Sigurður Oddsson
Sigurður Oddsson
Eftir Sigurð Oddsson: "Nýjasta framlag borgarstjórans eru blokkir á Miklubraut og Bústaðavegi. Flestum finnst það svo fáránlegt að ekkert sé að óttast, en er það svo?"

Fyrsta íbúð okkar var í blokk í Breiðholti. Þá var hægt að sækja um lóð hjá borginni, sem því miður annaði ekki eftirspurn. Seinna keypti ég illa fokhelt hús í sama hverfi og vann mikið í því sjálfur, eins og þá var algengt, en nú er búið að loka fyrir það að mestu.

Með komu Davíðs voru heilu íbúðahverfin skipulögð og við tók tímabil með nógu af lóðum fyrir alla við malbikaðar götur með öllum lögnum, gangstígum og götulýsingu.

Fljótlega eftir að Ingibjörg tók við skorti fjármagn til gatnagerðar. Hún sá ráð við því og rukkaði sérstaklega fyrir frárennslið. Sá skattur var fljótlega nefndur skítaskatturinn hennar Ingibjargar, en hann dugði skammt og bauð hún þá út lóðir og seldi hæstbjóðanda. Lóð fyrir einbýlishús gat farið hátt í 20 milljónir króna áður en fyrsta skóflustungan var tekin.

Ekki lagaðist framboð lóða með Degi, en hann gat verið fundvís á svæði þar sem allir innviðir voru fyrir hendi og hægt að bjóða út lóðir án mikils kostnaðar.

Verktakar buðu hátt verð, sem svo lagðist á íbúðaverðið. Nú er svo komið að yngra fólk ræður ekki við að kaupa sína fyrstu íbúð og flytur úr borginni. Við það fækkar þeim sem standa undir sameiginlegum kostnaði og fjöldi þeirra sem ekki standa undir neinni framleiðslu eykst.

Allt styður þetta við leigufélög, sem hækka leiguna um leið og ríkið hækkar húsnæðisbætur. Þannig hefur græðgin ungað út hverju leigufélaginu á eftir öðru. Sum hafa verið seld úr landi með veiðileyfi líkt og hrægammasjóðirnir sem hirtu íbúðir af fólki eftir hrunið. Seðlabankinn seldi íbúðir til leigufélaga.

Nú eru heilu íbúðablokkirnar á þéttingarsvæðum fyrirframseldar. Kæmi ekki á óvart að kaupendur væru leigufélög. Allt þrýstir þetta íbúðaverðinu upp. Sérstaklega þétting byggðar.

Þrátt fyrir allan hagnaðinn af sölu þessara lóða er borgin skuldsettari en nokkru sinni fyrr og getur ekki boðið lóðir nema á þéttingarsvæðum, sem fer fækkandi. Það kemur fram í því að leitað er logandi ljósi að lóðum í Smáíbúðahverfi og að blokkum í Háaleitishverfi sem hægt væri að byggja hæð ofan á.

Nýjasta framlag borgarstjórans til „Nýju Reykjavíkur“ eru blokkirnar við Miklubraut og Bústaðaveg, sem flestum finnst svo fáránlegt að það nái aldrei í gegn og ekkert sé að óttast. En er það svo?

Út um gluggann hefi ég fylgst með umferðinni kvölds og morgna. Ég spyr: Hvert getur umferðin farið þegar Bústaðavegurinn er orðinn íbúðagata með fjölgun íbúa og bíla?

Helsta röksemdin fyrir íbúðagötu er að á íbúafundi hafi íbúar bent á að hættulegt væri fyrir börn að fara yfir Bústaðaveginn. Það er alveg rétt, en alveg nýtt að borgaryfirvöld hlusti á íbúana. Ég spyr: Hvenær var þessi íbúafundur og af hverju er ekki löngu búið að byggja brýr yfir Bústaðaveg, t.d. við kirkjuna?

Þar fyrir utan eiga heildarhagsmunir að ráða og ótækt að nokkrir íbúar ráði því hvenær Breiðhyltingar, Kópavogsbúar o.fl. komast heim frá vinnu.

Höfundur er verkfræðingur og eldri borgari.