Meistaradeild Hafrún Rakel Halldórsdóttir í Evrópuleik fyrr á tímabilinu.
Meistaradeild Hafrún Rakel Halldórsdóttir í Evrópuleik fyrr á tímabilinu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Breiðablik leikur í kvöld síðasta heimaleik sinn í riðlakeppni Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu þegar Breiðablik tekur á móti stórliði Real Madríd klukkan 20.

Breiðablik leikur í kvöld síðasta heimaleik sinn í riðlakeppni Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu þegar Breiðablik tekur á móti stórliði Real Madríd klukkan 20. Breiðablik er með eitt stig í keppninni eftir fjóra leiki en liðið á enn eftir að skora mark og reynir að bæta úr því í kvöld.

Ósennilegt er að mótsleikur í knattspyrnu hafi áður farið farið fram utandyra á Íslandi á þessum árstíma. Vel viðraði til knattspyrnuiðkunar í Kópavoginum í gær þótt vafalaust verði viðbrigði fyrir konur búsettar í Madríd að spila á íslensku vetrarkvöldi. Í gær mátti sjá snjó og klaka í kringum upphitaðan völlinn. Vegna sóttvarnareglna þurfa áhorfendur að framvísa niðurstöðum úr hraðprófi til að sækja leikinn en tvö fimm hundruð manna sóttvarnahólf eru í stúkunni á Kópavogsvelli.

Hafrún Rakel Halldórsdóttir, leikmaður Breiðabliks, sagði á blaðamannafundi í Smáranum í gær að liðið hefði reynt að undirbúa sig eins vel og kostur væri fyrir leikinn á morgun. Til dæmis með því að spila æfingaleiki við íslensk félagslið. Liðið væri í ágætu standi þótt komið sé fram í desember en augljóslega sé leikæfingin ekki sú sama og meðan á Íslandsmótinu stendur.

Hafrún Rakel segir að til að skora gegn stórliðum eins og Real Madríd eða París St. Germain þurfi að grípa tækifærin sem bjóðast. Marktækifærin séu ekki það mörg gegn slíkum andstæðingum. kris@mbl.is