Leiðtogafundur Joe Biden Bandaríkjaforseti (t.h.) ræðir hér við Pútín Rússlandsforseta í gær að viðstöddum Blinken utanríkisráðherra.
Leiðtogafundur Joe Biden Bandaríkjaforseti (t.h.) ræðir hér við Pútín Rússlandsforseta í gær að viðstöddum Blinken utanríkisráðherra. — AFP
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Joe Biden Bandaríkjaforseti varaði í gær Vladimír Pútín Rússlandsforseta við því að vesturveldin myndu svara innrás Rússa í Úkraínu með „sterkum“ viðskiptaþvingunum og öðrum aðgerðum.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Joe Biden Bandaríkjaforseti varaði í gær Vladimír Pútín Rússlandsforseta við því að vesturveldin myndu svara innrás Rússa í Úkraínu með „sterkum“ viðskiptaþvingunum og öðrum aðgerðum. Forsetarnir ræddu saman um ástandið á landamærum Rússlands og Úkraínu í um tvær klukkustundir í gær.

Í yfirlýsingu Hvíta hússins sagði að Biden hefði greint Pútín frá þeim „djúpu áhyggjum sem Bandaríkin og bandamenn okkar í Evrópu“ hefðu af miklum liðssafnaði Rússa við landamæri þeirra að Úkraínu.

Þá ítrekaði Biden stuðning sinn við fullveldi Úkraínu á sama tíma og hann kallaði eftir því að dregið yrði úr þeirri spennu sem nú ríkti.

Munu sendinefndir frá Bandaríkjunum og Rússlandi ræða stöðuna áfram á næstu dögum.

Í yfirlýsingu rússneskra stjórnvalda um fund forsetanna sagði að viðræður þeirra hefðu verið hreinskiptnar og einkennst af fagmennsku. Fordæmdi Pútín „aukna hernaðargetu“ Atlantshafsbandalagsins við landamæri Rússlands, og bað hann Biden um að veita tryggingar um að bandalagið hygðist ekki stækka frekar í austurátt.

„Rússland hefur mikinn áhuga á að fá trygg og lögfest loforð sem myndu koma í veg fyrir útþenslu NATO í austurátt og að árásarvopnum verði komið fyrir í ríkjum með landamæri að Rússlandi,“ sagði í yfirlýsingu Kremlverja, en með slíku loforði yrði komið í veg fyrir að Úkraína gæti gengið til liðs við bandalagið. Biden veitti Pútín ekki nein loforð eða tryggingar varðandi kröfur Rússa um að Úkraínu yrði meinuð aðild að bandalaginu, en Biden mun ræða við Zelenskí, forseta Úkraínu, á morgun, fimmtudag.