Hér eru þrjár hringhendur sem tónlistarmaðurinn Reynir Jónasson sendi Vísnahorni. Faðir Reynis, Jónas Friðriksson (1896-1983) á Helgastöðum í Reykjadal, setti þær saman, liggjandi á sjúkrahúsi: Ég er orðinn alveg frá, allur úr skorðum genginn.

Hér eru þrjár hringhendur sem tónlistarmaðurinn Reynir Jónasson sendi Vísnahorni. Faðir Reynis, Jónas Friðriksson (1896-1983) á Helgastöðum í Reykjadal, setti þær saman, liggjandi á sjúkrahúsi:

Ég er orðinn alveg frá,

allur úr skorðum genginn.

Gefur borðin bæði á,

broti forðar enginn.

Nú er fátt sem gleður geð,

góðs er máttur fjarri.

Hvíli ég lágt á kvalabeð,

kominn háttum nærri.

Fjörið þrýtur, þrekið dvín,

þreyttur hnýt að beði.

Enginn lítur inn til mín,

engrar nýt ég gleði.

Ingólfur Ómar skaut að mér þessari stöku „þar sem nú er komið talsvert frost. Annars eru veður breytileg eftir dögum á þessum árstíma“:

Þó nú sé úti frost og fönn

er fjör á bragaslóðum.

Ekki vefst mér tunga um tönn

og tala því í ljóðum.

Davíð Hjálmar Haraldsson yrkir:

Í vinnu ég var

en veit nokkur hvar

ég mæti á morgun?

Ég spenntur hef spurt:

Mín spor liggja – hvurt?

Má búast við borgun?

Pétur Stefánsson orti þessar tvær vetrarvísur:

Kyljur harðar kjúkur bíta,

krókna döpur gróðurstrá.

Klæðir foldu fönnin hvíta,

flæða ský um loftin blá.

Smýgur frost um gil og gjár,

grund er köld og hrakin.

Skýin hvít og himinn blár,

heimur fönnum þakinn.

Friðrik Steingrímsson orti eftir atkvæðagreiðslu á þingi á föstudag:

Ég vil stýra stjórnarmynstri

stimpast við það lengi enn,

helst að kæra hægri, vinstri

og hýrudraga nefndarmenn.

Á Boðnarmiði yrkir Atli Harðarson við mynd af stækkunargleri:

Í náköldu netþjónabúi

nem' allt sem talað er hér

vélar og víst mun sá grúi

vista hvert lífsmark hjá mér.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is