Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Hefðir eru áberandi í jólahaldi Íslendinga og mætti kannski segja að hjá flestum sé jólahald mjög hefðbundið, þó áherslumunur sé oft á milli heimila.

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Hefðir eru áberandi í jólahaldi Íslendinga og mætti kannski segja að hjá flestum sé jólahald mjög hefðbundið, þó áherslumunur sé oft á milli heimila. Sumir fara í kirkju en aðrir ekki, og sumir snæða alltaf sama matinn en aðrir gera tilraunir.

Ég sá á dögunum dönsku jólamyndina Den tid på året , eða Þessi tími ársins , en þar segir frá stórfjölskyldu sem hittist um jól. Móðirin og gestgjafinn er mjög fastheldin á hefðir og reynir hvað hún getur að halda í þær þó að það sé stundum eins og að smala köttum að fá alla til að dansa í takt.

Við áhorfið sá maður hvað margt er greinilega komið til Íslands frá Danmörku og veltir maður því fyrir sér af hverju við höfum ekki náð að búa til okkar eigin hefðir að neinu sérstöku marki.

Í myndinni var möndlugrauturinn í stóru hlutverki þar sem miklu skiptir að enginn láti vita að hann sé með möndluna fyrr en allir hafa sleikt diskinn að innan. Þetta er skemmtilegur leikur og eins og ég hef skilið hann þá snýst hann um plata börnin til að klára matinn sinn, enda fær maður svokallaða möndlugjöf ef maður er svo heppinn að hafa möndluna í disknum.

Ég tók eftir að Daninn opnar pakkana á kvöldi aðfangadags, rétt eins og hefðin býður hér á landi. Reyndar kemur það á óvart að við höfum ekki farið bandarísku leiðina, miðað við það flóð af bandarískum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum sem rekur hér á fjörur, en þar í landi opna menn pakkana á jóladagsmorgni.

Heimatilbúna rauðkálið var líka á sínum stað í veislunni, þó það hafi fengið vægast sagt hörmuleg örlög í myndinni, svo ekki sé meira sagt.