Feðgar Á Rjúpnavöllum á Hellismannaleiðinni. Frá vinstri: Guðni Olgeirsson, Finnur Kári Guðnason og Olgeir Engilbertsson í Nefsholti.
Feðgar Á Rjúpnavöllum á Hellismannaleiðinni. Frá vinstri: Guðni Olgeirsson, Finnur Kári Guðnason og Olgeir Engilbertsson í Nefsholti.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Göngugarpurinn Guðni Olgeirsson hefur gengið um landið þvert og endilangt og kortlagt gönguleiðir í heimahéraði.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Göngugarpurinn Guðni Olgeirsson hefur gengið um landið þvert og endilangt og kortlagt gönguleiðir í heimahéraði. „Þegar Ferðafélag Íslands leitaði til mín sem höfundar að fyrsta ritinu sagði ég meira í gamni en alvöru að draumurinn væri að kortleggja gönguleiðir á öllum afréttum í Rangárvallasýslu. Ég á enn eftir Holtamannaafrétt, Tungnaáröræfin, Veiðivötn og Eyjafjöllin, en forsvarsmenn veiðifélags Landmannaafréttar hafa beðið mig að móta með sér gönguleiðir á Veiðivatnasvæðinu, svo næstu skref blasa við.“

Guðni þekkir manna best gönguleiðir að Fjallabaki og hefur skrifað um þær tvö fræðslurit, sem Ferðafélag Íslands hefur gefið út. Hellismannaleið – Gönguleiðir á Landmannaafrétti og í Friðlandi að Fjallabaki kom út 2015 og Dalastígur að Fjallabaki – 22 gönguleiðir í óbyggðum og afréttum í Rangárþingi hefur verið í sölu síðan í sumar. Í þeim gerir Guðni grein fyrir 400-500 km af gönguleiðum að Fjallabaki, flestum fáförnum og óstikuðum.

Faðirinn gaf tóninn

Olgeir Engilbertsson, bóndi í Nefsholti og fjallamaður í áratugi, kom syni sínum á bragðið. „Tenging mín við Landmannaafrétt er mjög sterk, því öll æskuárin fór ég þangað sem bóndasonur með sauðfé í sumarbyrjun,“ segir Guðni. „Það var sérstakt tilhlökkunarefni að fara inn á fjall og tilfinningin var endurvakin þegar ég fór að ganga þessar leiðir skipulega, merkja þær og skrá og skrifa um þær bækur, og einnig í tengslum við ferðir með gönguhópa.“

Guðni segir föður sinn hafa verið óþreytandi við að hvetja sig til fyrrnefndra verka. Hann hafi lengi haft mikinn áhuga á að stika leið úr byggð upp að Landmannalaugum og svo hafi farið að fjölskyldan og annað áhugafólk sem tengist Landmannaafrétti hafi náð að ljúka því verki 2011. Í kjölfarið hafi hann fengið ósk frá Ferðafélaginu um að skrifa fyrra ritið og það síðara í beinu framhaldi. Segist hann vera mjög þakklátur fyrir að hafa fengið þessi tækifæri með dyggum stuðningi og hvatningu. „Við byrjuðum að stika Hellismannaleiðina 2006 og það tók nokkur ár að ljúka því verki. Pabbi er 85 ára og hefur alla tíð undirbúið stikuferðirnar með því að hafa tiltækt nóg af stikum og öðru efni. Það er hefð hjá fjölskyldunni og vinum að fara í eina eða tvær viðhaldsferðir á ári og auk þess hefur verið mjög vinsælt að fá pabba á Geimstöðinni sem trússara í gönguferðum um svæðið.“

Búið er að merkja um 80 km fjögurra daga Hellismannaleið og Skarfanesleið frá Leirubakka í Landmannalaugar og ýmsar aðrar merktar leiðir á afréttinum eru samtals um 50 km. „Allar gönguleiðir sem ég fer, merki og skráset eru á milli skála að Fjallabaki eða á afréttunum, út frá skálum upp á nærliggjandi fjöll eða mismunandi hringleiðir. Þetta eru allt þægilegar en mismunandi krefjandi leiðir fyrir gönguhópa og mér finnst mjög gaman að fara með fjölskylduna, vini og fólk sem ég tengist inn á svæðið. Nokkrir dagar á fjöllum með skálastemningu eru kjörið tækifæri til að kynnast og styrkja böndin.“

Framtak fjölskyldunnar og vina við stikun leiðanna hefur verið unnið í sjálfboðavinnu og styrkt af rekstraraðilum skálanna. Guðni leggur áherslu á að hann lýsi aðeins gönguleiðum í rammaskipulagi Suðurhálendisins. Þær séu hluti verndaráætlunar Umhverfisstofnunar og viðurkenndar sem gönguleiðir til framtíðar. Hann fari ekki inn á viðkvæm svæði og hafi m.a. haft samráð við sveitarfélögin, staðkunnuga, rekstraraðila skála og Umhverfisstofnun. Svæðið sé óendanlega fjölbreytt og bjóði upp á marga möguleika. „Ég sé fyrir mér að Dalastígurinn geti orðið skemmtileg og fjölbreytt viðbót við Laugaveginn en segja má að hann liggi samhliða og vestan við hann þar sem einungis er ein dagleið á milli.“