Í nýlegri ljóðabók Þórarins Eldjárns, sem ber yfirskriftina Rím og roms, kennir ýmissa grasa. Verkinu er sérstaklega beint að börnum en þegar grannt er skoðað kemur í ljós að það höfðar til allra þeirra sem ekki hafa týnt barninu í sjálfum sér.

Í nýlegri ljóðabók Þórarins Eldjárns, sem ber yfirskriftina Rím og roms, kennir ýmissa grasa. Verkinu er sérstaklega beint að börnum en þegar grannt er skoðað kemur í ljós að það höfðar til allra þeirra sem ekki hafa týnt barninu í sjálfum sér. Húmor skiptir þar einnig sköpum eins og aðdáendur Þórarins þekkja.

Í einu ljóðanna er fjallað um furðulegan mann að nafni Rabbi.

Hann er sagður rafmagnsmaður og gæti verið starfsmaður Landsvirkjunar. Segir þar að: „Hans æðsta þrá, hans eini guð:/að efla stuð./Það herjar á hann eins og sýkill./Er hann kannski spennufíkill?“

Og nú leitar hugur Innherja (þess eina og sanna) til þeirra sem á næstu vikum og mánuðum munu þurfa að spandera tugum milljóna lítra af jarðefnaeldsneyti til þess að knýja verksmiðjur sínar. Fyrirtæki sem búin eru öllum þeim tækjum sem þarf til svo leysa megi málin með rafmagni. En á Íslandi er ekki til nægilegt rafmagn! Ha, myndi Rabbi segja, ef hann heyrði slíkt.

Hvernig má það vera að í landi þar sem ótakmörkuð tækifæri eru til raforkuframleiðslu skuli þessi staða skapast? Aðeins lítinn hluta þessara tækifæra þyrfti að nýta, og með skynsamlega náttúruvernd að leiðarljósi, til þess að uppfylla þarfir stór- og smánotenda um landið. Slík skref myndu í framtíð, eins og þau hafa gert fram að þessu, tryggja aukin lífsgæði í landinu kalda.

Kannski þarf að fara fram rannsókn á því hvað hernaðaraðgerðir Landverndar og fylgihnatta hennar hafa kostað íslenskt samfélag, með eilífum kærum og þvælingi, ekki aðeins gagnvart eðlilegum virkjanaframkvæmdum heldur einnig línulagningu sem tryggt getur öruggan flutning raforkunnar. Hversu dýrkeypt mega þessi samtök verða landi og þjóð? Þau bera ábyrgð á því að nú verður tugum þúsunda tonna af olíu brennt til að skapa hér verðmæti. Það hefði mátt gera með grænni orku og betri.