Heildarlaun starfsmanna í bönkum og öðrum fjármálafyrirtækjum eru að meðaltali 922 þúsund á mánuði samkvæmt niðurstöðum launakönnunar meðal félagsmanna í Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF), sem fram fór í október sl. Alls svöruðu 2.

Heildarlaun starfsmanna í bönkum og öðrum fjármálafyrirtækjum eru að meðaltali 922 þúsund á mánuði samkvæmt niðurstöðum launakönnunar meðal félagsmanna í Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF), sem fram fór í október sl. Alls svöruðu 2.459 félagsmenn í könnuninni og var þátttakan 79% og er hún talin gefa mjög ábyggilega mynd af kaupi og kjörum félagsmanna SSF að því er fram kemur í umfjöllun um niðurstöðurnar á vefsíðu SSF.

13,7% voru með heildarlaun undir 600 þúsund á mánuði, 15,9% voru með laun á bilinu 600-699 þúsund en um 32% voru með milljón eða hærri heildarlaun á mánuði.

Fram kemur að rúm 20% sögðust hafa óskað eftir launaviðtali hjá núverandi vinnuveitanda á síðustu tólf mánuðum og um 71% þeirra sagði að breytingar hefðu orðið til hins betra í kjölfar launaviðtalsins.

35% ánægð með launin

Um 35% svarenda segjast vera mjög eða frekar ánægð með launin sín en rúmt 31% er óánægt. Ánægja með launin er minnst meðal þeirra sem eru með lægri mánaðarlaun en 700 þúsund, en rúm 46% þeirra segjast vera frekar eða mjög óánægð með launin.

Þegar félagsmenn voru spurðir hvort þeir hefðu miklar eða litlar áhyggjur af því að verkefnum þeirra eða starfi myndi verða breytt til hins verra á núverandi vinnustað sagðist rúmur fjórðungur svarenda hafa frekar eða mjög miklar áhyggjur af því en um 37% hafa mjög eða frekar litlar áhyggjur af því. Einnig kom fram að ríflega einn af hverjum fimm hefur áhyggjur af því að hann missi starf sitt en 39% hafa mjög eða frekar litlar áhyggjur af því.

Tæplega helmingur starfsmanna segist finna frekar eða mjög oft fyrir streitu í starfi og 35% segja oft koma fyrir eftir að vinnudegi lýkur að þau eigi erfitt með að hætta að hugsa um vinnuna, sem hafi neikvæð áhrif á frítímann eða einkalíf.