Á ferð Umferðin á Hringveginum í nóvember jókst um tæp 24 prósent.
Á ferð Umferðin á Hringveginum í nóvember jókst um tæp 24 prósent. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Umferðin jókst mikið bæði á Hringveginum og á höfuðborgarsvæðinu í seinasta mánuði eða um 23% á höfuðborgarsvæðinu samanborið við sama mánuð í fyrra og um tæplega 24% á Hringveginum samkvæmt umferðartölum Vegagerðarinnar.

Umferðin jókst mikið bæði á Hringveginum og á höfuðborgarsvæðinu í seinasta mánuði eða um 23% á höfuðborgarsvæðinu samanborið við sama mánuð í fyrra og um tæplega 24% á Hringveginum samkvæmt umferðartölum Vegagerðarinnar.

Nú er talið útlit fyrir að umferðin á Hringveginum yfir allt árið muni aukast um heil 13 prósent frá árinu á undan og að umferðin á höfuðborgarsvæðinu aukist um níu prósent en sú aukning mun þó ekki slá metið í umferð á höfuðborgarsvæðinu á heilu ári.

Bent er á í umfjöllun Vegagerðarinnar að þrátt fyrir þessa miklu aukningu umferðarinnar á höfuðborgarsvæðinu í nóvember miðað við sama mánuð fyrir ári var umferðin samt um 1,6% undir því sem hún var árið 2019 og 1,4% undir umferðinni árið 2018, í umræddum mánuði.

„Mest jókst umferðin í mælisniði á Hafnarfjarðarvegi eða um tæpt 31% en minnst um mælisnið á Reykjanesbraut eða um rúmlega 19%,“ segir í umfjöllun á vef Vegagerðarinnar.

Á Hringveginum jókst umferðin mest um Norðurland eða um tæp 44% en af einstaka talningarstöðum varð mesta aukningin um teljarasnið á Mýrdalssandi, eða 230% aukning.