Listakonan Í Dagmálum segir Lóa meðal annars frá áhuga sínum á buxnadrögtum og mikilvægi þess að skemmta sjálfri sér í hversdeginum.
Listakonan Í Dagmálum segir Lóa meðal annars frá áhuga sínum á buxnadrögtum og mikilvægi þess að skemmta sjálfri sér í hversdeginum. — Morgunblaðið/Hallur
Ragnheiður Birgisdóttir ragnheidurb@mbl.is Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur er margt til lista lagt. Hún starfar sem myndlistamaður, myndasöguhöfundur og rithöfundur auk þesss sem hún er einn liðsmanna hinnar vinsælu hljómsveitar FM Belfast.

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur er margt til lista lagt. Hún starfar sem myndlistamaður, myndasöguhöfundur og rithöfundur auk þesss sem hún er einn liðsmanna hinnar vinsælu hljómsveitar FM Belfast. Hún sagði frá störfum sínum í Dagmálum, frétta- og dægurmálaþætti Morgunblaðsins. Þar sagðist hún elta tilviljanirnar sem koma upp í hversdeginum. Það að hafa verið opin og forvitin hafi komið henni á þann stað sem hún er á í dag.

Lóa teiknaði eina mynd á dag allt árið 2020 og úr varð bókin Dæs , sem er bæði skemmtileg og falleg myndræn lýsing á því óvenjulega ári. Hún skrifaði og teiknaði einnig barnabókina Grísafjörð og var bæði tilnefnd til barnabókaverðlauna Norðurlandaráðs og í flokki barnabóka á Íslensku bókmenntaverðlaununum.

Lóa þykir einstaklega fyndin og hefur hún til dæmis verið valin í hóp þeirra sem skrifa Áramótaskaupið .

Það hefur verið ákveðin jafnvægislist fyrir hana að reyna að sjá fyrir sér með listinni. Lóa segir það geta verið erfitt að tengja listsköpun við peninga, listamenn verði að fá að gera tilraunir án þess að hugsa um að þær seljist vel.

Í Dagmálum segir Lóa einnig frá áhuga sínum á buxnadrögtum og hvernig hann hefur leitt til sýningar sem opnar í Listasafni Árnesinga í febrúar. Hún sagði einnig frá mörgum skemmtilegum atvikum, því þegar hún ullaði á gagnrýnanda sem hafði skrifað dóm um leikverk eftir hana og því þegar hún gerði í því að reyna að ná augnsambandi við gesti Reðursafnsins úr bílnum sínum.

Það síðarnefnda varð uppspretta hlaðvarpsþátta sem hún gerði bara fyrir sjálfa sig og er það dæmi um það hvernig hún reynir stöðugt að skemmta sjálfri sér í hversdeginum.

Lóa hefur gert áhugamálin að fullu starfi og því finnst henni mikilvægt að finna ný áhugamál þar sem engin pressa er á henni. Trommuleikur er nýjasta áhugamálið. „Það er mjög frelsandi að þurfa ekki að vera góð í því, að engum þurfi að finnast þetta góð pæling nema mér og trommukennaranum mínum.“