Sigursveinn Hilmar Þorsteinsson fæddist 2. mars 1948. Hann lést 22. nóvember 2021.

Útför hans fór fram 4. desember 2021.

Við systur kveðjum nágranna okkar til margra ára. Himmi var ekki bara nágranni okkar, hann var einnig faðir vina okkar. Við erum þrjár systurnar og börn Himma og Gerðu Stínu voru líka þrjú og lékum við okkur mikið saman. Foreldrar okkar voru miklir vinir og má segja að vináttan hafi bundið þessar tvær fjölskyldur saman. Það var mikill samgangur á milli heimilanna tveggja þar sem kærleikur, gleði og glens réð ríkjum. Himmi var mikill gleðigjafi og ávallt stutt í húmorinn hjá honum.

Oft er rifjuð upp sagan þegar Jónína, yngst okkar systra, fæddist. Líkt og algengt er var farið að ræða hverjum hún líktist. Talið var upp þetta helsta: augu, munnur og nef og þegar talið barst að því hve stórar hendur hún væri með þá var Himmi ekki lengi til að lyfta upp sínum stóru höndum og sagði: „Það er ekki skrítið að barnið sé með stórar hendur,“ og var þá mikið hlegið. Það var gott og dýrmætt að fá að alast upp við hliðin á slíkum eðalmanni líkt og Himma. Við kveðjum Himma með söknuði og tökum gleðina, minningarnar og kærleikann með okkur áfram.

Elsku fjölskylda, Gerða Stína, Gulli, Doddi, Freyja, tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn, við sendum innilegar samúðarkveðjur.

Valgerður, Steingerður og Jónína Kristín Guðrúnar- og Sigtryggsdætur.