Vandi Helmingur allra kvíðaraskana þróast fyrir 12 ára aldur og hátt í 7% barna greinast með kvíðaröskun einhvern tíma. Meðferð verður bætt.
Vandi Helmingur allra kvíðaraskana þróast fyrir 12 ára aldur og hátt í 7% barna greinast með kvíðaröskun einhvern tíma. Meðferð verður bætt. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Kvíði er algengasti vandi barna og virðist fara vaxandi. Því er eðlilegt að þetta úrræði sé í boði,“ segir Guðríður Haraldsdóttir, sérfræðingur í klínískri barnasálfræði og verkefnastjóri sálfræðiþjónustu barna- og unglinga hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.

Sviðsljós

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Kvíði er algengasti vandi barna og virðist fara vaxandi. Því er eðlilegt að þetta úrræði sé í boði,“ segir Guðríður Haraldsdóttir, sérfræðingur í klínískri barnasálfræði og verkefnastjóri sálfræðiþjónustu barna- og unglinga hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.

Um þessar mundir er verið að innleiða foreldramiðaða meðferð við kvíða hjá 6-12 ára börnum hjá heilsugæslunni um allt land. Meðferðir fyrir einstaklinga eru þegar í boði á flestum heilsugæslustöðvum og eftir áramót verða hópmeðferðir einnig í boði.

Í umfjöllun á vef heilsugæslunnar kemur fram að meðferðin gangi út á að kenna foreldrum aðferðir hugrænnar atferlismeðferðar (HAM) til að nota í daglegu lífi barnsins og hjálpa því þannig að komast yfir kvíðavandann. Hugmyndin byggist á að foreldrar séu best til þess fallnir að styðja barnið þar sem þeir eru oftast með barninu á erfiðum tímum þegar kvíðinn kemur fram.

„Rannsóknir gefa til kynna að allt að 30% einstaklinga muni á einhverjum tímapunkti á lífsleiðinni þróa með sér kvíða sem verður það mikill að hann hindrar eða skerðir verulega daglegt líf einstaklingsins,“ segir á vef heilsugæslunnar. „Helmingur allra kvíðaraskana þróast fyrir 12 ára aldur og hátt í 7% barna greinast með kvíðaröskun einhvern tíma. Það getur skipt sköpum að grípa snemma inn í og veita börnum, sem stríða við kvíða, stuðning til að draga úr hættu á að vandinn þróist á verri veg. Sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að þessi meðferð er hagkvæm og mælist jafn árangursrík og aðrar HAM-meðferðir sem krefjast mun lengri meðferðartíma,“ segir þar enn fremur.

Staðan margra verri í Covid

Dæmi eru um að löng bið hafi verið eftir sálfræðiþjónustu hér á landi sem hefur þótt sérstaklega hvimleitt með börn sem glíma við kvíða. Guðríður kveðst vona að þetta nýja úrræði bæti úr því. „Já, við erum að vonast til þess að geta boðið fleiri börnum og foreldrum þeirra þjónustu og þar af leiðandi stytt biðlista án þess að slá af gæðum.“

Unnið hefur verið að innleiðingu þessarar meðferðar síðustu 2-3 ár að sögn Guðríðar. Sálfræðingar hafa fengið viðeigandi þjálfun og ýmiss konar efni fyrir þá hefur verið þýtt á íslensku. Þá var þýdd bókin „Hjálp fyrir kvíðin börn – handbók fyrir foreldra“ sem er fáanleg í bókabúðum. Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu stóð fyrir þýðingu bókarinnar með styrk frá Lýðheilsusjóði og embætti landlæknis. Á vef heilsugæslunnar segir að bókin nýtist foreldrum kvíðinna barna hvort sem þau eru í meðferð eða ekki. „Með útgáfu bókar og innleiðingar meðferðar í heilsugæslu eykst aðgengi foreldra og barna að árangursríkri kvíðameðferð,“ segir á vef heilsugæslunnar.

Guðríður segir í samtali við Morgunblaðið að kannanir sem Rannsókn og greining hefur gert í grunnskólum leiði það í ljós að börn hafi meiri áhyggjur en áður og upplifi meiri vanlíðan. Hún segir aðspurð að kórónuveirufaraldurinn hafi síður en svo hjálpað. Þau börn sem voru viðkvæm fyrir eða glímdu við kvíða hafa orðið kvíðnari af völdum óvissu og umróts sem faraldurinn hefur skapað. „Margt í kringum börnin hefur raskast og þetta hefur skapað meiri vanda fyrir börn sem eru viðkvæm og þau sem eru í viðkvæmri stöðu.“

Munu meta árangurinn

Með aðgerðaáætlun í heilbrigðismálum til fjögurra ára frá árinu 2016 var meðal annars sett fram það markmið að aðgengi á heilsugæslustöðvum að gagnreyndri meðferð sálfræðinga við algengum geðrænum vanda, svo sem þunglyndi, kvíðaröskunum og áfallastreitu, yrði bætt. Því hafa heilsugæslustöðvar um allt land sett í forgang sálfræðiþjónustu fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra. Dr. Brynjar Halldórsson, sálfræðingur á LSH, klínískur dósent við Háskólann í Reykjavík og University of Oxford, hefur undanfarin þrjú ár kynnt gagnreynda foreldramiðaða meðferð við kvíða hjá 6-12 ára börnum hér á landi. Að sögn Guðríðar mun hann setja af stað rannsókn um áramótin þar sem árangur af þessari nýju meðferð verður metinn.