Sólborg RE Óli Grétar við stjórntækin í Barentshafinu síðdegis í gær.
Sólborg RE Óli Grétar við stjórntækin í Barentshafinu síðdegis í gær. — Ljósmynd/Gunnar Finnur Gunnarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is „Hér er myrkur nánast allan sólarhringinn, aðeins skíma í 2-3 tíma fyrir hádegi,“ segir Óli Grétar Skarphéðinsson, skipstjóri á frystiskipinu Sólborgu RE 27, skipi Útgerðarfélags Reykjavíkur.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

„Hér er myrkur nánast allan sólarhringinn, aðeins skíma í 2-3 tíma fyrir hádegi,“ segir Óli Grétar Skarphéðinsson, skipstjóri á frystiskipinu Sólborgu RE 27, skipi Útgerðarfélags Reykjavíkur. Skipið var þá að veiðum vestan við Novaya Semlja í Barentshafi þar sem 15 rússnesk skip voru einnig að veiðum. Blængur NK hefur einnig verið að veiðum í rússneskri lögsögu undanfarið, en var á leið út úr lögsögunni í gær.

Allt svipað nema myrkrið

Spjallað var við Óla Grétar í hádeginu í gær, en þá var klukkan að verða fjögur síðdegis að rússneskum tíma „og hér er löngu komið svartamyrkur,“ sagði Óli. Hann sagði veður ágætt og minnti á það sem oft væri á miðunum við Ísland, hitastig um frostmark og vindur 10-15 metrar á sekúndu. Allt svipað nema myrkrið. Í gærkvöldi var hins vegar spáð brælu, sem þó átti að ganga fljótt yfir.

Óli Grétar segir að fiskiríið mætti vera betra. „Við byrjuðum á norðausturhorninu á Gæsabanka, sem er sunnar og vestar, og þar var sæmilegur kraftur í veiðinni framan af. Eftir fimm daga var það farið að róast svo við færðum okkur og erum núna á 73°N og 50°A. Núna erum við að skrapa í rúmt tonn á tímann með tveimur trollum og í skipið eru komin um 150 tonn á sex veiðidögum, sem eru fryst og að fullu frágengin. Við megum veiða tæp 500 tonn af þorski og eitthvað af ýsu. Vonandi fer þetta að hressast.“

26 manns í áhöfn

Sólborgin hélt úr höfn 24. nóvember og rúmlega viku sigling er á miðin við Novaya Semlja. Heim á að koma ekki seinna en á Þorláksmessu og samkvæmt því þarf að draga trollin og halda heim á leið á miðvikudag í næstu viku. „Vonandi verður einhver kraftur í þessu næstu daga, ekki veitir af,“ segir,“ Óli Grétar. Hann sagði ekki útilokað að þeir héldu aftur suðvestur á Gæsabanka þar sem fimm færeysk skip voru að veiðum í gær.

26 manns eru í áhöfn Sólborgar hverju sinni, en skipið bættist í flota Útgerðarfélags Reykjavíkur í sumar. Það er smíðað 1988 og er 76 metrar á lengd og rúmir 13 metrar á breidd. Skipið bar áður nafnið Tasermiut og var í eigu Arctic Prime Fisheries á Grænlandi.