Mótmæli Krafist fullrar sniðgöngu Vetrarólympíuleikanna.
Mótmæli Krafist fullrar sniðgöngu Vetrarólympíuleikanna. — AFP
Guðmundur Magnússon guðmundur@mbl.is Bandarískir stjórnarerindrekar munu ekki sækja Vetrarólympíuleikana í Beijing í Kína í febrúar á næsta ári.

Guðmundur Magnússon

guðmundur@mbl.is

Bandarískir stjórnarerindrekar munu ekki sækja Vetrarólympíuleikana í Beijing í Kína í febrúar á næsta ári. Bandaríkjastjórn vill með þeim hætti mótmæla og vekja athygli á mannréttindabrotum í landinu og sérstaklega á þjóðarmorði á Úígúr-múslimum í Xinjiang-héraði.

Blaðafulltrúi Joes Bidens forseta tilkynnti þetta á fundi í Hvíta húsinu í gær. Ákvörðunin hefur ekki áhrif á þátttöku bandarískra íþróttamanna í leikunum. Kínverjar brugðust illa við fréttunum og sögðust mundu grípa til „viðeigandi gagnráðstafana“. Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins sagði að ekki ætti að blanda saman íþróttum og stjórnmálum.

Mikill þrýstingur hefur verið á bandarísk stjórnvöld að nota Ólympíuleikana til að setja mannréttindabrot í Kína í brennidepil pólitískra umræðna. Ekki kom þó til greina að hætta við þátttöku í leikunum eins og gert var í tíð Jimmys Carters forseta 1980, en leikarnir voru þá haldnir í Moskvu skömmu eftir innrás Sovetríkjanna í Afganistan. Sú sniðganga var almennt talin hafa haft lítil áhrif.

Mörg mannréttindasamtök hafa fagnað ákvörðuninni. Sumir áhrifamenn í bandarískum stjórnmálum segja þó að þessi diplómatíska sniðganga leikanna sé ekki nægilega öflug.

Höfðu samráð við bandamenn

Óljóst er hvort fleiri ríki fylgi fordæmi Bandaríkjamanna en það er þó ekki útilokað. Bandaríkjamenn höfðu samráð við bandamenn sína víða um heim áður en þeir tilkynntu ákvörðun sína. Nýsjálendingar ætla ekki að senda opinbera fulltrúa á leikana en þeir bera við erfiðleikum á ferðalögum vegna kórónuveirufaraldursins.

Samskipti Bandaríkjanna og Kína hafa verið við frostmark undanfarin ár. Hafa ríkin beitt hvort annað efnahagslegum refsiaðgerðum, meðal annars með verndartollum sem skaðað hafa ýmsar atvinnugreinar landanna. Bandaríkjamenn fara ekki leynt með að þeir vilja stemma stigu við efnahagslegri og hernaðarlegri útþenslu Kínverja á Kyrrahafssvæðinu og í Asíulöndum. Engu að síður er það opinber stefna beggja ríkjanna að skapa grundvöll friðsamlegra samskipta og málamiðlana. Áttu forsetarnir, Biden og Xi Jin-ping, 90 mínútna langan fund í myndsíma í október síðastliðnum.

Vetrarólympíuleikarnir verða haldnir 4. til 20. febrúar á næsta ári.