Umsvif Frá athafnasvæði Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Þar er oft handagangur í öskjunni.
Umsvif Frá athafnasvæði Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Þar er oft handagangur í öskjunni. — Morgunblaðið/Óskar Pétur Friðriksson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Drjúgur hluti af takmörkun afhendingar á raforku sem Landsvirkjun hefur ákveðið er vegna fiskimjölsverksmiðja, um 30-40 megavött næstu daga en 75 MW í janúar þegar verksmiðjurnar þurfa 100 MW. Álverin eru skert um 30 MW sem er um 2,5% af sölu til álvera. Þá eru gagnaverin skert um 14 MW sem er um 14% af sölunni. Sala til gagnavera sem hefur að stórum hluta verið notuð til rafmyntagraftrar er um 100 MW sem er sama afl og fiskimjölsverksmiðjurnar þurfa á að halda á loðnuvertíð.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Drjúgur hluti af takmörkun afhendingar á raforku sem Landsvirkjun hefur ákveðið er vegna fiskimjölsverksmiðja, um 30-40 megavött næstu daga en 75 MW í janúar þegar verksmiðjurnar þurfa 100 MW. Álverin eru skert um 30 MW sem er um 2,5% af sölu til álvera. Þá eru gagnaverin skert um 14 MW sem er um 14% af sölunni. Sala til gagnavera sem hefur að stórum hluta verið notuð til rafmyntagraftrar er um 100 MW sem er sama afl og fiskimjölsverksmiðjurnar þurfa á að halda á loðnuvertíð.

„Þetta er stórfurðuleg ákvörðun. Allar fiskimjölsverksmiðjurnar eru búnar að rafvæða sig, hafa fjárfest í því fyrir um eða yfir hálfan milljarð hver verksmiðja. Svo er skrúfað fyrir rafmagnið þegar við þurfum á því að halda,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson (Binni), framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar.

Binni segir að vissulega séu bræðslurnar með olíukatla sem varaafl. Hann telur þó að þar sem áherslan hafi verið á rafvæðinguna verði ekki hægt að keyra verksmiðjurnar á fullu afli á vertíðinni með olíu. Það eigi alla vega við verksmiðju Vinnslustöðvarinnar. „Það þýðir að við munum ekki ná kvótanum og þjóðin verður af útflutningstekjum. Það mun hafa áhrif víða þar sem um helmingur fer til ríkis og sveitarfélaga, auk lífeyrissjóða, og yfir þriðjungur í laun.“

Rafmyntagröftur víkjandi

Spurð að því hvernig það samræmist yfirlýsingum Landsvirkjunar um samfélagslega ábyrgð að selja raforku til rafmyntagraftrar en takmarka að miklu leyti afhendingu til fiskimjölsverksmiðja, sem taldar eru þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki, segir Tinna Traustadóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu hjá Landsvirkjun, að erfitt sé að bera saman þessi viðskipti. „Það getur verið erfitt að sjá fyrir hversu stór loðnukvóti er gefinn út fyrir hverja vertíð. Það er flókið að gera langtímaáætlanir í kringum starfsemi sem slík óvissa ríkir um og það á eflaust sinn þátt í að bræðslurnar hafa ekki fest sér forgangsorku, sem er vissulega dýrari. Við viljum gjarnan styðja við starfsemina og höfum gert það með þessum hætti, að bjóða upp á samninga á lægra verði þar sem hægt er að takmarka afhendingu þegar aðstæður krefjast.“

Hún segir að verðið sem fiskimjölsverksmiðjum og gagnaverum standi til boða sé ekki það sama enda eðli samninga ólíkt. Nefnir að notkun gagnaveranna sé jöfn allt árið á meðan fiskimjölsverksmiðjurnar kaupi mest rafmagn að vetrinum þegar eftirspurnin er hvað mest.

Landsvirkjun tilkynnti jafnframt að öllum óskum nýrra viðskiptavina um orkukaup vegna rafmynta hefði verið hafnað. Tinna segir að mikil eftirspurn hafi verið eftir orku fyrir þessa starfsemi frá því Kínverjar lokuðu á rafmyntagröft um mitt ár. Eftirspurnin hafi verið tíföld sú starfsemi sem hér er nú.

Tinna segir að viðskiptasjónarmið ráði ákvörðuninni. Viðskiptalíkan Landsvirkjunar gangi út á að gera raforkusamninga til langs tíma, til þess að nýta raforkukerfið sem best, en skammtímasjónarmið ráði vissulega för í rafmyntagreftri.

Segir hún að gagnaverin geti séð tækifæri til að nýta rafmyntagröft á meðan þau eru að byggja upp sín alþjóðlegu viðskipti. Því hafi verið gerðir skammtímasamningar um rafmyntagröft. Þeir verði allir útrunnir eftir eitt til tvö ár.

Stjórnendur fiskimjölsverksmiðja gagnrýna hversu skammur tími er gefinn til aðlögunar verksmiðjanna. Slökkt hafi verið á rafmagninu nokkrum klukkustundum eftir að skerðingin var tilkynnt. Tinna segir að Landsvirkjun sé háð duttlunum náttúrunnar en reyni eftir bestu getu að halda viðskiptavinum sínum upplýstum um stöðuna. Tekur raunar fram að salan til verksmiðjanna fari í gegnum sölufyrirtæki.