Hvalfjörður Af og til verða slys og óhöpp í göngunum og því er mikilvægt að menn séu í viðbragðsstöðu til að fjarlægja bíla og greiða fyrir umferð.
Hvalfjörður Af og til verða slys og óhöpp í göngunum og því er mikilvægt að menn séu í viðbragðsstöðu til að fjarlægja bíla og greiða fyrir umferð.
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Tvö tilboð bárust í verkið „Hvalfjarðargöng, bílabjörgun 2022-2024“. Tilboð voru opnuð nýlega hjá Vegagerðinni, sem rekur göngin fyrir hönd ríkisins. Gísli Stefán Jónsson ehf.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Tvö tilboð bárust í verkið „Hvalfjarðargöng, bílabjörgun 2022-2024“. Tilboð voru opnuð nýlega hjá Vegagerðinni, sem rekur göngin fyrir hönd ríkisins.

Gísli Stefán Jónsson ehf., Akranesi, bauðst til að vinna verkið fyrir krónur 79.980.000. Er það nokkru hærri upphæð en áætlaður verktakakostnaður, sem var 70 milljónir. Vaka hf., Reykjavík, bauð krónur 187.673.000. Verið er að yfirfara tilboðin hjá Vegagerðinni.

Fram kemur í útboðsgögnum að um sé að ræða að fjarlægja bifreiðir, ferðavagna og önnur ökutæki sem hamla umferð og umferðaröryggi í eða við göngin, t.d. vegna bilana, óhappa eða slysa. Einnig að fjarlægja og flytja aðskotahluti á vegi. Bjóðendur þurfa að ráða yfir ökutækjum til að flytja bíla, dráttarbifreið og kranabifreið.

„Því miður höfum við ekki aðgengilegar tölur um fjölda bíla sem hefur verið „bjargað“, það er einfaldlega ekki aðgengilegt í kerfinu okkar,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar. „Stærstur hluti kostnaður felst í því að vera til staðar, vera í viðbragðsstöðu, þess vegna erum við minna að horfa til þess hvað þetta eru margir bílar, við viljum fyrst og fremst koma þeim út úr göngunum á sem skemmstum tíma,“ bætir hann við.

Frá því Hvalfjarðargöngin voru tekin í notkun árið 1998 voru þau vöktuð af starfsmönnum Spalar í gjaldskýlinu norðan fjarðarins. Þegar Spölur afhenti ríkinu göngin til eignar og gjaldtöku var hætt í september 2018 var vöktunin færð yfir til vaktstöðvar Vegagerðarinnar, sem fylgist með umferðinni allan sólarhringinn. Vaktstöðin hefur sömu tæki til vöktunar og gjaldskýlið hafði og getur verið í beinu sambandi við vettvang í gegnum TETRA-fjarskiptakerfið. Um leið og vitað er um óhapp í göngunum eru menn kallaðir til.

GJ-lyftur Akranesi annast það hlutverk núna. Þetta er sama fyrirtæki og annar bjóðandinn, Gísli Stefán Jónsson ehf.