[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Örn Marinósson fæddist 8. desember 1946 á Reynimel 37 í Reykjavík og ólst þar upp fyrstu tvo áratugi ævinnar.

Jón Örn Marinósson fæddist 8. desember 1946 á Reynimel 37 í Reykjavík og ólst þar upp fyrstu tvo áratugi ævinnar. „Ég telst því óumdeilanlega innfæddur Reykvíkingur en er svo að auki eins sunnlenskur og eitthvað sunnlenskt getur orðið; slóðir forfeðra minna eru í Ölfusi, á Eyrarbakka, í Flóa, á Rangárvöllum og Landi og í Meðallandi. Til að bæta mér upp þessa sunnlensku einhæfni var ég sendur í sveit til Skagafjarðar þegar ég var 11 ára. Þar tók ég út þroska í sjö sumur í Holtsmúla í Staðarhreppi og naut þeirrar forfrömunar undir lokin að vera nefndur „Jón í Holtsmúla“ þegar skipt var niður verkum í göngum.“

Jón Örn sótti sér grunnmenntun í Melaskóla og Hagaskóla og lærði meðfram því á píanó. Eftir þáverandi landspróf fór hann í Menntaskólann í Reykjavík. „Ég átti þar fjögur ógleymanleg ár en eftir stúdentspróf taldi ég rétt að taka mér hvíld frá námsbókum. Þar sem ég hafði kynnst nær eingöngu sjálfstæðismönnum á æskuheimili mínu og í Skagafirði þótti mér fýsilegt að fá svolitla nasasjón af framsóknarmönnum og réðst því til starfa sem „skríbent“ í eitt ár hjá Sunnudagsblaði Tímans undir handleiðslu Jóns Helgasonar ritstjóra. Þetta var lærdómsríkt ár sem færði mér heim sanninn um að framsóknarmenn voru nær allir mætir menn og eru það flestir eflaust enn. Ég réð þó af að verða ekki framsóknarmaður enda óvíst að ég hefði þá kosti til sveigjanleika sem prýða framsóknarmenn.“

Að loknu starfsnámi hjá Jóni Helgasyni á Tímanum tók Jón Örn eitt ár í íslensku og sögu í Háskóla Íslands. „Mér þótti kennslan hjá flestum fremur daufleg og réð því af eftir nokkra umhugsun að leggja stund á lögfræði. Mér sóttist námið sisona þokkalega og náði lögfræðiprófi í júní árið 1974. Ég náði bestu einkunn í þjóðarrétti en sú kunnátta hefur aldrei komið mér að nokkrum notum.“ Þá um haustið 1974 réðst Jón Örn til starfa hjá Ríkisútvarpinu, „gömlu Gufunni“ við Skúlagötu 4. Þar var hann fyrst fréttamaður á fréttastofu Útvarps í sex ár, síðan varadagskrárstjóri í eitt ár og loks tónlistarstjóri í átta ár. „Ég held ég megi fullyrða að á skemmtilegri og þroskavænlegri vinnustað hef ég ekki unnið, hvorki fyrr né síðar. Þar kynntist ég fjölmörgum ógleymanlegum samstarfsmönnum og varðveiti dýrmætar minningar frá Skúlagötu og Efstaleiti.“

Jón Örn hóf síðan störf hjá Íslensku auglýsingastofunni og vann þar við hugmyndasmíði, textagerð og bæklingaskrif. „Það gjörðist þannig að sumarið 1989 hafði góður maður samband við mig og bauð mér þetta starf. Eftir 15 ár hjá ríkisútvarpinu þótti mér freistandi tilbreyting að reyna fyrir mér á alls óskyldum vettvangi og á eilítið betri launum en voru í boði hjá ríkinu. Þarna vann ég með góðu fólki og fékk nasasjón af hvernig hlutirnir ganga fyrir sig í viðskiptalífinu á Íslandi. Ég var starfsmaður á „Íslensku“ allt þar til „hrunið“ illræmda varð til þess að ég mátti sjá fyrir mér eftir það með því sem skattyfirvöld nefna „sjálfstæða atvinnustarfsemi“ en við einyrkjar köllum gjarnan „hark“.

Meðfram þeim störfum, sem talin voru hér á undan, fékkst ég við að skrifa eitt og annað fyrir útvarp, gamansama og „íróníska“ pistla um málefni líðandi stundar, Flóamannarollu og sitthvað fleira sem markaði engin tímamót í íslenskri bókmenntasögu en skemmti sjálfum mér ágætlega. Auk þess tók ég saman fjöldann allan af þáttum um sígilda tónlist á mínum útvarpsárum.

Nú – úr því að maður er orðinn hálfáttræður hef ég haft fremur hægt um mig á opinberum vettvangi enda full vinna að eldast hægt og hægt, reyna að botna í greiðslukerfi Tryggingastofnunar, nöldra í sífellu út í stjórnvöld fyrir framkomu þeirra gagnvart eldri borgurum og safna fyrir sisona eins og einum „implant“.

Ég hef aldrei verið ofstækisfullur „nörd“ þegar kemur að áhugamálum en nálgast þó eiginlega áráttu hvað mér þykir nauðsynlegt að fylgjast með veðurfregnum og fréttum (arfleifð frá dvölinni í Skagafirði og á fréttastofunni). En vissulega get ég nefnt með góðri samvisku að sígild tónlist, bókmenntir, saga og stjórnmál eru áhugamál sem stytta mér stundir og gefa lífi mínu nokkurt gildi. En framar öllu hef ég notið þess og er þakklátur fyrir að hafa notið samvista við einstaka og yndislega eiginkonu í nærri hálfa öld, þrjú börn mín og sex barnabörn.“

Fjölskylda

Eiginkona Jóns Arnar er Sigríður D. Sæmundsdóttir, f. 15.11. 1947, á eftirlaunum. Þau bjuggu fyrst í níu ár í Sörlaskjóli í Reykjavík, síðan í 21 ár á Seltjarnarnesi, í 13 ár í Kópavogi og síðan i janúar 2016 hafa þau búið á Víðimel 70 í Vesturbæ Reykjavíkur. Foreldrar Sigríðar voru hjónin Sæmundur Kristjánsson, f. 2.9. 1909, d. 5.11. 1982, vélstjóri, og Benedikta Þorsteinsdóttir, f. 20.5. 1920, d. 6.5. 2011, húsmóðir. Þau bjuggu í Reykjavík.

Börn Jóns Arnar og Sigríðar eru: 1) Melkorka, f. 14.1. 1972, forstöðumaður skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings, búsett í Reykjavík. Sambýlismaður: Kjartan Long, f. 12.7. 1972. Barn: Elísa Guðrún Agnarsdóttir, f. 3.2. 1994; 2) Brynjólfur Borgar, f. 1.11. 1974, stofnandi og forstjóri DataLab Ísland, búsettur í Reykjavík. Maki: María Reynisdóttir, f. 1.7. 1976, sérfræðingur á skrifstofu ferðamála í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Börn: Sveinn Marinó, f. 2.7. 2007; Vigdís, f. 26.7. 2010; 3) Ragnhildur, f. 20.11. 1981, teymisstjóri hjá Sambýlinu við Hólmasund í Reykjavík, búsett í Reykjavík. Sambýlismaður: Lukasz Bogdan Stencel, f. 22.2. 1981. Börn: Embla Gabríela, f. 9.12. 2008, Týr, f. 28.8. 2012, Askur, f. 27.11. 2019.

Systkini Jóns Arnar: Lovísa Margrét Marinósdóttir, f. 4.9. 1937, og Sigrún Ólöf Marinósdóttir, f. 6.2. 1941, d. 15.2. 2021.

Foreldrar Jóns Arnar voru hjónin Marinó Ólafsson, f. 16.6. 1912, d. 26.5. 1985, verslunarmaður, og Guðrún Jónsdóttir, f. 27.10. 1913, d. 2.1. 1997, húsfreyja. Þau bjuggu í Reykjavík.