Úttektarnefndin Rán Ingvarsdóttir, Kjartan Bjarni Björgvinsson og Hafrún Kristjánsdóttir kynna niðurstöðurnar á fréttamannafundi í gær.
Úttektarnefndin Rán Ingvarsdóttir, Kjartan Bjarni Björgvinsson og Hafrún Kristjánsdóttir kynna niðurstöðurnar á fréttamannafundi í gær. — Morgunblaðið/Eggert
KSÍ Bjarni Helgason Víðir Sigurðsson „Þetta eru vissulega erfið mál en við fögnum því engu að síður að það sé komin niðurstaða hjá úttektarnefndinni,“ sagði Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, í samtali við Morgunblaðið eftir að úttektarnefnd ÍSÍ kynnti í gær niðurstöður sínar, þar sem viðbrögð og málsmeðferð KSÍ vegna kynferðisofbeldismála sem tengst hafa leikmönnum í landsliðum Íslands voru skoðuð ítarlega.

KSÍ

Bjarni Helgason

Víðir Sigurðsson

„Þetta eru vissulega erfið mál en við fögnum því engu að síður að það sé komin niðurstaða hjá úttektarnefndinni,“ sagði Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, í samtali við Morgunblaðið eftir að úttektarnefnd ÍSÍ kynnti í gær niðurstöður sínar, þar sem viðbrögð og málsmeðferð KSÍ vegna kynferðisofbeldismála sem tengst hafa leikmönnum í landsliðum Íslands voru skoðuð ítarlega.

Nefndina skipuðu Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari sem var formaður hennar, Hafrún Kristjánsdóttir sálfræðingur og Rán Ingvarsdóttir lögfræðingur.

„Við lítum svo á að þetta sé enn eitt púslið í þeirri vegferð sem við erum á að gera góða hreyfingu ennþá betri. Þetta er mjög vönduð skýrsla í alla staði og í henni eru góð ráð og punktar sem við munum halda áfram að vinna með í okkar stefnumótun.“

Viljum að allir séu öruggir

„Starfshópur á vegum ÍSÍ er að vinna að því að endurskoða allar reglur innan íþróttahreyfingarinnar í þessum málaflokki, sem er mjög jákvætt. Við viljum að okkar fólk og allir sem eru hluti af hreyfingunni séu örugg í okkar umhverfi og það er ástæðan fyrir því að við fórum af stað í þessa vinnu til að byrja með,“ sagði Vanda.

Stjórn KSÍ mun fara ítarlega yfir skýrslu úttektarnefndarinnar á stjórnarfundi sambandsins í næstu viku.

„Núna mun ég setjast niður með starfsfólki og stjórn KSÍ þar sem við munum fara ennþá betur yfir það sem kemur fram í skýrslu úttektarnefndarinnar.

Þetta eru góð gögn með miklum upplýsingum og það er okkar að greina hana eins og best verður á kosið.

Þetta eru flókin mál sem tekur tíma að vinna úr. Við þurfum að vanda okkur og fylgja settum reglum og lögum auðvitað þar sem vinnuverndar- og persónuverndarlög eru ekki brotin.“

Aðspurð hver væru næstu skref sambandsins í þessum málaflokki sagði Vanda:

„Við höfum rætt það innan sambandsins að boða til blaðamannafundar þegar við höfum farið betur yfir skýrsluna en fyrst þurfum við að fá að leggjast almennilega yfir þetta.“

Ítarlegar niðurstöður

Í ítarlegum niðurstöðum í skýrslunni kemur m.a. fram að Guðni Bergsson, formaður KSÍ, og Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri hafi 3. júní 2021 haft vitneskju um að frásögn um alvarlegt kynferðisofbeldi sem birtist í opinni færslu á Instagram tæplega mánuði áður tengdist tveimur leikmönnum í A-landsliði Íslands. Þar er vísað til atviks í Kaupmannahöfn árið 2010.

*Starfsmaður KSÍ, sem er tengdamóðir viðkomandi konu, hafi rætt málið ítrekað við þau bæði og Guðni rætt við annan leikmannanna.

*Ljóst sé að stjórnarfólki KSÍ hafi verið ókunnugt um tengslin og frásögn af kæru en tölvupóstssamskipti í stjórn KSÍ gefi það eindregið til kynna.

*Ekki sé hægt að sjá að framganga stjórnar, framkvæmdastjóra eða annarra starfsmanna varðandi meðferð frásagna um ofbeldi beri einkenni þöggunar- og nauðgunarmenningar umfram það sem almennt gerist í samfélaginu.

*Þáverandi formaður KSÍ, Geir Þorsteinsson, hafi ásamt fleirum innan sambandsins haft vitneskju um tilkynningar um ólæti og grun um heimilisofbeldi á dvalarstað leikmanns landsliðsins 5. júlí 2016, eftir heimkomu landsliðsins frá EM í Frakklandi.

*Athugunarvert sé að formaðurinn hafi rætt við almannatengil vegna málsins, þrátt fyrir skýringar um að málið hafi aldrei verið „formlega á borði KSÍ og um einkalíf leikmannsins var að ræða“.

*KSÍ hafi brugðist strax við ábendingu um að lögregla hefði til meðferðar kæru vegna ofbeldis leikmanns á skemmtistað haustið 2017 og sent hann úr landsliðsverkefni.

*Niðurstöðurnar eru birtar í heild sinni á mbl.is/sport ásamt yfirlýsingu Guðna Bergssonar.