Páll Arnar Pétursson fæddist 31. ágúst 1934 í Reykjavík. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð 25. nóvember 2021. Foreldar hans voru Pétur Pálsson, f. 1906, d. 1989, verkamaður, og Steinunn Sæmundsdóttir, f. 1908, d. 1989, húsmóðir. Systkini hans eru Sæmundur, f. 1943, og Steinunn, f. 1945.

Sonur Páls er Ólafur Þorkell, f. 27. júlí 1954, móðir hans var Katla M. Ólafsdóttir. Fyrri eiginkona Ólafs er Jóhanna S. Sveinsdóttir. Dætur þeirra eru: 1) Kristín Þóra, f. 7. maí 1973, í sambúð með Hreiðari Geirssyni og eiga þau tvær dætur og á Kristín einn son frá fyrra sambandi. 2) Ásthildur, f. 11. nóvember 1975, gift Matthíasi Zaiser og eiga þau tvo syni. 3) Erna Sif, f. 10. maí 1983, gift Finni Eiríkssyni og eiga þau þrjú börn.

Eiginkona Ólafs er Lára Björnsdóttir og eiga þau eina dóttur, Kötlu Boghildi. Fyrir átti Lára son, Smára Einarsson.

Páll lauk námi sem vélvirki frá Vélsmiðjunni Héðni og vann mikið í fiskimjölsverksmiðjum og frystihúsum við uppsetningu á vélbúnaði um land allt. Seinna starfaði hann hjá Vegagerð ríkisins í fjölda ára. Páll bjó með foreldrum sínum þar til þau létust og seinna í sama húsi og systir hans og fjölskylda. Árið 2018 fór Páll á hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð og bjó þar þar til hann lést.

Útför Páls fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 8. desember 2021, klukkan 13.

Elsku Palli minn, komið er að kveðjustund.

Við höfum átt samleið sl. þrjátíu ár enda ég svo heppin að vera eina tengdadóttir þín. Þú varst tíður gestur á Hraunbraut 1, æskuheimili þínu, þegar við bjuggum þar enda stutt að fara fyrir þig, þú áttir heima á nr. 7, ásamt Steinunni systur þinni og hennar fjölskyldu, það ber að þakka hversu vel var hugsað um þig þar.

Gaman er að rifja upp ferðalög okkar með þér, þú komst og gistir hjá okkur í hjólhýsinu í Þjórsárdal, þá var Katla á fyrsta ári og þú gafst henni fyrsta kóksopann við litla hrifningu okkar foreldranna. Þú varst fljótur að koma þér út úr því: Afar mega allt.

Austur á Fáskrúðsfjörð komstu nokkrum sinnum á þeim tíu árum sem við bjuggum þar. Eitt skiptið vorum við að fara í skálavörslu í Breiðuvík í Víkunum og þú varst með í för og naust þín úti í náttúrunni. Við lögðum net í ósnum og fengum þennan flotta lax sem var góður á grillið og þú og Katla afastelpan þín borðuðuð á ykkur gat.

Við skruppum í Loðmundarfjörð í þessari ferð og þar lentum við í þvílíkum berjamó; allir dallar og pokar fylltir, ekkert okkar hafði séð annað eins.

Já við fjölskyldan eigum margar góðar minningar um þig, og afabörnin Katla og Smári biðja að heilsa en þau áttu ekki heimangengt að koma við útför þína.

Síðustu árin dvaldir þú í Sunnuhlíð við góða umönnun og það ber að þakka.

Alzheimersjúkdómurinn tók þig frá okkur smátt og smátt, svo hvíldin var kærkomin fyrir þig elsku Palli minn.

Ég hugsa vel um Óla þinn áfram.

Blessuð sé minning þín.

Þín tengdadóttir,

Lára Björnsdóttir.

Í dag minnist ég Palla frænda míns sem hefur verið stór hluti af mínu lífi alla tíð. Við systkinin urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að búa nálægt ömmu og afa, á meðan þau lifðu, og Palla frænda. Í húsunum tveimur við Hraunbrautina höfum við öll fylgst að og þar var Palli mikilvægur hlekkur enda fjölskyldan honum afar kær. Palli var elstur af sínum systkinum og það var gaman þegar þau hittust systkinin, Palli, Sæmi og mamma. Þau rifjuðu upp gamla tíma, bernskubrek og stríðnissögur bræðranna gagnvart litlu systur og oftast ræddu bræðurnir sameiginleg áhugamál sín, bíla og vélar.

Palli lærði vélvirkjun og vann hjá Vegagerðinni við lok starfsævinnar. Menntun hans og reynsla fylgdi honum í einkalífinu því flest lék í höndunum á honum. Hann var sannkallaður þúsundþjalasmiður og ef eitthvað var bilað eða skemmt gat hann lagað það. Átti það við jafnt um vélar, hús eða bíla – hann fann út úr því sem þurfti að laga. Hann var nýtinn og af honum og hans kynslóð getum við yngri kynslóðirnar lært mikið. Að nýta hlutina, farga ekki því sem er heilt og koma auga á notagildi hluta. Palli fylgdist vel með fréttum og þjóðfélagslegri umræðu og naut þess að rökræða enda var hann rökfastur og oft á tíðum þrjóskur. Hann var traustur, hjartahlýr, trygglyndur, fylginn sér og góður maður sem ég mun sakna sárt. Börnin mín, sérstaklega eldri tvö, kynntust Palla vel og nutu þess að heimsækja hann, hvort heldur sem var á Hraunbrautina eða í Sunnuhlíð. Hann var mikil barnagæla og tók dætrum mínum fagnandi og hann laumaði til þeirra sælgætismola, helst án þess að við foreldrarnir tækjum eftir.

Á aðfangadag áttum við Palli okkur hefð; að tendra kerti við leiði ömmu og afa, en í ár breytist hefðin. Ég mun kveikja á kerti hjá þeim ömmu, afa og Palla. Þannig mun hefðin okkar lifa áfram. Minning hans, nærvera, hugulsemi og hlýja mun alltaf fylgja mér og kann ég honum allar mínar hjartans þakkir fyrir að vera besti frændi í heimi.

Elsku Óli, Lára, Stína, Ásta, Erna Sif, Smári og Katla – innilegar samúðarkveðjur til ykkar sem og til mömmu, Sæma og Péturs. Starfsfólki Sunnuhlíðar vil ég þakka kærlega fyrir hlýja og góða umönnun síðustu ár. Ég kveð Palla með söknuði, þakklæti og góðum minningum.

Steinunn Skúladóttir.