsögu, persónulega sköpunarsögu,“ segir Soffía Bjarnadóttir um fimmta skáldverk sitt, ljóðabókina Verði ljós, elskan.

„Ég er svolítið að fást við það hvort maður geti skapað sjálfan sig aftur og aftur, endursköpun sem ég held við þráum öll á einhverjum tímapunkti eða jafnvel reglulega. Að finna okkur upp aftur og einhvern veginn losa okkur undan þeim viðjum og álögum sem við erum föst í, kannski arfi kynslóða, og undan einhverri sjálfseyðingu og meðvirkni. Ég er líka að fjalla um leiðina úr álögum og sjálfum sér og inn í nýfundna fegurð, af því ég held að eina leiðin til að lifa sé að finna fegurðina í hinu smáa og hinu stóra. Það er kannski svona grunnþemað.“

Í gegnum verkið liggur leiðarstef, þótt í því leynist margar litlar sögur. „Þetta er saga af elskendum sem splundrast og um leiðina aftur heim og inn í fyrirgefningu,“ segir Soffía.

„Þegar ég var að byrja að skrifa þetta var ég að hugsa um sannleika í skáldskap. Ég ætlaði ekki að vera með neinn tilbúning. Ég ætlaði að segja satt. Og hvernig segir maður satt? Þetta tengist líka hugmyndinni um skömm og hvernig maður talar um hana. Skömmin lifir í þögninni og skugganum og ef maður ætlar að uppræta hana, hvort sem hún er aldagömul eða glæný, þarf maður að tala um hana. Maður þarf að horfast í augu við hana og segja frá. Maður þarf að skilja hana og kannski taka eitthvað í sátt. Þetta er einhvers konar sáttaferli.“

Ljós að leita ljóss

Verkið fjallar líka á ýmsan hátt um leitina að ljósinu, en Soffía vill meina að það búi meðal annars innra með okkur. „Í einu ljóði í bókinni segir: við erum öll ljós að leita ljóss.“

„Verði ljós“ er auðvitað vísun í Biblíuna en með því að bæta við „elskan“ í titlinum gerir Soffía setninguna persónulegri. „Það er einhver þrá eftir hinu æðra, eftir ljósinu og trú á að ljósið geti sigrað allt þetta myrkur.“

Innra líf og andleg leit urðu Soffíu að yrkisefni. Henni er tengingin við æðri öfl hugleikin og hún segist velta því fyrir sér „hvernig maður magnar upp kraft í eigin lífi“. Í verkinu sé mikill sársauki og sorg en líka ást, hlýja og fegurð. „Ég hef ótrúlega mikla trú á mildi og fegurð í heiminum.“

Innblásturinn kemur til Soffíu úr ýmsum áttum. „Náttúran veitir innblástur. Hún færir okkur inn í ákveðið ástand, ég fer mikið í sjósund og það fær mig til að vera í núinu. Og svo held ég að list og skáldskapur sé stærsti innblásturinn.“ Hún finnur líka innblástur í lífi fólks, í manneskjunni sjálfri, samskiptum hennar og tengslum. „Það er brunnur sem maður getur leitað í endalaust, reynsla mín og annarra. Skáldskapur er skilningarvit og kannski spádómur.“

Kraftur og töframeðal

„Innblástur og sköpunarferlið er mér mjög hugleikið. Ég hef velt mikið fyrir mér hvernig listaverk verða til, hvaðan þau spretta, því þau eru svo stórkostleg gjöf,“ segir hún.

„Allt lífið mitt hefur verið skáldskapur, það er mín kirkja, mín trú. Ég er mikið að fjalla um skáldskapinn sem einhvern magnaðan kraft, eitthvað töframeðal.“

Í verkinu blandast saman prósaljóð og texti sem er á hefðbundnara ljóðaformi, auk þess sem texti á leikritaformi kemur fyrir. „Ég er voða mikil ljóðastelpa og hef alla tíð verið, ég hef mikið lesið ljóð og kannski lifað í ljóði í einhverjum skilningi. Það er mjög nálægt andardrættinum að vinna með ljóð og þá er alveg sama hvort það er prósi eða ljóðaformið sjálft.“

Soffía hefur gaman af prósaljóðum og segir þau vera eins og litlar sögur. „Ef það tekst vel til þá getur maður fangað svo sterkt ástand. Prósaljóðið skapar sögu en á sama tíma sýnir maður rétt svo inn í eitthvert augnablik, svo ertu farin út aftur. Svo elska ég líka hefðbundin ljóð,“ segir skáldið og bætir við að þessi ólíku form hafi ólík áhrif á lestur.

„Ég hef oft rekið mig á að fólk er svolítið hrætt við ljóð og óvant að lesa þau. Svo er algengt að þegar ljóðinu er gefinn séns þá opnast nýr gluggi. Ljóð neyða mann til að hægja á. Mér finnst ljóðið dásamlegt í þessu hraða samfélagi. Ég les alltaf ljóð, ég hef alltaf tíma fyrir þau.“