Aðalritarinn Gorbatsjov flytur fyrirlestur í Háskólabíói árið 2006.
Aðalritarinn Gorbatsjov flytur fyrirlestur í Háskólabíói árið 2006. — Morgunblaðið/ÞÖK
Fyrir 30 árum, 8. desember 1991, undirrituðu sex embættismenn skjal á fundi í Bjelovesk-þjóðgarðinum í Hvíta-Rússlandi, skammt frá pólsku landamærunum.

Fyrir 30 árum, 8. desember 1991, undirrituðu sex embættismenn skjal á fundi í Bjelovesk-þjóðgarðinum í Hvíta-Rússlandi, skammt frá pólsku landamærunum. Voru þar saman komnir æðstu stjórnarherrar Hvíta-Rússlands, Rússlands og Úkraínu, þar á meðal Boris Jeltsín, nýkjörinn forseti Rússneska sambandsríkisins, en skjalið á borðinu var Bjelovesk-sáttmálinn svokallaði, sem mælti fyrir um formlega upplausn Sovétríkjanna og stofnun Samveldis sjálfstæðra ríkja úr leifum gamla ríkjasambandsins, sem stofnað var 30. desember 1922.

Betur mátti ef duga skyldi

Fljótlega bar þó á efasemdaröddum, sem einkum snerust um að fulltrúar aðeins þriggja af lýðveldum Sovétríkjanna sálugu gætu varla talist til þess bærir að undirrita samning um upplausn ríkjasambandsins, en málin tóku nýja stefnu 21. desember, þegar fulltrúar 11 téðra sovétlýðvelda, þar með allra þeirra sem ekki höfðu komið að Bjelovesk-sáttmálanum, að Georgíu og Eystrasaltslöndunum undanskildum, undirrituðu yfirlýsingu kennda við borgina Alma-Ata í Kasakstan og töldust Sovétríkin þá lögformlega úr sögunni.

Á jóladag stóð Míkhaíl Gorbatsjov, sem kjörinn hafði verið fyrsti forseti Sovétríkjanna 15. mars 1990, svo við þau orð sín að segja af sér embætti þegar Rússneska sambandsríkið hefði formlega verið stofnað, en þau hafði hann látið falla í viðtali við CBS News skömmu fyrir Alma-Ata-yfirlýsinguna.