Gunnar Sigurður Guðmundsson fæddist í Reykjavík 6. júlí 1949. Hann lést á Landspítalanum 25. nóvember 2021.

Foreldrar hans voru Sigríður Flygenring, f. 27.3. 1926, d. 12.3. 2019, og Guðmundur Á. Björnsson, f. 26.5. 1919, d. 14.10. 1990.

Systkini Gunnars eru: Ásta, f. 28.1. 1948, Kjartan Björn, f. 6.7. 1949, og Bryndís Sesselja, f. 24.1. 1955.

Gunnar var giftur Viktoríu Hannesdóttur, f. 17.4. 1953, d. 16.2. 2013, og er dóttir þeirra Hera Brá, f. 5.4. 1983. Unnusti Heru er Njáll Reynisson, f. 6.2. 1983, og synir þeirra eru: Viktor, f. 15.9. 2014, d. 19.9. 2014, Benjamín Gunnar, f. 23.10. 2015, og Brynjar Reynir, f. 4.4. 2017. Stjúpsonur Gunnars er Ólafur Geir Guttormsson, f. 21.2. 1974.

Gunnar ólst upp á Melhaga í Vesturbænum og gekk í Melaskóla og svo Hagaskóla. Hann hafði aðra heimssýn en jafnaldrar hans og sem unglingur vann hann sem messagutti á farþegaskipinu Gullfossi. Hann naut þess að ferðast um heiminn og kom heim með alls konar dýrgripi eins og grammófón og plötur. Leið Gunnars lá næst í Iðnskólann í Reykjavík þar sem hann útskrifaðist sem offsetprentari. Hann hafði mikinn áhuga á ljósmyndun og var í ljósmyndaklúbbi með vinum sínum Pjetri Maack og Kjartani Kristjánssyni er nefndist LJÓS. Þeir héldu þrjár ljósmyndasýningar undir því nafni á Kjarvalsstöðum 1971, 1973 og 1975 þar sem þeir sýndu og seldu stækkaðar svart/hvítar ljósmyndir sínar.

Gunnar vann lengi vel hjá Kassagerðinni við iðn sína og var á þeim tíma talinn einn sá besti í litgreiningu. Hann stofnaði síðar fyrirtækið Litsjá sem sameinaðist svo Offsetþjónustunni í Faxafeni. Á seinni árum tók hann meirapróf og keyrði rútur fyrir bæði Kynnisferðir og Guðmund Tyrfingsson.

Allt lék í höndunum á Gunnari, hann hafði einstaka útsjónarsemi og framtíðarsýn. Hann teiknaði sitt eigið hús um tvítugt og byggði það sjálfur auk þess að teikna hús fyrir aðra.

Hans síðasta byggingarverk var hús á draumastaðnum, Barðastöðum í Grafarvogi, með útsýni yfir Esjuna og Snæfellsjökul.

Gunnar var alltaf mikill náttúruunnandi og útivistarmaður og var meðlimur í Útivist í um 30 ár. Hann var virkur í félagsstarfinu. Félagarnir í Útivist voru eins og hans önnur fjölskylda, honum leið hvergi betur en í Þórsmörk, hlaupandi upp á fjöll að taka myndir eða úti að brasa með afastrákunum sínum.

Útför Gunnars verður í dag, 8. desember 2021, klukkan 13.

Hlekkir á streymi:

https://tinyurl.com/37r9vbyr

https://www.mbl.is/andlat

Elsku besti pabbi minn, ég er ekki að trúa því að þú sért farinn. Þú varst vanur að koma til okkar á hverjum degi til að taka á móti afastrákunum þínum úr leikskólanum. Leika við þá, fara með þeim í göngu- eða hjólatúr, tína krækiber með þeim úti í garði, leyfa þeim að brasa í Land Rovernum þínum og jafnvel þrífa hann með þér. Strákarnir okkar eru svo heppnir að hafa átt svona góðan afa sem sá ekki sólina fyrir þeim og kenndi þeim svo margt. Ég var líka ótrúlega heppin með pabba. Hann var svo duglegur að gera hluti með mér, fara með mig í útilegur, jeppaferðir, gönguferðir með Útivist og það voru ófáar ferðir upp í Skálafell eða Bláfjöll á skíði með heitt kakó í brúsa. Hann elskaði íslenska náttúru og kenndi mér að meta hana líka. Sameiginlegt áhugamál okkar var að púsla og alltaf þegar ég var veik kom hann færandi hendi með púsl til að stytta mér stundir. Ekki er langt síðan við hjálpuðumst öll að við að klára saman stórt púsl.

Pabbi hafði mikinn áhuga á bílum sem smitaðist yfir á mig þegar ég var lítil og ég fékk alltaf að sitja í fanginu á honum og stýra niður götuna í Akurholtinu. Þegar ég stækkaði fór ég að fá að skipta um gíra og kúpla og kenndi þetta mér að fá tilfinningu fyrir bílnum og því að keyra. Þegar ég var 11 ára keyrði ég í fyrsta sinn sjálf, upp í sveit, með símaskrá undir mér til að sjá út um gluggann. Þetta var það skemmtilegasta sem ég gerði. Pabbi æfði mig í að bakka upp brekkur og leggja í stæði og þegar ég var 16 ára og komin með æfingaakstur vorum við á leið inn í Þórsmörk og lét pabbi mig keyra yfir eina af ánum sem þurfti að komast yfir. Hann hafði óbilandi trú og traust á mér. Þegar loks kom að því að fara til ökukennara fór ég í einn tíma og þurfti ekki að mæta aftur því samkvæmt ökukennaranum kunni ég að keyra.

Pabbi var alltaf með myndavélina á lofti, hvert sem hann fór, og er ég ótrúlega þakklát fyrir allar þær myndir sem hann skilur eftir sig. Ég var þó ekki alltaf jafn hress með þennan ljósmyndaáhuga þegar ég var yngri, þurfti stundum að bíða í ófáar mínútur úti í kanti á ferðalögum okkar um landið þegar pabbi sá flotta birtu og gat ekki sleppt því að smella nokkrum myndum. Hann gleymdi alveg tíma og stað þegar hann datt niður á góða birtu, enda var hann með virkilega gott auga fyrir fallegu myndefni.

Pabbi var mikill rólyndismaður og hafði góða nærveru. Hann átti enga óvini og var góður við alla. Hann gat átt samræður við hvern sem er og þótti honum flestallt áhugavert. Njáli tókst meira að segja að koma honum upp á að horfa á enska boltann, sem hann hafði aldrei gert áður. Hann var líka einstaklega fær í höndunum og gat alltaf reddað öllu, ef mann vantaði eitthvað hringdi maður í pabba og hann var alltaf til í að hjálpa.

Pabbi skilur eftir sig stórt skarð í okkar litlu fjölskyldu og hans verður sárt saknað af okkur Njáli, Benjamín Gunnari og Brynjari Reyni sem vissu ekkert betra en að brasa eitthvað með afa. Nú fær Viktor loks að kynnast afa Gunnari, við vitum að þeir munu bralla mikið saman. Takk fyrir allt pabbi,

Hera Brá.

Elsku Gunnar, ég trúi því ekki enn að þú sért farinn frá okkur. Það er erfitt að sætta sig við að maður geti ekki notið návistar þinnar lengur. Það sem mér leið alltaf vel í návist þinni, alveg frá fyrstu kynnum þegar við buðum þér í mat í Grundartangann svo að Hera gæti kynnt mig fyrir þér. Ég hugsaði strax hvað þetta væri góður maður og gaman að spjalla við hann. Mér fannst við strax ná að tengjast svo vel. Eitt af því fyrsta sem við gerðum saman var að laga tröppurnar í Akurholtinu, 300 fm húsinu sem þú teiknaðir að sjálfsögðu sjálfur rétt um tvítugt og byggðir svo sjálfur, með nánast jafn stórri sundlaug í bakgarðinum og sundlaugin heima á Djúpavogi var, þar sem ég lærði skólasund. Auðvitað var mótað fyrir linsu úr myndavél í einum steypta útveggnum í húsinu. Þetta var um sumar og veðrið var mjög fallegt. Við múruðum tröppurnar upp á nýtt og þær voru eins og nýjar, því allt sem þú komst nálægt var alltaf gert upp á 10. Þannig maður varst þú, það var aldrei verið að drífa sig að hlutunum, aðalmálið var að gera þetta vel. Þegar við vorum búnir var sólin að setjast og þú raukst af stað með myndavélina að taka myndir af hestum í náttúrunni við sólsetrið.

Elsku Gunnar, ég á svo ótalmargar minningar með þér og allar svo ótrúlega góðar, allar minningarnar frá Barðastöðum, við að klára saman að byggja draumahúsið þitt með útsýni yfir golfvöllinn og að sjálfsögðu Esjuna. Vandvirkari mann er erfitt að finna og ég minnist þess þegar menn komu og sáu parketlögnina eftir þig. Alltaf nákvæmlega sama fúgubil meðfram öllum þessum flókna bogavegg og öllum hornum sem engin eru eins. Þá sögðu menn, hvernig fóru þið að þessu? Þetta reyndist ekki flókið fyrir þig, þú tókst þér tíma í þetta og varst ekki að stressa þig á þessu. Þetta lýsir þér svo vel og eins og ég sagði oft við þig, ég hef aldrei kynnst öðrum eins millimetramanni. Þú varst svo útsjónarsamur og hugsaðir hvern hlut til enda, þú gast gert allt.

Ég er svo þakklátur fyrir allan þann tíma og þolinmæði sem þú sýndir afastrákunum þínum, Benjamín og Brynjari. Þú kenndir þeim svo margt sem þeir fara með inn í sitt líf. Ég sé þig alveg fyrir mér hlæja að uppátækjunum þeirra. Þeir voru svo rosalega miklir afastrákar enda hittu þeir þig á hverjum einasta degi og hvert sem við fórum, í útilegu eða sumarbústað þá fylgdir þú fast á eftir. Alltaf kvöddu þeir þig á kvöldin með því að hlaupa út allan ganginn og í fangið á afa sínum og knúsa og kyssa.

Elsku Gunnar, það er ótrúlega sárt að hugsa til þess að hafa þig ekki hjá okkur, drekka með þér kaffi og horfa út að Esju og virða fyrir sér náttúruna. Spjalla um bíla, myndavélar og húsbyggingar og allt milli himins og jarðar. Spjalla um vinnuna mína sem þú hjálpaðir mér svo mikið með, þar sem þú varst með mikla reynslu í að reka fyrirtæki. Elsku Gunnar ég á þér svo margt að þakka, þú kenndir mér svo margt. Ég mun aldrei gleyma þér og nú veit ég að þú ert farinn að leika við og passa upp á hann Viktor okkar.

Njáll Reynisson.

Það er nokkuð sérstök tilfinning að setjast niður til að minnast Gunna tvíburabróður míns, engu að síður er mér það bæði ljúft og skylt.

Við höfum alla tíð verið mjög nánir og átt auðvelt með að setja okkur í spor hvor annars. Áhugamál hafa verið þau sömu, að minnsta kosti lík.

Minnist ég þess þegar við vorum í níu ára bekk og lágum á smíðastofuglugganum í Melaskólanum og létum okkur dreyma um að komast í smíðatíma en þangað kæmumst við næsta vetur, urðum við að láta okkur duga að smíða dúfnakofa heima. Snemma beygist krókur, Gunna fylgdu alla tíð ýmis byggingatengd mál. Þegar hann var rétt um tvítugt seldi hann bílinn sinn til að greiða fyrir lóð sem hann fékk úthlutaða í Mosfellssveit. Hannaði síðan og teiknaði sitt fyrsta hús, var afi fenginn til að skrifa upp á teikningarnar. Gunni hugsaði ekki smátt; teiknaði stórt hús á tveimur hæðum og betrumbætti með átta metra útisundlaug, enda lóðin stór og heita vatnið ódýrt. Elju og útsjónarsemi skorti ekki við byggingaframkvæmdir.

Þá teiknaði Gunni tvö önnur hús í Arnarnesinu. Á þessum tíma stóð hugur hans mjög til þess að fara í arkitektanám, ekki varð þó úr því enda nóg að gera, orðinn offsetljósmyndari í fullu starfi hjá Kassagerð Reykjavíkur. Þar naut hann mikils trausts og starfaði um árabil. Síðar stofnaði hann ásamt öðrum Offsetþjónustuna sem varð hans aðalstarfsvettvangur eða þar til þeir félagar seldu fyrirtækið um það bil sem stafræn tölvutækni tók yfir í litgreiningu, sem gerði starf offsetljósmyndara að engu.

Gunni tók þá meiraprófið og starfaði við rútuakstur í nokkur ár.

Gunni hafði alla tíð mikinn áhuga á bílum og ekki síst mjög sérstökum, t.d. eignaðist hann Citroën FAF með boddí úr plasti, einnig Citroën CV, „braggann“, sem reyndist okkur afburða vel sem „torfærubíll“ þegar gaus í Skjólkvíum í Heklu 1970. Mjúk og slaglöng fjöðrun með eftirgefanlegri yfirbyggingu, fór bíllinn vel með okkur á vegaslóðum fjallsins, að vísu þurfti að herða nokkrar skrúfur og bolta í lok ferðar. Þá var hann með fyrstu mönnum til að „hækka upp“ Land Rover-jeppa, sem hann síðar seldi. Fréttir bárust síðar af að jeppanum hefði verið breytt aftur í fyrra horf, þótti hann ekki nógu stöðugur, en svona var þetta nú á árdögum jeppabreytinga. Þannig var hann alla tíð; hugaði að betri lausnum og notagildi.

Gunnar spilaði golf í mörg ár bæði innanlands og utan. Ljósmyndun var alla tíð mikið áhugamál og voru margar Útivistarferðir farnar með myndavélartöskuna meðferðis, jafnt í göngu-, trúss- eða skálaundirbúningsferðum, þar var hann virkur félagi. Þá sá hann lengi um litgreiningu og uppsetningu ferðablaðsins og ýmislegt í kringum myndakvöldin. Eignaðist hann marga af sínum bestu vinum þar.

Gunnar lenti í slysi 2015, eftir það náði hann sér aldrei alveg, en gat þó sinnt nær öllu eins og áður. Hann var mikill fjölskylduvinur, og fengu ekki síst afastrákarnir tveir að njóta þess, enda ríkti mikil væntumþykja og trúnaður þeirra á milli. Hann var vinmargur og átti sér enga óvildarmenn.

Þín er sárt saknað.

Kjartan B. Guðmundsson.

Gunni bróðir lifði svo ríkulegu lífi og hafði svo margt fram að færa. Umvafinn vinum og fjölskyldu, elskaður af öllum og alls staðar velkominn. Hann var alls ekki búinn – en samt tekinn burt. Hann var pabbi, stjúpi, tengdapabbi, afi, bróðir og sannarlega vinur vina sinna. Mamma minntist þess oft þegar hún fór 6. júlí 1949 á spítalann til að eignast sitt annað barn. Kjartan kom í heiminn og læknirinn sagði – „Það er víst annað barn frú Sigríður.“ Þannig virðast hjörtu tvíburanna hafa slegið í takt sem eitt hjarta frá upphafi. Og þeir héldu áfram að vera í takti með svipuð áhugamál og lífsýn. Kjartan vissi alltaf hvar Gunna var að finna og öfugt – þeir töluðu nær daglega saman. Alltaf verið að rugla þeim saman – nei ég er ekki Gunni, nei ég er ekki Kjartan – ég er hinn. Alveg eins en samt ekki eins. Gunni var sá hægláti. Þeir stórir og ég lítil og svo stolt af þeim.

Gunni var ætíð til aðstoðar og ekki bara okkur í fjölskyldunni og lét þá eigin þarfir sitja á hakanum. Hann skrúfaði saman húsgögn, setti upp eldhúsinnréttingar, parketlagði, tengdi þvottavélar, setti upp þvottasnúru, skoðaði bíla og íbúðir, flutti allt milli himins og jarðar á stóra svarta Land Rovernum. Aldrei var komið að tómum kofunum hjá honum – hann var alltaf búinn að pæla allt til þrautar og finna út hvar gæðin og fegurðin lá í hlutunum. Hann var þúsundþjalasmiður og listamaður. Hann var sinn eigin kennari. Þannig lærði hann að teikna hús, byggja hús, smíða og innrétta, mála myndir, gera upp húsgögn, taka ljósmyndir, framkalla myndir o.m.fl. Ekkert var gert nema vel gert – þar var honum ekki haggað og við lærðum af honum. „Gunni myndi aldrei samþykkja þetta,“ var þekkt setning. Hann var hamingjusamur þegar Hera og Njáll fóru að búa í húsinu hans, fyrst með honum þar til hann flutti. Þar var hann öllum stundum að klára húsið og garðinn með þeim sem hann elskaði mest. Sinnti afastrákunum sínum af þeirri natni sem hann sýndi í öllum sínum verkum en kannski hvergi betur en í afahlutverkinu. Hann elskaði litlu drengina sína, Benjamín Gunnar og Brynjar Reyni, heitt og innilega. Hann hitti þá helst á hverjum degi, sótti þá í leikskólann, fór með þeim í ævintýraferðir út í náttúruna, las fyrir þá, teiknaði með þeim, smíðaði, hann vildi ekki missa af neinu sem þeir gerðu og fylgdist grannt með því hvernig þeir tóku á móti lífinu. Hann sagði oft sögur af þeim með gleðiglampa í augum – hvernig þeirra tilsvör voru og hvað þeir hefðu lært þann daginn. Hann var svo stoltur og þeir voru sannkallaðir afastrákar, afi skyldi vera með í öllu. Gunni talaði alltaf við börn af virðingu og sem jafningja en fannst líka mikilvægt að miðla til þeirra. Það var unun að sjá hversu samrýnd Hera og Gunni voru alla tíð. Hvílíkur fengur var svo að fá Njál inn í fjölskylduna þegar þau Hera tóku saman. Njáll og Gunnar urðu einstaklega góðir vinir. Þar fóru góðir menn saman. Missir ungu fjölskyldunnar er mikill og ekki annað hægt að gera en að ylja sér við minningarnar og þakka fyrir sannarlega góðar stundir.

Bryndís S. Guðmundsdóttir.

Nú er elskulegur bróðir minn farinn. Svo óvænt að ég er varla farin að meðtaka það ennþá. Hann var á heilsubótargöngu með vinum sínum, sem betur fer, þegar hann hnígur niður og hjartað hættir að slá. Þetta er auðvitað besta leiðin til að fara en bara ekki alveg strax! Þrátt fyrir hvað Gunni bróðir var hæglátur maður þá skilur hann eftir sig ótrúlega stórt skarð. Bróðir minn var svo lánsamur að eignast eina yndislega dóttur, Heru Brá, og voru þau alla tíð mjög náin. Hann var líka svo heppinn að eignast Njál fyrir tengdason. Þeir áttu mjög vel saman. Litlu drengirnir þeirra, Benjamín og Brynjar, voru mikið með afa sínum og hafa þeir misst mikið. Ég get ekki sagt eins og er sagt okkur hinum til huggunar að nú sé Gunni kominn á betri stað því hann var á góðum stað. Elsku litla fjölskylda, Hera, Njáll, Benjamín og Brynjar, ég samhryggist ykkur innilega.

Ásta Guðmundsdóttir.