[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dagmál Andrés Magnússon andres@mbl.

Dagmál

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Með hliðsjón af því hve mikill tími fór í viðræður um endurnýjað stjórnarsamstarf er með ólíkindum hvað ríkisstjórnarflokkarnir koma óundirbúnir til þings, segja þingflokksformenn tveggja stjórnarandstöðuflokka í viðtali við Dagmál í dag. Það kemur berlegast í ljós varðandi uppskiptingu ráðuneyta, þar sem fjölmörg ráðuneyti eru í lausu lofti og enginn virðist hafa hugmynd um hvar tiltekin málefni eigi heima. Hið sama er upp á teningnum þegar litið er á fjárlagafrumvarpið, það sé lítið meira en drög að fjárlögum, sem eigi eftir að laga heilmikið til.

Þetta er samdóma álit þeirra Hönnu Katrínar Friðriksson, þingflokksformanns Viðreisnar, og Helgu Völu Helgadóttur, þingflokksformanns Samfylkingarinnar. Þær stöllur eru viðmælendur dagsins í Dagmálum, streymi Morgunblaðsins á netinu, sem er opið öllum áskrifendum.

„Ráðherrarnir vita ekki hvað þeir heita eða ráðuneytin heita. Vita ekki fyrir hvaða málaflokka þeir eru að starfa, hvað þá starfsfólkið,“ segir Helga Vala um hið nýja ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur.

Illa undirbúin ríkisstjórn

Í þættinum er farið vítt yfir sviðið, rætt um stjórnarmyndunina, málefnasáttmála stjórnarinnar, skiptingu ráðuneyta, val á ráðherrum og starfið fram undan.

„Það kemur mér sérstaklega á óvart hvað þau eru ofsalega illa undirbúin. Maður hefði haldið að það væri meiri gleði og lukka yfir þessu og einhver framtíðarsýn,“ segir Helga Vala. „Þetta er allt einhvern veginn ótrúlega kauðskt.“

Hún benti til dæmis á að ekki lægi neitt fyrir um kostnaðinn vegna breytingar á ráðuneytum. „Ég kallaði forsætisráðherra inn í þingið á föstudagskvöldið, þegar við vorum að ræða fjárlögin. Hún hefur ekki hugmynd um það. Hún hefur ekki hugmynd um hvað þetta kemur til með að kosta.“

Hanna Katrín tekur undir það en segir annað mikilvægara. „Stóra málið er sýnin á það hverju þetta eigi að skila okkur, öðru en því að ráðherrarnir virðast hafa fengið að plokka til sín hin og þessi áhugamál sín og setja undir sitt ráðuneyti.“

Boða harðari stjórnarandstöðu

Þingflokksformennirnir fallast á að stjórnarandstaðan hafi um margt verið ósamstæð á liðnu kjörtímabili, en telja að hún muni reynast einarðari og beinskeyttari á þessu.

„Við finnum það bara strax á fyrstu dögunum, að þessi hópur er miklu þéttari en hann var,“ segir Helga Vala. „Pólitískt erum við auðvitað ósammála í mörgum málum, en það er miklu betra talsamband.“

Hanna Katrín gengur ekki skemmra. „Ég tek algerlega undir þetta. Ef til vill má segja að mánuðirnir tveir – Norðvesturkjördæmismánuðirnir tveir – ég er ekki frá því að þeir hafi verið betur nýttir af stjórnarandstöðunni en stjórninni,“ segir Hanna Katrín.

„Við höfum náð að stilla saman strengi núna. Það þýðir ekki að við séum öll sammála, en það þýðir að við áttum okkur á því hvernig við ætlum að vinna með þá staðreynd. Ég hugsa að stjórnarandstöðusáttmálinn sé bitastæðari en stjórnarsáttmálinn.“

Undir það tekur Helga Vala, sem telur að kjörtímabilið fram undan verði styttra en lög gera ráð fyrir.