Ákvörðun Guðmundur Ingi Guðbrandsson, þá umhverfisráðherra, samþykkti tillögu um að friðlýsa Dranga á síðasta virka vinnudegi sínum.
Ákvörðun Guðmundur Ingi Guðbrandsson, þá umhverfisráðherra, samþykkti tillögu um að friðlýsa Dranga á síðasta virka vinnudegi sínum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur S. Blöndal baldurb@mbl.is Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, segir mikilvægt að móta stefnu í friðlýsingum en þá þurfi umræðan að vera upplýst og menn að tala út frá staðreyndum.

Baldur S. Blöndal

baldurb@mbl.is

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, segir mikilvægt að móta stefnu í friðlýsingum en þá þurfi umræðan að vera upplýst og menn að tala út frá staðreyndum.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, fyrrverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, friðlýsti landsvæðið Dranga á Ströndum föstudaginn 26. nóvember að tillögu Umhverfisstofnunar, tveimur dögum áður en ný ríkisstjórn var kynnt á Kjarvalsstöðum.

Umhverfisstofnun vísaði tillögu um friðlýsingu jarðarinnar til ráðuneytisins sama dag og hún var undirrituð.

Langur aðdragandi

Guðlaugur Þór segir í samtali við Morgunblaðið að þessi ákvörðun hafi átt sér langan aðdraganda en fagnar umræðunni og áhuganum á málaflokknum.

„Það liggur fyrir að málið sem þarna var um að ræða er eitthvað sem var í ferli í langan tíma þó svo að endanleg ákvörðun hafi verið tekin þarna á lokametrunum,“ segir Guðlaugur sem kveðst þó ekki hafa haft tíma til að ræða málið sérstaklega við Guðmund Inga.

Bergþór Ólason vakti athygli á málinu í óundirbúnum fyrirspurnum á þinginu í gær þar sem hann kallaði eftir því að Guðlaugur myndi vinda ofan af málinu eða leysa það með einhverjum hætti. Guðlaugur segir enga ástæðu til þess að vera með slíkar yfirlýsingar nú, hvorki til né frá.

„Það er auðvitað í stjórnarsáttmálanum að skoða þessi friðlýstu svæði alveg sérstaklega. Við munum skoða málið ásamt því að kalla eftir upplýsingum um það. Að sjálfsögðu verðum við við því. Eftir því sem ég skil málið er ekki hægt að ganga frá friðlýsingarferli á einhverjum dagparti. Þetta er langur aðdragandi og margir sem koma þar að en ég mun skoða þetta betur eins og önnur mál. Nú hefur bæði verið kallað eftir upplýsingum um þetta mál, sem sjálfsagt er að bregðast við, og svo líka um friðlýst svæði yfirhöfuð.“

Virkjanakostir í spilinu

Þingmenn höfðu orð á því að friðlýsing svæðisins gæti haft veruleg áhrif á virkjunarkosti á svæðinu til framtíðar og vísa þar til Hvalárvirkjunar. Guðlaugur gerir ráð fyrir því að sá hluti málsins verði skoðaður gaumgæfilega í upplýsingaöfluninni.

„Við þurfum að ræða þessi mál. Ekki bara á þinginu heldur líka á meðal þjóðarinnar,“ segir Guðlaugur Þór sem fagnar áhuganum og umræðunni um málaflokkinn.

„Ég tel það bara vera mjög gott. Þó ég eigi mér ekki þann draum að fólk verði einhvern tímann sammála um alla hluti, og hvað þá stóru málin, þá tel ég að samtalið muni aldrei skaða. Það getur bara bætt hlutina,“ segir Guðlaugur Þór.

Gagnrýni úr fleiri áttum

Fjöldi þingmanna úr stjórnarandstöðunni gagnrýndi vinnubrögð Guðmundar Inga, þar á meðal Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. „Alveg burtséð frá því hvað manni finnst um þessa friðlýsingu þá verð ég að taka undir að þetta eru alveg ótrúlega undarleg vinnubrögð.“

Flokkssystir Loga, Helga Vala Helgadóttir, tók í sama streng og formaðurinn og gagnrýndi ráðherrahópinn allan: „Það verður að vera eitthvert aðhald með ráðherrum, framkvæmdarvaldinu, þegar ráðherrar taka þá ákvörðun einir síns liðs að hafa ekkert þing hér að störfum í fjölda mánaða til að geta eftir eigin hentugleika dreift fjármunum almennings,“ sagði Helga Vala en Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, svaraði því til að Alþingi færi með fjárveitingarvaldið.