Baldur Arnarsson Helgi Bjarnason Áætla má að skerðing Landsvirkjunar á raforku til fiskimjölsverksmiðja muni kalla á aukna olíunotkun upp á um 20 milljónir lítra, eða sem nemur um 54.

Baldur Arnarsson

Helgi Bjarnason

Áætla má að skerðing Landsvirkjunar á raforku til fiskimjölsverksmiðja muni kalla á aukna olíunotkun upp á um 20 milljónir lítra, eða sem nemur um 54.400 tonnum af kolefnisígildum, að sögn Gunnþórs Ingvasonar, forstjóra Síldarvinnslunnar.

Gunnþór segir í samtali við ViðskiptaMoggann í dag að ákvörðun Landsvirkjunar á mánudaginn um að hefja skerðingu á raforku strax muni því margfalda kolefnisspor íslensks sjávarútvegs, auk þess sem hún muni kalla á mikinn aukakostnað fyrir bræðslurnar.

„Bræðslurnar eru stærsti orkunotandi á landinu fyrir utan stóriðjuna. Áður notuðum við allt að 50 lítra af olíu á tonn í þessum verksmiðjum. Nú eru þær að nota 38-45 lítra á tonnið,“ segir Gunnþór meðal annars, en hann bendir jafnframt á að allar loðnubræðslurnar ellefu á landinu muni nú þurfa að vinna á fullum afköstum frá janúar og fram í mars, þar sem fram undan sé ein stærsta loðnuvertíð í manna minnum.

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson (Binni), framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, segir í samtali við Morgunblaðið að ákvörðun Landsvirkjunar sé stórfurðuleg, þar sem allar fiskimjölsverksmiðjurnar hafi fjárfest í rafvæðingu fyrir um eða yfir hálfan milljarð á hverja verksmiðju. „Svo er skrúfað fyrir rafmagnið þegar við þurfum á því að halda,“ segir Binni.

Binni segir að ekki verði hægt að keyra verksmiðjurnar af fullu afli á vertíðinni með olíu. „Það þýðir að við munum ekki ná kvótanum og þjóðin verður af útflutningstekjum.“