Guðmundur Guðbjörnsson fæddist á Landspítalanum 30. júlí 1964. Hann lést á heimili sínu í Hafnarfirði 28. nóvember 2021.

Foreldrar Guðmundar voru Kristín Jóna Guðmundsdóttir, f. 1943, d. 1995, og Guðbjörn Hallgrímsson, f. 1934, d. 2018. Systkini hans eru Hallgrímur Georg, f. 16.12. 1953, d. 9.12. 1975, Sigurlína Herdís, f. 18.10. 1965, maki Hjörtur Sigurðsson, Guðrún Fjóla, f. 27.3. 1972, d. 17.5. 2019, og Hallur Örn, f. 13.5. 1981.

Guðmundur giftist Margréti Benediktsdóttur 9. september 1989. Börn þeirra eru: 1) Kristín, f. 26.11. 1988, maki Haukur Már Karlsson, börn Elísabet Ýr, Alexandra Margrét og Tinna Gabríela. 2) Marta Rut, f. 27.3. 1990, maki Gísli Geir Guðmundsson, börn Natalía Kristín og Frosti Leó. 3) Benedikt Fannar, f. 7.3. 1996.

Guðmundur bjó fyrstu árin í Hafnarfirði og ólst upp mestan hluta æskuára sinna á Holtsgötu 9. Hann flutti til Helsingör í Danmörku átta ára gamall og bjó þar til 12 ára aldurs, flutti þá heim til Hafnarfjarðar þar sem hann bjó mestalla ævi.

Guðmundur var í grunnskóla í Öldutúnsskóla, eftir það hóf hann nám við Iðnskólann í Reykjavík þar sem hann lærði offsetprentun og lauk þar námi til sveinsprófs 1988.

Guðmundur vann við prentstörf hjá ýmsum prentsmiðjum, m.a. G. Ben., Prisma, Svansprenti og Prenttækni.

Útför Guðmundar fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 8. desember 2021, og hefst athöfnin klukkan 13.

Einnig er tengill á:

https.//www.mbl.is/andlat

Í dag kveð ég minn elskulega föður sem hefur verið minn helsti klettur í lífinu. Af honum lærði ég mikið og sem barn byrjaði ég að fylgjast með fótbolta með honum, þá sérstaklega Liverpool. Fast sitja í minninu allar ferðirnar upp í Videomarkað um helgar að skila inn getraunaseðlum og sitja svo spenntur yfir leikjum dagsins.

Í febrúar 2019 náði ég að láta drauminn hans rætast að fara á leik á Anfield Road. Um haustið 2018 hafði ég unnið ferð á Anfield og hóaði ég saman litlum hópi til að taka með mér. Þegar við vorum komnir á Loksins barinn var stemningin í hópnum orðin ansi góð, reyndar það góð að við misstum næstum af vélinni út. Þegar við vorum að labba að hliðinu splittaðist hópurinn upp þar sem helmingurinn fór á klósettið en hinn helmingurinn hélt áfram út í vél. Þegar ég sé hliðið þá er stelpa þar að loka hliðinu, ég tek sprettinn til hennar á meðan hinir hringja í pabba og segja þeim að hlaupa á meðan ég tef stelpuna. Ég man þetta svo rosalega vel þar sem þetta lýsir svo stemningunni þar sem pabbi var pottþéttasti maður sem hægt var að finna með tímasetningar. Daginn eftir byrjuðum við á því að skoða völlinn, ég man ennþá eftir brosinu á pabba, loksins var hann mættur á Anfield. Seinna um daginn var komið að leiknum, Liverpool vs Bournmouth. Fyrir leik fórum við á Park þar sem heitustu stuðningsmenn Liverpool hita upp áður en við skelltum okkur á pöbb á Anfield. Þegar við komum í stúkuna hafði ég aldrei séð pabba jafn glaðan og ekki skemmdi fyrir að hann hitti Phil Neal, fyrrverandi leikmann liðsins. 3-0 sigur varð niðurstaðan og sé ég pabba ennþá fyrir mér hoppandi í stúkunni sveiflandi Liverpool-treflinum.

Pabbi ólst upp að hluta í Helsingör í Danmörku og bjó afi þar í tugi ára. Ég mun aldrei gleyma þessum ótal ferðum sem við fjölskyldan fórum að heimsækja afa til Helsingör. Alltaf fórum við í tívolíið á Bakken þar sem við eyddum jafnvel heilum degi saman. Oftast var einnig farið á ströndina þar sem veðrið virtist elta pabba hvert sem hann fór. Besti staðurinn í Helsingör var samt torgið þar sem við sátum alltaf saman, þar sem allir svöluðu þorstanum og spjölluðu.

Við eigum svo margar góðar minningar saman og gæti ég ekki verið þakklátari fyrir allar þessar góðu stundir sem við áttum saman. Ég veit að pabbi er kominn á betri stað í dag umvafinn fólkinu sínu og laus við veikindin sem hann barðist svo hetjulega við.

Hvíldu í friði, elsku pabbi.

Benedikt Fannar

Guðmundsson.

Elsku pabbi, það er ólýsanlega sárt að þurfa að kveðja þig svona snemma. Við erum samt glaðar í hjartanu að vita að þú ert ekki kvalinn lengur, síðasta árið er búið að vera svakalega erfitt fyrir þig og er skrýtið að skoða myndir af þér fullfrískum og kátum og finnast svo langt síðan maður sá þig. Þú varst ekki sjúklingurinn, það var ekki pabbinn síkáti sem elskaði að spila og leika við barnabörnin, gefa þeim afasúkkulaði og ís, fara með þau út á róló og gefa öndunum brauð, brasa með Frosta afastráknum sínum og taka hann á rúntinn í „sportbílnum“ eins og Frosti segir.

Takk fyrir allt, elsku pabbi, takk fyrir að leiðbeina okkur í gegnum lífið án þess að taka stjórnina. Takk fyrir að vinna myrkranna á milli þegar við vorum litlar til þess að við gætum haft það gott. Takk fyrir að kenna okkur mannganginn, kenna okkur að spila manna, kana, rommí, skítakall og öll hin spilin. Takk fyrir að leyfa okkur litlu stelpunum þínum að koma með þér í Svansprent þegar þú vannst kvöldvinnu meðan við rúlluðum okkur um gólfin á trillum og vissum svo alltaf að við gætum platað þig upp í sjoppuna til að fá „bara smá“ nammi, pabbi sagði alltaf já. Takk fyrir að kenna okkur að hjóla og passa upp á hjólin okkar, því jú – það var algjör vitleysa að þínu mati að geyma hjólin úti, öll hjól inn á kvöldin. Svona varstu pottþéttur, stundum of pottþéttur að okkar mati á þeim tíma þegar við vildum horfa á 70 mínútur fram á kvöld en slökkva þurfti á tenginu sem var fyrir öll sjónvörpin kl. 23, ekkert vesen. Takk fyrir að gera jólin alltaf ógleymanleg, skemmtilegast var að fara að keyra út pakka með pabba á aðfangadag.

Við minnumst pabba sem alltaf var hægt að hringja í ef eitthvað var að, hversu lítið eða stórt það var þá varstu alltaf til staðar og ef þú ætlaðir að koma að sækja okkur kl. 12 þá varstu mættur 3 mínútur í, aldrei seinn og skildir lítið í okkur dætrum þínum að vera alltaf á síðustu stundu, skilja bílinn eftir í gangi, gleyma bíllyklunum í svissinum eða geyma töskurnar úti í bíl. Þá fórstu út, drapst á bílnum, læstir honum og tókst töskuna inn, alltaf allt upp á 10.

Pabbi sem gaman var að koma í heimsókn til, sérstaklega þegar tilefni var. Veislu- og stemningsmaður mikill og eigum við endalaust af minningum af góðum gleðistundum á Bröttukinn. Þeir voru ófáir fótboltaleikirnir sem við horfðum á og skáluðum yfir og var hvergi skemmtilegra að horfa á landsleiki en með pabba heima á Bröttukinn, þú tókst það alltaf alla leið með landsliðstrefla, hatta og húfur fyrir allt liðið.

Elsku pabbi, við kveðjum þig með söknuði og trúum því heitt að þú sért á hlýjum og góðum stað í faðmi allra þeirra sem við söknum svo sárt.

Þangað til næst, elsku pabbi.

Stelpurnar þínar,

Kristín og Marta.

Elsku brósi minn það er sárt að kveðja þig í blóma lífsins. Fannst nú að það væru nú komnir nógu margir þarna hinum megin frá okkur í bili. Elsku brósi minn, ég á þér svo margt að þakka, að hafa lagt í það þegar móðir okkar kvaddi okkur að taka við mér á mínum allra verstu tímum.

Sem krakki minnist maður helst þegar við lékum okkur saman í fótbolta eða handbolta inni í stofu, mömmu til mikillar hamingju eða þannig. En við máttum eiga það að vorum nokkuð lunknir í að líma skrautið hennar mömmu saman svo hún tæki ekki eftir. Ekki má nú gleyma hvað þú hafðir gaman af að vinna bróður þinn í ýmsu, sérstaklega vegna þess hvað ég var tapsár og man ég þá helst eftir mínígolfinu uppi í bústað þar sem kylfur og ýmislegt fékk að fjúka þér til mikillar skemmtunar. Svo má ekki gleyma ísrúntunum sem þú tókst okkur vinina í.

Svo á eldri árum hvað við gátum talað mikið saman í síma næstum á hverjum degi og þá yfirleitt um fótbolta og fjölskylduna okkar.

Svo má ekki gleyma öllum skrautlegu ferðunum okkar til pabba í Helsingör. En ég er svo glaður að okkur tókst að fara saman á Anfield Road að sjá Liverpool gegn Burnley í febrúar 2019, sú ferð stendur upp úr eftir alla Liverpool-leikina sem við vorum búnir að sjá í sjónvarpinu og náðist þessi ferð á síðustu stundu fyrir Covid og veikindi þín elsku bróðir minn.

Það var gott samtal okkar undir restina að þrátt fyrir endalaus skakkaföll í þessari fjölskyldu okkar myndum við aldrei vilja skipta. Ég gæti ekki verið heppnari með fjölskyldu hvort sem það eru systkini, frænkur, frændur, mágkona eða fyrrverandi mágur. Maður verður að minnast alls þess sem við gengum saman í gegnum og ekki hefði ég komist svona langt í lífinu ef það hefði ekki verið fyrir þína hjálp, elsku bróðir minn.

En ég veit að það hafa verið góðar móttökur þegar þú kvaddir þennan heim og fékkst loksins að hitta hana móður okkar sem þú hefur saknað svo lengi. Við sjáumst síðar elsku bróðir, en vonandi ekki alveg í bráð.

Þinn bróðir,

Hallur Örn Kristínarson.

Á móti báran mjög er stíf

margt úr skorðum hrekur.

En Guð á himnum gefur líf,

en gjarnan einnig tekur.

Þungt er í lofti, það er vetur

þó við munum áfram þreyja.

Ugg og kvíða að okkur setur,

æ, af hverju þurft'ann Gummi að deyja.

Já þung er báran það ég veit

þetta líf er ekkert grín.

En athvarf áttu uppi í sveit,

elsku hjartans stelpan mín.

Það er nú okkar eina von,

að ei muni sorgin buga.

Því kveðjum við traustan tengdason,

með trega, en þökk í huga.

(Ben. Ben.)

Elsku Margrét, börn, tengdasynir og barnabörn, mikill er ykkar missir. Allt frá fyrstu ferð með Norðurleið í Vatnsskarð að heimsækja heimasætuna hefur Gummi átt sitt sæti innan fjölskyldunnar, traustur og hjálpsamur.

Við vottum ykkur okkar dýpstu samúð.

Marta og Benedikt (Benni) á Vatnsskarði.

Líf vort er tónn; á hörpu ljóss og húms

það hljómar skammt,

grætur og hlær við hliðskjálf tíma og rúms,

en hljómar samt;

síðan einn dag, þann dag veit engin spá

er dauðaþögn og tónninn liðinn hjá.

(Jóhannes úr Kötlum)

Elsku Margrét og fjölskylda, innilegar samúðarkveðjur.

Kristín Hjartardóttir og Egill Eðvarðsson.

Það var haustið 2020 sem við fengum þær skelfilegu fréttir frá Margréti systur að Gummi hennar hefði greinst með illvígt mein. Nú tæpu einu og hálfu ári síðar er svo komið að leiðarlokum, Gummi hefur hlotið sína hvíld og við lítum um öxl og þökkum fyrir að hafa fengið að kynnst elskulegum mági okkar.

En komin eru leiðarlok

og lífsins kerti brunnið

og þín er liðin æviönn

á enda skeiðið runnið.

Í hugann kemur minning mörg,

og myndir horfinna daga,

frá liðnum stundum læðist fram

mörg ljúf og falleg saga.

(Höf. ók.)

Fyrstu minningar okkar um Gumma eru auðvitað úr sveitinni okkar við sumarstörf eða notalegar stundir frá jólum þar sem Gummi var mjög duglegur að sinna okkur yngstu systkinum Margrétar. Þær voru ófáar stundirnar sem fóru í að spila veiðimann eða ólsen. Það kom fljótlega í ljós í þessum spilamennskum að Gummi var mikill keppnismaður og vildi hann hafa þetta almennilegt og því var oftar en ekki haldið bókhald um sigra í ólsen-einvíginu og sá sem var fyrstur upp í tíu stig vann.

Svona var hann Gummi, allt upp á punkt og prik enda með eindæmum talnaglöggur maður og færni hans í hugarreikningi var nokkuð sem við dáðumst endalaust að, en hann hafði fengið strangt uppeldi hjá nunnunum í Hafnarfirði í þeim efnum. Aðferðir hans við að muna tölur, fæðingardaga og símanúmer utan að voru hins vegar svo flóknar að við ákváðum að punkta þetta frekar bara hjá okkur.

Gummi var sérlega bóngóður og varla er til sú íbúð sem við systkinin fluttum inn í sem hann ekki málaði og bar dótið inn í og jafnvel aftur út skömmu seinna án nokkurra athugasemda.

Gummi og Margrét systir okkar voru einstaklega samheldin og gerðu flesta hluti saman. Alltaf var Gummi tilbúinn að vera með, hvort sem var að skreppa norður, fara í bústað eða bara kíkja í systkinakaffi. Það var helst að mikilvægur Liverpool-leikur kæmi í veg fyrir að Gummi mætti á svæðið.

Jafnaðargeð Gumma var með ólíkindum, segjum við þekkjandi systur okkar, og við munum aðeins eftir einu skipti sem virkilega fauk í hann. Þá hafði eitthvað gengið á hjá þeim hjónum í sveitinni og á sunnudegi stekkur Gummi upp í bílinn og brunar af stað en skilur aðra úr fjölskyldunni eftir. Kristín fékk kvíðakast en Marta Rut var öllu rólegri og þegar Gummi kemur svo til baka spyr hún pabba sinn: „Pabbi, fórstu í fýlu?“ Gummi var snöggur að svara með bros á vör: „Nei, nei, ég fór á Blönduós í pílu.“

Já margar og góðar minningar kom upp þegar litið er um öxl en fyrst og fremst minnumst við Gumma fyrir sína þægilegu nærveru og glaðlyndi sem einkenndi hann alla tíð.

Svo, vinur kæri, vertu sæll,

nú vegir skilja að sinni.

Þín gæta máttug verndarvöld

á vegferð nýrri þinni.

Með heitu, bljúgu þeli þér

ég þakka kynninguna,

um göfugan og góðan dreng

ég geymi minninguna.

(Höf. ók.)

Elsku Margréti okkar, Kristínu, Mörtu, Benna, Halli, Systu og fjölskyldunni allri sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum góðan Guð að vaka yfir ykkur og veita styrk á þessum erfiðu tímum.

Benedikt, Ásta Nína, Halldóra og Guðmundur frá Stóra-Vatnsskarði.

Fallinn er frá góður vinur og félagi. Við æskuvinirnir kynntumst í Öldutúnsskóla í Hafnarfirði og með okkur tókst góð vinátta sem haldist hefur æ síðan. Það er mikið áfall þegar einn af félögunum fellur frá allt of snemma. Gummi var einstakt ljúfmenni, glaðlyndur með afbrigðum og mikill vinur vina sinna. Áhugamál okkar voru samtvinnuð á unglingsárunum og var fótbolti aðalmálið. Fljótlega kom í ljós að Gummi var lunkinn fótboltamaður og gríðarlega áhugsamur um enska boltann og var gallharður stuðningsmaður Liverpool. Áhuginn var svo mikill að hann keypti útvarp í þeim eina tilgangi að ná BBC-útsendingum frá Englandi í gegnum langbylgju. Svo sátum við í kringum útvarpið og Gummi með eyrað upp við það þar sem útsendingin var ekki sú skýrasta. Öll úrslit voru skrifuð niður í stílabækur og skipta þær tugum í dag. Gummi bjó á Holtsgötunni og það varð helsti samkomustaður okkar vinanna þar sem við hittumst oft. Frá Holtsgötunni streyma ótal gleðiminningar. Í kjallaranum þar sem Gummi var með sitt rými var sett upp borðtennisborð sem tók allt plássið og haldin borðtennismót. Þar eyddum við mörgum af okkar menntaskólaárum þar sem heimsmálin voru rædd á meðan við gerðum okkar klára til að halda út á lífið.

Þegar við urðum eldri og stofnuðum okkar fjölskyldur minnkaði samgangurinn eins og gengur en ávallt hélt sá strengur sem við bundumst í æsku. Gummi var duglegastur að hóa í okkur félagana ef honum fannst fulllangt frá síðasta hittingi og þá aðallega til að horfa á enska boltann (og kannski fá sér einn eða tvo kalda) og passaði hann upp á að það væri Liverpool-leikur þann daginn. Þá voru gleðin og skemmtilegheitin ávallt við völd. Það var mikil gæfa okkar félaganna að hafa Gumma að vini.

Fljótlega kom í ljós eftir að Gummi kynntist Möggu sinni að hann var mikill fjölskyldumaður og mjög stoltur af fjölskyldu sinni sem stækkaði ört og ekki síst barnabörnunum þegar þau komu hvert af öðru.

Nú er Gummi okkar fallinn frá eftir erfið veikindi og skilur eftir sig stórt skarð í okkar vinahópi. Með þessum orðum viljum við félagarnir minnast góðs vinar og sendum Möggu og fjölskyldu okkar innilegustu samúðarkveðjur. Þeirra missir er mestur en minningin um góðan dreng mun lifa.

Einar, Helgi, Hilmar, Guðmundur Skúli, Gunnar Þór, Jón Ari, Magnús og Rúnar.