Staða Bandaríkjanna, inn á við sem út á við, ýtir undir áhyggjur þar og um víða veröld

Fréttir frá Bandaríkjunum síðustu misserin gera vini þessa merka og máttuga ríkis hugsandi og leiða. Dómsmál fara fram undir stórbrotnum hótunum, beinum og óbeinum, um að verði úrslit þeirra ekki í takt við vilja samtaka eins og BLM þá verði miðborg þess fylkis sem í hlut á eða sá bær eða borg sem hýsir þennan mikilvæga þátt mannlífsins lögð í rúst.

Þegar fáeinir dagar eru í slíka niðurstöðu taka saklausir eigendur smærri fyrirtækja að þekja allar dyr og glugga með grindverkum eða tréverki í þeirri viðleitni að draga úr tjóni sínu og minnka líkur á að reksturinn fari á hliðina í kjölfarið. Má ímynda sér hvaða áhrif „undirbúningur“ af þessu tagi getur haft á úrslit mála. Ólíklegt er að ákærður maður telji líklegt að sönnun og réttlæti sé fyrirferðarmikið við þær aðstæður. Ekki er langt síðan lögreglumaður var dreginn fyrir dóm við slíkar aðstæður. Í margar vikur voru helstu fjölmiðlar ljósvakanna að hrópa upp þau ósköp og skemmdarverk sem væntanleg væru ef „röng niðurstaða“ kæmi frá dómstólnum. Lögreglumaðurinn fékk dóm eins og vænta mátti við slíkar aðstæður og átti ekki minnstu glætu um réttláta málsmeðferð undir slíkum hótunum. Núverandi stjórnvöld í Bandaríkjunum telja sig neyðast til að lýsa hótunum um stórfellt ofbeldi, sem beinist að almennum borgurum sem hvergi hafa komið að máli, eðlileg mótmæli gegn hugsanlega „rangri niðurstöðu!“

Demókratar kenna gjarnan vopnaeign Bandaríkjamanna um þessa hrikalegu stöðu. Sá flokkur hefur þó lengi ráðið því sem hann vill í borg eins og Síkakó og yfirvöld þar segjast vera með hörðustu reglur gegn skotvopnaeign sem þekkist í Bandaríkjunum. Útkoman þar segir því mikla sögu.

Biden forseti gekk út frá því að hann fengi vaxandi álit og stuðning með því að ljúka því sem hann kallaði „lengsta stríð Bandaríkjanna í Afganistan“. En forsetinn stóð með eindæmum illa að því verkefni og það varð upphaf að miklu fylgishrapi hans sem hefur ekki enn stöðvast. En það sem er athyglisverðast í þessu samhengi er að í stríðinu langa hafði þó enginn Bandaríkjamaður fallið síðustu 18 mánuðina.

Á sama tíma voru yfir þúsund Bandaríkjamenn myrtir í fyrrnefndri borg einni. Þeir sem fylgjast með fyrrnefndum fréttastöðvum sjá hins vegar sárasjaldan fréttir eða fordæmingu á þessum stórstyrjöldum innanlands. Auðvitað eru morð og skotárásir almennt séð alvarlegust, en 356 manns urðu fyrir skotárásum í Síkakó í október einum.

Þegar þær tölur og aðrar eru skoðaðar nánar vekur sérstakan óhug hvað mörg ung börn og unglingar koma þar við sögu. Frá Kaliforníu berast nú fréttir um að stórir hópar manna ræni verslanir og smáfyrirtæki á degi sem nóttu og þurfi lítt að óttast handtökur eða refsingar. Sumir þessara dólga eru vissulega handteknir en látnir lausir aftur innan sólarhrings eða svo vegna stefnu saksóknara úr röðum demókrata sem eru að framfylgja persónulegri stefnu sinni um vægari refsingar, sem þegar hafa haft öfug áhrif með stórauknum vandræðum.

Bandaríkjamenn horfa upp á að sitja uppi með eindæma veika leiðsögn alríkisins eftir síðustu kosningar og það fordæmi skilar sér niður um allar æðar samfélagsins. Á þetta horfa helstu andstæðingar Bandaríkjanna á heimsvísu og eru augljóslega staðráðnir í að nýta hin nýju tækifæri sín til fulls.

Ótti illa varinna ríkja fer vaxandi í sama hlutfalli og trú á vilja og getu Bandaríkjanna til andófs eða varna minnkar hratt.