Xi Jinping skoðar heiðursvörð. Það sem stjórnvöld í Kína vilja er ekki endilega það sem kínverskur almenningur vill.
Xi Jinping skoðar heiðursvörð. Það sem stjórnvöld í Kína vilja er ekki endilega það sem kínverskur almenningur vill. — AFP
Ásgeir Ingvarsson skrifar frá Playa del Carmen ai@mbl.is Íslenskt atvinnulíf þarf að gera það upp við sig hvernig er best að reyna að tjónka við lönd eins og Kína og Rússland.

Nýverið átti ég samtal við agalega skemmtilegan og fróðan mann sem hefur starfað í íslenskum sjávarútvegi um áratuga skeið. Barst talið að því hvernig innflutningsbann Rússa frá árinu 2015 hefur bitnað af miklum þunga á þeim íslensku fyrirtækjum sem veiða og selja uppsjávartegundir. Eins og lesendur muna var ákvörðun Rússa svar við þvingunaraðgerðum 40 ríkja vegna hernaðarbrölts Rússlands á Krímskaga og í austurhluta Úkraínu.

Flest bendir til að af öllum bandalagsþjóðunum hafi innflutningsbann Rússa valdið Íslandi hlutfallslega mestu tjóni og má slumpa á að tap íslensks sjávarútvegs nemi um og yfir 10 milljörðum króna fyrir hvert ár sem Rússlandsmarkaður er lokaður.

Viðmælandi minn vildi meina að reynslan af deilunni við Rússland sýndi að Ísland ætti ekki að skipta sér af alþjóðlegum hitamálum, og að fyrir smáþjóð sem er háð viðskiptum við umheiminn sé gáfulegast að fylgja stefnu hlutleysis og afskiptaleysis. En ég var ekki sannfærður og svaraði eitthvað á þá leið að fleira skipti máli í lífinu en það eitt að hámarka hagnað.

Nú herma fréttir að átök kunni aftur að brjótast út á landamærum Úkraínu og Rússlands. Á sama tíma er allt á suðupunkti í Asíu vegna beinna og óbeinna hótana kínverskra stjórnvalda um að ráðast inn í Taívan. Vonandi fer ekki allt á versta veg en ástandið gæti kallað á aðgerðir sem munu skaða hagsmuni íslensks atvinnulífs, a.m.k. til skemmri tíma litið.

Er ekki seinna vænna að ræða hvað gæti gerst, og væri langbest ef íslenskt atvinnulíf og stjórnvöld ná að sammælast um stefnu og viðmið þegar kemur að viðskiptum við vandræðalönd á borð við Rússland og Kína.

Mitt innlegg í umræðuna er nokkurn veginn þetta: til lengri tíma litið tel ég að það sé arðbærast fyrir íslensk fyrirtæki og íslensk stjórnvöld að láta samviskuna ráða för og láta viðskiptahagsmuni ekki koma í veg fyrir það að mótmæla hernaðarbrölti, ranglæti, kúgun, uppivöðslusemi og mannréttindabrotum.

Hvað kostar orðsporið?

Bandaríski milljarðamæringurinn Ray Dalio hljóp á sig í nýlegu viðtali við sjónvarpsstöðina CNBC en þangað var hann mættur til að segja frá að vogunarsjóðurinn Bridgewater hefði safnað nærri 1,25 milljörðum dala í nýjan sjóð sem myndi einvörðungu fjárfesta í Kína. Þáttastjórnandi CNBC spurði, eins og við var að búast, hvort það væri ekki umhugsunarvert að fjárfesta í Kína í ljósi t.d. alvarlegra mannréttindabrota sem þar fá að viðgangast og framgöngu kínverskra stjórnvalda á alþjóðavettvangi.

Svörin sem Dalio gaf voru afleit. Fyrst kom agalega lélegt yfirklór, um að hann gæti ekki verið sérfræðingur í öllum málum og hefði það fyrir reglu að fylgja fyrirmælum stjórnvalda í þeim löndum þar sem hann fjárfestir. Því næst sagði hann, eins og kínverskum embættismönnum er tamt að segja, að Bandaríkin glímdu líka við alls kyns mannréttindavandamál – „Og þýðir það að ég eigi að hætta að fjárfesta í Bandaríkjunum?“

En Dalio var ekki búinn, enda hélt þáttastjórnandinn honum við efnið, og líkti stjörnufjárfestirinn stjórnarfarinu í Kína við heimili sem stjórnað er af ströngum foreldrum. Á samfélagsmiðlum voru gagnrýnendur og spéfuglar ekki lengi að benda á að jafnvel ströngustu foreldrar stunda það ekki að láta óþæg börn hverfa af yfirborði jarðar, heilaþvo þau í fangabúðum eða selja úr þeim líffærin.

Sá lærdómur sem ætti að draga af viðtalinu við Dalio er að ef menn ætla á annað borð að freista gæfunnar í Kína er vissara að hafa á reiðum höndum sannfærandi afsakanir og góð svör við erfiðum spurningum.

Fáir sem þora eða tíma að mótmæla

Kína og Rússland virðast ekki vilja vera til friðs, en sýnu meiri áhyggjur þarf að hafa af framferði Kína.

Jafnt og þétt hafa kínversk stjórnvöld fært sig upp á skaftið og svo virðist sem í hverri vikunni bætist við ný dæmi þar sem voldug fyrirtæki og jafnvel heilu ríkin láta viðskiptahagsmuni aftra sér frá því að spyrna fótum við þessari þróun. Nú síðast tóku áskrifendur streymisþjónustu Disney+ í Hong Kong eftir að sígildur Simpsons-þáttur frá árinu 2005 hafði skyndilega horfið. Í umræddum þætti ferðast Simpson-fjölskyldan til Peking og heimsækir m.a. Torg hins himneska friðar og sér þar minnisvarða með áletruninni: „Á þessum stað, árið 1989, gerðist ekki nokkur skapaður hlutur“.

Minnir þetta á vandræðin sem Taylor Swift lenti í þegar hún skipulagði tónleikaferðalag um Kína í tilefni af útgáfu plötunnar 1989 , sem er fæðingarár söngkonunnar. Hún rak sig á að kínverskar verslanir tóku það ekki í mál að selja varning með áletruninni „1989“, og færslur á samfélagsmiðlum hverfa jafnharðan ef þær innihalda þetta eldfima ártal.

Tenniskonur snúa bökum saman

En þeim virðist samt fara fjölgandi sem þora að standa í lappirnar og eru jafnvel reiðubúnir að tapa háum fjárhæðum til þess að mótmæla aðgerðum kínverskra stjórnvalda. Þannig ákvað Tennissamband kvenna (WTA) fyrir viku að hætta öllu keppnishaldi í Kína og Hong Kong vegna hvarfs kínversku tennisstjörnunnar Peng Shuai. Lesendur muna eflaust að Peng olli fjaðrafoki fyrr í vetur þegar hún sakaði einn af æðstu leiðtogum kínverska kommúnistaflokksins um að hafa beitt sig kynferðisofbeldi. Hefur lítið sem ekkert sést til Peng síðan þá, nema í fylgd og undir eftirliti útsendara stjórnvalda. Þrátt fyrir tilraunir kínverskra ráðamanna til að fegra málið þykir ljóst að verið er að beita Peng þvingunum og segir WTA að það megi ekki líðast að þaggað sé niður í konum sem stíga fram eins og Peng gerði, og sópa ásökunum þeirra undir teppið.

Með ákvörðun sinni er tennissambandið sennilega að fara á mis við hundruð milljóna dala, en stjórnendur sambandsins telja – réttilega – að þeim sé ekki stætt á öðru.

En það er erfitt vera stjórnandi fyrirtækis og sporin hræða. Er skemmst að minnast þess hvernig Kínverjar brugðust við þegar Norðmenn veittu kínverska mannréttindafrömuðinum Liu Xiaobo friðarverðlaun Nóbels árið 2010. Sauð svo mikið á ráðamönnum í Peking að skrúfað var fyrir innflutning á norskum eldislaxi í hefndarskyni. Var fýlan slík að skipunartími sendiherra Noregs í Kína var lengdur úr fjórum árum í níu, af ótta við að kínversk stjórnvöld myndu ekki taka við skipunarbréfi nýs sendiherra. Það tók sjö ár fyrir Norðmenn að fá kínversk yfirvöld til að skrifa undir nýjan samning um viðskipti með sjávarafurðir og var titringurinn í Osló slíkur að þegar Dalaí Lama heimsótti Noreg árið 2015 þorði ekki einn einasti kjörni fulltrúi að funda með honum, af ótta við að styggja ráðamenn í Peking enn frekar og fá um leið norska laxeldisgeirann á bakið.

Meira að segja litla Ísland á sögu af þessum toga. Eflaust eru margir lesendur búnir að gleyma að Björk Guðmundsdóttir komst á svarta listann eftir að hún hélt tónleika í Sjanghaí ári 2008. Þar söng hún lagið „Declare Independence“, sem hún samdi upphaflega fyrir færeysku og grænlensku þjóðirnar en tileinkaði síðar íbúum Kósóvó, en á tónleikunum örlagaríku bætti hún við lagið orðunum „Tíbet! Tíbet!“, og gerði allt vitlaust.

Stjórnvöld eru ekki þjóðin

En það að standa uppi í hárinu á harðstjórunum þarf ekki endilega að þýða meiriháttar tap. Fyrr í vetur sótti ég ferðaráðstefnu í Las Vegas og gaf mig þar á tal við fulltrúa Trump-hótelkeðjunnar. Við ræddum reksturinn og ég stóðst ekki mátið að spyrja hvernig framkoma Donalds Trumps á stjórnmálasviðinu hefði litað afkomutölur hótelanna. Það kom mér ekki á óvart þegar hann sagði evrópska ferðamenn sjaldséða á Trump-hótelunum, enda hefði hegðun Trumps í embætti forseta gengið fram af mörgum. En ég hváði þegar maðurinn tjáði mér að þeim mun meira væri af kínverskum gestum.

„En eru Kínverjarnir ekki reiðir yfir því að Trump skyldi beita þá viðskiptaþvingunum?“ spurði ég. Þvert á móti, svaraði hótelfulltrúinn: „Þau eru þakklát fyrir að loksins þorði einhver að standa uppi í hárinu á kínverskum stjórnvöldum.“

Þetta ætti íslenskt atvinnulíf einmitt að hafa hugfast: það sem stjórnvöld vilja er ekki endilega alltaf það sem almenningur vill, og næsta víst að Donald Trump og Björk eiga fleiri aðdáendur í Kína en hinn hlutlausi og huglausi Ray Dalio gæti nokkurn tíma látið sig dreyma um.

Og eins og viðbrögðin við klaufalegum svörum Dalio sýndu þá felst heilmikil afstaða í því að ætla að þykjast ekki taka afstöðu. Eða eins og Taylor Swift sagði, þegar hún vitnaði í Aristóteles og hitti naglann á höfuðið í laginu „cardigan“ árið 2020: vinur allra er enginn vinur.