Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Íslensk heimili skulda nær jafn mikið í verðtryggðu og óverðtryggðu. Er það gjörbreyting á skömmum tíma.

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is
Íslensk heimili skulda nær jafn mikið í verðtryggðu og óverðtryggðu. Er það gjörbreyting á skömmum tíma.
Fyrir fimm árum námu óverðtryggðar skuldir íslenskra heimila aðeins 20% af heildarskuldbindingum þeirra gagnvart íslenskum fjármálafyrirtækjum. Fram á mitt ár 2020 jókst hlutdeild óverðtryggðra lána hægt og bítandi en eftir það hefur gjörbreyting orðið á samsetningu skuldanna.

Rétt sjónarmunur á milli

Í nýbirtum tölum Seðlabanka Íslands má sjá að óverðtryggðar skuldir heimilanna voru í lok september síðastliðins jafn háar verðtryggðum skuldbindingum. Munaði raunar aðeins 12 milljörðum. Verðtryggðar skuldbindingar námu 1.336 milljörðum en óverðtryggðar 1.324. Ósennilegt er þessi þróun hafi snúist við síðustu vikur og því má gera ráð fyrir að óverðtryggðar skuldir verði orðnar hærri í lok árs en verðtryggðar og verður það þá í fyrsta sinn í sögu íslensks fjármála- og efnahagslífs sem það gerist.

Bankarnir hafa aukið umsvifin

Fyrrnefndar tölur vitna einnig um að skuldir íslenskra heimila við lífeyrissjóði (og tryggingarfélög) hafa aukist um 247 milljarða frá því í árslok 2016. Á sama tíma hafa skuldir við aðrar fjármálastofnanir dregist saman um 253 milljarða króna. Bankakerfið hefur hins vegar aukið umsvif sín á þessu sviði gríðarlega og nemur útlánaaukningin til heimilanna 800 milljörðum króna. Með þeim grundvallarbreytingum sem orðið hafa á fjármálaskipan heimilanna, þar sem óverðtryggðar skuldbindingar vega orðið afar þungt, er ljóst að peningastefna Seðlabankans miðlast með meira afgerandi hætti en áður. Sést það best á því að bankarnir hafa hækkað óverðtryggða vexti sína samfara hækkandi stýrivöxtum. Í mörgum tilvikum eru heimilin með óverðtryggða vexti og breytilega en fastir vextir gilda sjaldnast til lengri tíma en þriggja ára í senn.