Rekstrarland hefur verið starfrækt síðan árið 2013.
Rekstrarland hefur verið starfrækt síðan árið 2013. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Rekstrarlandi verður lokað og verslunum Olís víða um land verður breytt í afgreiðslulagera og söluskrifstofur.

Rekstrarlandi, verslun Olís með rekstrarvörur í Vatnagörðum 10 í Reykjavík, verður lokað í núverandi mynd á vormánuðum. Ákvörðunin er hluti af viðameiri endurskipulagningaraðgerðum sem snúa að framtíðarskipulagi stórnotendasölu innan samstæðu Haga, en Olís er dótturfélag Haga. Eftir lokun Rekstrarlands mun ný eining innan Haga starfrækja sýningarsal og söluskrifstofu sem sinnir verkefnum Rekstrarlands. Frosti Ólafsson framkvæmdastjóri Olís staðfestir þetta í samtali við ViðskiptaMoggann.

Rekstrarland opnaði upphaflega í Skeifunni 11 árið 2013.

„Þessi endurskipulagning snýr að fyrirkomulagi stórnotendasölu innan Haga og þjónustuskipulagi útibúanets Olís til lengri tíma. Breytingin kemur annars vegar til með að fela í sér að á vormánuðum verða þrír vöruflokkar færðir úr Olís inn í nýja einingu innan Haga, þ.e. hreinlætis-, rekstrar- og heilbrigðisvörur,“ segir Frosti.

Hann segir að þetta hafi talsverð áhrif á starfsemi útibúa Olís um allt land. „Við erum að breyta þjónustuskipulagi okkar þannig að það standist tímans tönn. Við munum sinna sölustarfsemi á Selfossi og Þorlákshöfn í gegnum svæðisbundið sölufólk en flest útibúin munu breytast í afgreiðslulagera og söluskrifstofur. Við höfum rekið þetta módel með góðum árangri í útibúunum á Akureyri og á Reyðarfirði.“

Frosti segir að breytingin tengist m.a. krefjandi viðfangsefnum í starfsemi Olís sem snúi að minnkandi eldsneytismarkaði á komandi áratugum vegna orkuskipta í landinu.

„Þetta er að mörgu leyti sveigjanlegra kerfi og gefur okkur kost á að sækja viðskiptavininn heim í ríkari mæli og haga þjónustunni með hætti sem hentar hverju og einu svæði.“

15-20 missa vinnuna

Samhliða þessu verður umfang vefsölu í stórnotendasölu aukið. „Við teljum það gera okkur kleift að viðhalda sterku þjónustustigi og auka hagkvæmni í lagerhaldi og dreifingu.“

Aðspurður segir Frosti að vegna breytinganna muni 15 – 20 manns verða sagt upp störfum. „Einhverjir flytjast til í starfi og fara í hina nýju einingu Haga,“ segir Frosti.

Útibúin sem munu umbreytast úr hefðbundnum verslunarrekstri yfir í afgreiðslulager og söluskrifstofu eru m.a. staðsett á Akranesi, í Ólafsvík, Bolungarvík, Grindavík og Njarðvík, en auk þess verður fyrirkomulagi Þorlákshafnar og Selfoss breytt eins og áður var nefnt.

„Markmiðið með þessu er að einhverju marki að skerpa á fókus og standa vörð um nærþjónustu Olís út um allt land til lengri tíma.“