Haraldur Þórir Hugosson
Haraldur Þórir Hugosson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Sprotafyrirtækið Weird Pickle hefur óvenjulegt viðskiptalíkan að því leyti að það er annars vegar hönnunarstofa og hins vegar Startup Studio.

Sprotafyrirtækið Weird Pickle kemur að stofnun nýs fyrirtækis, ECA, sem hefur þann megintilgang að þjálfa fólk til að kenna börnum á aldrinum sex til sextán ára rafíþróttir.

Jósep Þórhallsson, framkvæmdastjóri vöruþróunar hjá Weird Pickle, segir að markmiðið sé að skapa heilbrigt andrúmsloft, bæði líkamlega og andlega, í kringum greinina. „Við fundum fyrir mikilli þörf á þessari þjónustu um allan heim, enda er gríðarleg gróska í rafíþróttaheiminum. Grasrótin vill gleymast því flestir eru að fylgjast með toppleikmönnunum, sem eru kannski bara eitt prósent af öllum iðkendum,“ segir Jósep í samtali við ViðskiptaMoggann.

Hann segir að nú þegar séu viðræður í gangi við skóla og íþróttafélög erlendis.

Stofna heilbrigð fyrirtæki

Weird Pickle hefur óvenjulegt viðskiptalíkan að því leyti að það er annars vegar hönnunarstofa og hins vegar Startup Studio. Jósep segir að markmiðið með þessu sé að styðja við og stofna heilbrigð fyrirtæki.

Hann segir einnig að hlutverkin styðji hvort annað. „Sem Startup Studio tökum við að okkur verkefni fyrir utanaðkomandi aðila, hjálpum sprotum við alþjóðlegan vöxt og fjármögnun en á sama tíma búum við til einstök fyrirtæki frá grunni í samstarfi við hæfileikaríka frumkvöðla.“

Þjónusta fyrirtækisins felst í viðskiptaþróun, stefnu og mörkun fyrirtækja.

Emil Ásgrímsson, hönnunarstjóri Weird Pickle, segir grunninn að góðu vörumerki byrja í hálfgerðum sálfræðitíma fyrir fyrirtækin. „Það getur verið erfitt að negla niður hver rödd fyrirtækisins er, en það er grunnurinn að öllu sem fylgir – hvort sem það er hönnun eða samskipti út á við.“

Ólík reynsla

Hugmyndin að Weird Pickle fæddist þegar stofnendur áttuðu sig á að ólík reynsla teymisins gæti stutt við þeirra eigin fyrirtækjasmíði sem og annarra. „Það er ómetanlegt fyrir frumkvöðlafyrirtæki að fá inn teymi sem hjálpar til við að móta heildstæða sýn þegar kemur að bæði viðskiptaþróun og hönnun,“ útskýrir Jósep. „Weird Pickle gengur þannig bæði út á að þróa hugmyndir annarra sprotafyrirtækja og einnig að vinna eigin hugmyndir áfram,“ ítrekar Jósep.

Hann segir að aðstandendur fyrirtækisins hafi allir yfirgripsmikla reynslu innan frumkvöðla- og nýsköpunarsamfélagsins en þriðji stofnandinn, Rünno Allikivi, hefur komið að stofnun og fjármögnun frumkvöðlafyrirtækja í Svíþjóð og Bandaríkjunum og byggt upp víðtækt tengslanet á Norðurlöndum. Rünno er jafnframt ráðgjafi nokkurra erlendra fjárfestingarsjóða á sviði loftslagsmála, grænnar orku og sjálfbærni, að sögn Jóseps.

Aðspurður hvort ekki sé erfitt að fá góða hugmynd sem virki og verði að alvörufyrirtæki, játar hann því. „Frá því að við byrjuðum í þessu fyrir um ári þá höfum við farið í gegnum fimmtán til tuttugu hugmyndir í fyrirtækjaþróuninni. Svo enduðum við á því að velja tvær sem eru núna að ljúka fjármögnun. Við höfum fengið Harald Þóri Hugosson frumkvöðul til liðs við okkur til að fylgja þeim eftir.“

Óáfengur drykkur

Auk ECA hefur Weird Pickle komið á laggirnar fyrirtækinu Hops sem framleiðir óáfengan drykk bruggaðan úr humlum. Slíkir drykkir eru nýjasta æðið meðal ungs fólks í Bandaríkjunum að sögn Jóseps. „Þetta er ferskur valkostur fyrir fólk sem vill lifa heilbrigðu lífi og hentar þeim sem vilja hafa eitthvað gott og áfengislaust í glasinu á barnum eða í partíinu.“

Jósep segir að sterkir fjárfestar séu að baki Hops sem verði fyrst um sinn markaðssett á Íslandi en svo fylgi Svíþjóð og aðrir markaðir á eftir. „Við höfum nú þegar verið mjög heppnir með samstarfsaðila. Stærsta áskorun næsta árs verður líklegast að finna fleiri öfluga einstaklinga til að ganga til liðs við okkur,“ segir Jósep Þórhallsson að lokum.