Viðskiptin skila 60 milljörðum króna.
Viðskiptin skila 60 milljörðum króna. — Morgunblaðið/ Kristinn Magnússon
Hlutabréfamarkaður Líftæknifyrirtækið Alvotech hyggur á skráningu á markað í bandarísku kauphöllinni NASDAQ, en skráningin verður með samruna við sérhæfða yfirtökufélagið (e. SPAC) Oaktree Acquisition Corp. II.

Hlutabréfamarkaður

Líftæknifyrirtækið Alvotech hyggur á skráningu á markað í bandarísku kauphöllinni NASDAQ, en skráningin verður með samruna við sérhæfða yfirtökufélagið (e. SPAC) Oaktree Acquisition Corp. II.

Fram kemur í tilkynningu frá Alvotech að viðskiptin muni skila félaginu um 450 milljónum dala, eða sem nemur 60 milljörðum íslenskra króna, í auknu fjármagni. Þar af eru um 250 milljónir dala sem koma sem innspýting reiðufjár úr sjóðum Oaktree og yfir 150 milljónir í beinni hlutafjáraukningu frá öðrum fjárfestum. Er verðmat á hvern hlut í viðskiptunum 10 dalir samkvæmt tilkynningunni, en miðað við það er heildarvirði sameinaðs fyrirtækis áætlað um 2,25 milljarðar dala eða nærri 300 milljarðar íslenskra króna.

Íslenskur fjárfestahópur með

Meðal þeirra fjárfesta sem koma að hlutafjáraukningu Alvotech eru Suvretta Capital, Athos, CVC Capital Partners, Temasek, Farallon Capital Management, Sculptor Capital Management og íslenskur fjárfestahópur leiddur af Arion banka, Landsbankanum og Arctica Finance, auk 50 milljóna dala frá núverandi hluthöfum.

Samhliða viðskiptunum munu hluthafar Alvotech skipta hlutafé sínu fyrir bréf í sameinuðu félagi, en þar á meðal er Aztiq, sem stýrt er af Róberti Wessman, stofnanda og forstjóra félagsins.