Stjarnan Ragnar Kjartansson í Moskvu.
Stjarnan Ragnar Kjartansson í Moskvu. — Skjáskot/RÚV
Um liðna helgi voru opnuð í nýrri og flennistórri samtímalistamiðstöð við Kreml í Moskvu tvö stór og afar metnaðarfull sýningarverkefni Ragnars Kjartanssonar.

Um liðna helgi voru opnuð í nýrri og flennistórri samtímalistamiðstöð við Kreml í Moskvu tvö stór og afar metnaðarfull sýningarverkefni Ragnars Kjartanssonar. Þó að sýningarnar séu langt í burtu er óhætt að kalla þetta meiriháttar viðburð í íslensku menningarlífi. Annars vegar er þar viðamesti úthaldsgjörningur Ragnars til þessa, þar sem endurgerðir eru 98 þættir Santa Barbara-sápuraðarinnar, og svo völdu þau Ragnar og Ingibjörg Sigurjónsdóttir saman verk á sýninguna Til Moskvu! Til Moskvu! Til Moskvu! Á henni eru, auk úrvals verka Ragnars, valin myndverk eftir listamenn sem hafa haft á hann áhrif, þar á meðal fjölda íslenskra samtímalistamanna sem komu að uppsetningunni.

Vitaskuld ber íslenskum fjölmiðlum að fylgjast vel með slíkum viðburðum og færa notendum miðlanna af þeim ítarlegar og upplýsandi fréttir. Og við það hefur Ríkisútvarpið staðið sig vel. Guðni Tómasson var á staðnum og fylgdist bæði með undirbúningi og opnun sýninganna. Hann var með sérstakan Lestarþátt á föstudaginn var, með viðtölum við Ragnar og fleiri þátttakendur, og hefur einnig verið með innslög í sjónvarpinu. Fyrir það ber að þakka og hrósa vönduðum vinnubrögðum og fyrirtaks umfjöllun.

Einar Falur Ingólfsson