Jónas Elíasson
Jónas Elíasson
Eftir Jónas Elíasson: "Létta borgarlínan gerir sama gagn og sú þunga, útilokar hana ekki, kostar aðeins brot af henni og veitir sömu grunnþjónustu við meira álag en nú er."

Létta borgarlínan er kerfi fyrir almenningssamgöngur með sama þjónustustigi og hin upphaflega þunga borgarlína, en kostar aðeins brot af henni. Munurinn er að sérstakar akreinar fyrir vagnana eru hægra megin en ekki í miðri götu. Í þessu liggur gríðarlegar sparnaður (um 1,2 ma.kr./km) án þess að neinu sé fórnað, en skipulagslegur ávinningur er mikill.

Létta línan gefur möguleika á að byggja kerfið upp í áföngum og útilokar ekki að miðjubrautirnar séu gerðar seinna, ef þörf verður fyrir þær og möguleiki finnst á að koma þeim fyrir. Því má líta á léttu borgarlínuna sem fyrsta áfanga af þeirri þungu. Að óbreyttum farþegafjölda verður ekki þörf fyrir miklar brautarlagnir strax; aðrar aðgerðir, sérstaklega þær sem varða nýtingu á nýrri tækni, og loftslagsmálin eru meira aðkallandi.

Þá gerir létta línan ráð fyrir vissum hagræðingum í leiðarkerfinu svo heildarkerfi 45 manna þjónustuvagna styttist úr 60 km í 40. Í staðinn verður komið á pantþjónustu (on demand service).

Núverandi staða er sú að þrátt fyrir 50 ma.kr. á samgönguáætlun og 23 ma.kr. á loftslagsáætlun er þunga borgarlínan vanfjármögnuð. Létta borgarlínan kostar eitthvað undir 20 ma.kr. svo innan núverandi fjárhagsramma er gott svigrúm fyrir nýja hreinorkuvagna fyrir Strætó bs. og verulegar endurbætur á biðskýlum og afgreiðslukerfi.

Umræðan um umhverfis- og loftslagsáhrif borgarlínu var upphaflega áætluð út frá því að hún fengi 12% hlutdeild í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu í stað 4% eins og nú er. Þarna er einhver rökvilla á ferðinni, engin sýnileg ástæða er fyrir því að farþegum strætó fjölgi þrefalt frá því sem nú er í einu vetfangi með tilkomu borgarlínu. En hvað léttu línuna varðar skiptir þetta ekki öllu máli, hana má stækka í hlutfalli við þörf. Það sem máli skiptir er að gert er ráð fyrir að ferðafjöldi í léttu línunni geti orðið sá sami og gert er ráð fyrir í áætlunum fyrir þungu borgarlínuna.

Tími milli ferða styttist í 10 mínútur á álagstíma á aðalleiðum. Til viðbótar aukinni ferðatíðni verður ferðahraði aukinn lítillega svo samkeppnisstaða strætó gagnvart einkabílnum batnar verulega. Farþegafjöldi mun eitthvað aukast við þetta, þótt 12% hlutur almenningssamgangna sé enn fjarlægt markmið. Bílaeign er það mikil á Íslandi að slíkt markmið næst væntanlega ekki nema með þvingunum eins og ráðgjafar Reykjavíkur, Cowi Consult í Danmörku, hafa þegar bent á.

Áhrif þungu og léttu borgarlínunnar á umhverfis- og loftslagsmál eru algerlega hliðstæð, þó með þeirri breytingu að með léttu línunni ætti að skapast fjárhagslegt svigrúm til að hreinorkuvæða vagnaflotann. Sú hreinorkuvæðing er að vísu ekki háð því að eitthvað verði af borgarlínuáformum yfirleitt. Orkuskiptin eru óháð borgarlínu í raun.

ÁS (samgongurfyriralla.com) mun birta áætlun fyrir létta borgarlínu á málstofu sem haldin verður í HÍ, stofu 101 í Lögbergi, 9. desember kl. 13.00-16.30. Þar verður áætlunin skýrð og nánar fjallað um skyld skipulags- og umhverfismál.

Höfundur er prófessor. jonaseliassonhi@gmail.com