Síldarvinnslan í Neskaupstað.
Síldarvinnslan í Neskaupstað. — Morgunblaðið/Baldur
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, segir fulla skerðingu á raforku til fiskimjölsverksmiðja munu þýða mikinn aukakostnað.

„Bræðslurnar eru stærsti orkunotandi á landinu fyrir utan stóriðjuna. Áður notuðum við allt að 50 lítra af olíu á tonn í þessum verksmiðjum. Nú eru þær að nota 38-45 lítra á tonnið. Það er mismunandi eftir útbúnaði verksmiðjanna. Það er töluvert síðan við [hjá Síldarvinnslunni] höfum notað allan okkar olíubúnað. Sumar verksmiðjurnar eru að hálfu leyti raforkuvæddar en aðrar að fullu leyti,“ segir Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar. En áætlað er að uppsett afl verksmiðjanna sé alls 100 MW af ótryggri orku.

Fram undan er ein stærsta loðnuvertíð í manna minnum, eftir nokkur mögur ár.

„Allar ellefu bræðslurnar á Íslandi eru væntanlega að fara að keyra á fullu gasi í janúar og fram í mars,“ segir Gunnþór og bendir á að ef bræða eigi 600-700 þúsund tonn af loðnu með olíu, í stað þess að nota rafmagn þar sem það er hægt, sé auðvelt að finna út olíunotkunina.

„Það má lauslega áætla að full skerðing þýði aukningu á olíunotkun upp á 20.000.000 lítra aukalega. Það má reikna kolefnisútblásturinn út frá því,“ segir Gunnþór en útkoman sé allt að 54.400 tonn af kolefnisígildum. Þetta margfaldi kolefnisspor íslensks sjávarútvegs.

Eins og komið hefur fram ákvað Landsvirkjun að takmarka afhendingu á raforku til umræddra verksmiðja en þær hafa samið um kaup á skerðanlegri raforku. Afhendingin skyldi takmarkast við 25 MW og þyrftu þær að leysa það í viðskiptum sín í milli hvernig þær deildu raforkunni. Verksmiðjunum var svo tilkynnt að engin umframorka yrði í boði frá og með sl. þriðjudegi. Með því verður að óbreyttu engin skerðanleg orka í boði á loðnuvertíðinni. Gunnþór segir að í ljósi hás olíuverðs muni auðvitað mikið um olíukaup í rekstri bræðslnanna.

Umtalsverður kostnaðarauki

„Olíuverð er hátt um þessar mundir og munar um þetta. Okkur er ljóst þegar við kaupum þessa orku að notkunin hjá okkur sveiflast mikið milli ára og tímabila. Orkan til okkar er skerðanleg og við þurfum að vera með uppsett varaafl til að mæta skerðingum. Á síðustu árum hafa komið tímabil þar sem olían hefði verið okkur ódýrari. Við erum að fara yfir kostnaðinn en þessu fylgir umtalsverður kostnaðarauki og óþægindi. Krónur og aurar eru eitt en útblásturinn annað og mun alvarlegra mál. Menn hafa fjárfest í tækni til að draga úr útblæstri frá mengandi orkugjöfum,“ segir Gunnþór.